HönnunarMars í maí settur á Hafnartorgi
HönnunarMars í maí opnaði í gær þar sem hátt í 90 sýningar breiddu úr sér um höfuðborgarsvæðið.
Að gefnu tilefni var óformleg opnun hátíðarinnar á Hafnartorgi þar sem Þórdís Kolbrún R. Gylfadótti, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs opnuðu hátíðina með trompetblæsti frá Ara Braga Kárasyni.
Rigningin setti sinn svip á þessa óformlegu opnun sem skapaði óneitanlega ákveðið mótvægi við bakgrunnsverkið, Sólarhringur eftir Þórdísi Erlu Zoega.
Sýningarstaðir HönnunarMars teygja sig vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið, allt frá Hafnartorgi og miðbæ, Granda, Vatnsmýri, Laugaveg, Hverfisgötu, Skeifu, Elliðaárstöð, Kópavog og Garðabæ.
Framtíðin, tækni, sjálfbærni, náttúra, arfleifð og nýsköpun er þátttakendum hugleikin viðfangsefni á hátíðinni í ár sem veitir innblástur inn í nýja tíma. Kynntu þér fjölbreytta dagskrá HönnunarMars í maí sem endurspeglar einstaka grósku íslensks hönnunarsamfélags á þessum umbrotatímum.
Engir stórir og mannmargir viðburðir eru á hátíðinni í ár vegna Covid. Allar sýningar og sýningarstaðir HönnunarMars fylgja gildandi sóttvarnarreglum er varða samkomutakmarkanir og grímuskyldu.
Hér má finna svipmyndir frá fyrsta degi hátíðarinnar. Ljósmyndari Aldís Pálsdóttir.