13AL+
13Al+ er samnorrænt og þverfaglegt samstarfsverkefni á milli íslenskra hönnuða og sænskra álframleiðslufyrirtækja sem hófst 2012 og gengur útá að skoða frekari möguleika sem felast í álframleiðslu á Íslandi.
Fimm íslenskir hönnuðir, þau Sigga Heimis, Þóra Birna, Snæbjörn Stefánsson, Garðar Eyjólfsson og Katrín Ólína fóru til Möbelriket og Design Region Småland í Svíþjóð þar sem þau öðluðust frekari verkkunnáttu á áli. Þá þekkingu nýttu hönnuðurnir síðar í samstarfi við íslenska og sænska framleiðendur.
Fyrstu eintök af vörum hönnuðana voru kynntar á Stockholm Design Week 2013 og síðar á HönnunarMars 2013. Ráðstefnan 13Al+ Tækifæri sem felast í álframleiðslu á Íslandi, sem haldin var í Reykjavík í ágúst 2013, var lokaáfangi verkefnisins sem slíks en hönnuðirnir hafa margir haldið áfram sinni þróunarvinnu með sín eigin verkefni.