Sýningin Dieter Roth: grafísk hönnun opnar í Hönnunarsafni Íslands
Á sýningunni er lögð áhersla á að sýna verk Dieters sem flokkast undir grafíska hönnun og hafa mörg hver ekki fengið mikla athygli hingað til. Sýningarstjórar eru Arnar Freyr Guðmundsson, Birna Geirfinnsdóttir og Fraser Muggeridge.
Þýsk-svissneski listamaðurinn Dieter Roth (1930–1998) flutti til Reykjavíkur 27 ára gamall. Hann hafði lært grafíska hönnun fyrir offset prentun í Sviss og bar með sér dýrmæta þekkingu á hönnun, prentfrágangi og prentun.
Á sýningunni eru auglýsingabæklingar, tímarit, veggspjöld, myndlýsingar, bókakápur, matseðlar, textílprent og bréfpokar. Líftími verkanna er oft ekki langur, þau ekki talin verðmæt og fá eintök hafa varðveist. Þessi verkefni dýpka hinsvegar þekkingu okkar á þróun grafískrar hönnunar á Íslandi.
Á starfsferli Dieters urðu miklar framfarir í framleiðslu og prenti á Íslandi. Á sjötta áratugnum voru verkin framleidd með prentmótum eða lausaletri og því að miklu leyti byggð á letri og línum. Dieter ruddi brautina að þróun uppsetningarvinnu fyrir offset-prentvélar sem voru til staðar hér á landi en höfðu verið í takmarkaðri notkun. Hann rannsakaði og vann með grafísk og týpógrafísk form og í verkum hans birtist djúpur skilningur á grundvallaratriðum prentunar.
Óhætt er að segja að Dieter Roth sé í hópi frumkvöðla sem mótuðu grafíska hönnun á Íslandi.
Sýningaropnun er 28. október kl. 18.00.