Íris Ösp opnar sýninguna Hringir í Jónshúsi í Kaupmannahöfn
Á morgun, föstudaginn 8. apríl, opnar grafíski hönnuðurinn og ljósmyndarinn Íris Ösp Sveinbjörnsdóttir sýninguna Hringir í Jónshúsi í Kaupmannahöfn. Sýningin fjallar um hið smáa í náttúrunni. Rýnt er í smáatriði í jörðinni sem fæstir veita eftirtekt, svo sem hrúðurkarla, trjábörk og mynstur í skófum.
Myndefnið er stækkað upp og þannig fær áhorfandinn tækifæri til að kynnast lífinu undir fótum sínum á nýjan hátt. Mynstur og áferðir sem oftast hverfa undir skósóla eru blásin upp og koma áhorfendum þannig á óvart – virka jafnvel sem óhlutbundin málverk við fyrstu sýn. Myndirnar eru settar fram í hring og þannig lögð áhersla á tenginguna við jörðina. Einnig er hringurinn tákn fyrir eilífðina í hringrás lífsins og mýktina í móður jörð. Á sýningunni eru myndir úr fjórum þemum og við hvert þema eru ljóð sem mynda brýr milli ljósmynda, landslags og meginstefsins um jörðina sem móður.
Allar myndirnar á sýningunni eru til sölu, auk þess verður Íris Ösp með bók til sýnis og sölu. Bókin er einstök blanda ljósmyndunar, grafískrar hönnunar og ljóðlistar. Í verkinu má uppgötva náttúruna við fótmál á nýjan hátt; með því að rýna í það sem sjaldan er veitt eftirtekt. Ljóðin bæta við óvæntu sjónarhorni; tengja hrjúfa jörðina við mýkt og alúð móðurinnar. Loks eru lesendur dregnir enn nær jörðinni með ilmi úr náttúrunni sem úðað verður á síður bókarinnar. Umbrotið endurspeglar umfjöllunarefnið með blaðsíðum skornum út í hringi og pappír sem tekur mið af myndefni hvers hrings.
Íris Ösp er grafískur hönnuður og ljósmyndari með BA gráðu í hönnun og ljósmyndun frá Accademia Italiana í Flórens. Íris hefur víðtæka reynslu á sviði hönnunar, m.a. af mörkun fyrirtækja og einstaklinga, hönnun og umbroti tímarita og bæklinga, ljósmyndavinnslu, umbúðahönnun og myndlýsingum. Hún hefur haldið tvær einkasýningar á ljósmyndaröð sinni Hringir: fyrsti hlutinn, hraun og mosi, var sett upp í Norræna húsinu vorið 2019. Annar hluti, fjaran, var svo sýndur í Gallerí Gróttu vorið 2020.
Opnun fer fram sem fyrr segir á morgun í Jónsshúsi í Kaupmannahöfn milli kl. 17-20.