„Að hanna kerfi sem sinnir mjög ólíkum þörfum“
Teymið Kolofon&co var fyrr i haust valið til að hanna merkingar og merkingakerfi fyrir ferðamannastaði og friðlýst svæði. Vinnan er nú í fullum gangi og að mörgu að huga í svona stóru verkefni. Hér má fá smá innsýn inn í vinnuna bakvið tjöldin frá Gerði Jónsdóttur og Herði Lárussyni, verkefnastjórum verkefnisins.
Teymið er skipað fagfólki úr ólíkum áttum sem eiga það sameiginlegt að hafa unnið að stórum og viðamiklum verkefnum á sviði hönnunar og menningar. Í teyminu eru hönnunarstofan Kolofon með Hörð Lárusson grafískan hönnuð sem verkefnastjóra verkefnisins, Stefán Pétur Sólveigarsson iðnhönnuður, Gerður Kristný rithöfundur, Kristján B. Jónasson bókmenntafræðingur og Guðmundur Jónasson byggingarverkfræðingur. Ráðgjafar teymis eru Birna Lárusdóttir fornleifafræðingur, Gísli Gíslason, landslagsarkitekt og Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir líffræðingur.
Gerður Jónsdóttir er verkefnastjóri verkefnisins fyrir hönd Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs, sem í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið auglýsti í sumar eftir hönnunarteymi til að hanna merkingar, merkingakerfi og merkingahandbók fyrir ferðamannastaði og friðlýst svæði.
Verkefnið byggir á stefnumarkandi landsáætlun 2019–2029 og verkefnaáætlun 2019–2021 um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum og felur í sér að uppfæra núverandi merkingakerfi og aðlaga að nýjum áskorunum.
„ Allir þeir sem hafa ferðast um landið vita að merkingar eru nokkuð tilviljunarkenndar og ljóst að ekki er stuðst við samræmda aðferðarfræði. Vandamálið við þetta er að skortur á merkingum og lélegar merkingar geta haft mjög alvarlegar afleiðingar, jafnvel valdið mannstjóni. Verkefninu er ætlað að bæta úr þessu. Upphaf þess má rekja rúmlega tvö ár aftur í tímann en árið 2018 samþykkti alþingi þingsályktun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Í henni eru sett fram markmið um stýringu og sjálfbæra þróun, vernd náttúru og menningarsögulegra minja, öryggismál, skipulag og hönnun og ferðamannaleiðir. Þar er m.a. lögð áhersla á að samræma aðferðafræði við merkingar. Sem hluti af framkvæmdinni var sett fram verkefnaáætlun og samstarfshópar mótaðir til að fylgja verkefnunum eftir,“ segir Gerður en Miðstöð hönnunar og arkitektúrs fékk sæti í samstarfshópi um eflingu fagþekkingar, hönnunar og samræmingar við uppbyggingu innviða til verndar náttúru- og menningarsögulegum minjum á ferðamannastöðum. Eitt af verkefnum samstarfhópsins snérist um áðurnefndar merkingar og var Miðstöðin fengin til að leiða þessa tilteknu vinnu innan samstarfshópsins.
Samkvæmt Gerði er markmið verkefnisins margþætt og marglaga, og getur verkefnið í heild haft jákvæð áhrif á mjög marga aðila sem og landið sjálft því réttar merkingar geta bjargað mannslífum, haft áhrif á lýðheilsu landsmanna, bætt upplifun á náttúrunni, stuðlað að vernd náttúru og menningarsögulegra minja, aukið öryggi og miðlað jákvæðri ímynd af landi og þjóð.
„Ég sjálf er síðan þeirrar trúar að fagurfræði og siðferði haldist í hendur. Það stækkar okkur að vera innan um fallega hluti. Við förum að bera meiri virðingu fyrir umhverfi okkar, okkur sjálfum og öðrum.“
Hönnunateymið Kolofon&co á að skila af sér um miðjan desember á þessu ári og vonir standa til að almenningur verði farinn að sjá afraksturinn á vormánuðum 2021. Í því samhengi er mikilvægt að gera sé grein fyrir að þessar merkingar eiga að standa næstu áratugina.
Þannig að það er mikilvægt að vera ekki að ana út í hlutina og skipta um merkingar á öllu landinu á nokkrum mánuðum. Það væri ósjálfbært. Innleiðingarferlið mun taka nokkur ár. Þegar eldri gerð af skilti er orðið illa farið eða með úreltar upplýsingar þá er nýtt skilti sett upp og þá að sjálfsögðu mun staðsetning og allt annað sem viðkemur skiltinu vera eftir merkingahandbókinni sem Kolofon&co eru farin að vinna að.
Hörður Lárusson er grafískur hönnuður og verkefnastjóri verkefnisins fyrir hönd Kolofon&co. Hann og hans teymi eru á fullu þessa dagana í hönnunarvinnu og gerð prótótýpa svo dæmi séu tekin. Hann segir að verkefnið hafi kallað til þeirra og það hafi ekki komið annað til greina en að sækja um á sínum tíma en hönnunarstofan Kolofon hefur unnið töluvert með upplýsingahönnun og líta á það sem eina af meginstoðum sínum.
Verkefnið sem þetta felur í sér töluvert af áskorunum, stórum sem smáum.
Því dýpra sem maður kafar í það, því fleiri finnur maður. En það er líka hluti af því sem gerir það mjög spennandi. Af þeim öllum er það samt líklegast stærðin á merkingakerfinu sem verður helsta áskorunin — að hanna kerfi sem sinnir mjög ólíkum þörfum, en um leið kerfi sem er ekki of flókið og með það mörgum útfærslum sem gerir það óþarflega flókið. Að finna þennan gullna milliveg sem flestir geta og vilja nota.
Teymið er vel skipað fagfólki í hverju sæti þar sem fjölbreytnin er í fyrirrúmi. Verkefnaskiptingin er skýr og breiddin góð, en samtalið skiptir miklu máli.
„Við erum svakalega heppin með að hafa náð saman svona góðu teymi í verkefninu. Að vinna í svona sterkum hóp á án efa eftir að skila mörgum góðum hugmyndum að vinna saman úr. Sem er líka eins gott, því fjölbreytnin í þörfum verkefnisins eru meiri og flóknari en maður á að venjast, einfaldlega út af stærð kerfisins. Hver og einn hefur sitt afmarkaða verkefni, en samtalið er mikilvægt og allt er borið undir hópinn. Endanleg útkoma er í raun alltaf niðurstaða teymisins í heild. Þetta getur þýtt góðar umræður, þar sem við erum með misjafnan bakgrunn og misjafnar áherslur. En útkoman verður alltaf betri eftir umræðurnar.“
Grunnþarfir og merkingar hafa lítið breyst í gegnum árin en skilningur mannsins á hvað eru góðar merkingar hefur hinsvegar þróast hratt. Þar spilar tæknin stórt hlutverk.
„Stærsta breytingin hér, eins og annarsstaðar, er tæknin. Nútímatækni gerir okkur kleift að gera nýja hluti nánast vikulega. Og hér erum við ekki bara að tala um hið augljósa, það að við erum öll komin með öfluga tölvu í vasann, heldur mikið frekar tækni í framleiðslu, efnisþróun og möguleikar í gerð skiltanna. Með nútíma framleiðsluleiðum getum við sem dæmi framleitt mikið hraðar og á hagkvæmari hátt, bæði hönnunarhlutann og framleiðsluna sjálfa, sem gerir allt ferlið frá „Mig vantar skilti!” að uppsettum merkingum auðveldari. Það þýðir einfaldlega fleiri skilti sem verða í raun framleidd og þar með þéttara kerfi og betri merkingar.“
Í stóra samhenginu skilar betra merkingarkerfi meira og betra öryggi fyrir erlenda og innlenda gesti landsins.
„Bæði raunverulegt öryggi fyrir hættum landsins, sá hluti verkefnisins sem er ófrávíkjanlegur. En með betri merkingum á landsvísu eykst líka öryggistilfinning gestanna, og þar með eykst gleðin og ánægjan að njóta landsins. Það er líka okkar von að kerfið verði notað á þann veg að það opni nýja staði fyrir gestum. Við höfum heyrt fjölda dæma um að gestir, íslenskir og erlendir, gangi mögulega af stað til að finna tiltekinn stað en hætti svo fljótlega við vegna óvissu um hvert á að fara og hversu langt það er á áfangastað. Þetta er birtingarmynd af þessu óöryggi sem getur hamlað. Með góðum merkingum vonumst við til að fleiri heimsæki staði, sem oft eru rétt úr augsýn en við vitum bara ekki af þeim. Þar að auki vonumst við auðvitað til að stórt verkefni eins og þetta verði öðrum hvatning að vinna vel að merkingum og merkingakerfum.“
Hörður segir að verkefnið bjóði upp á óendanlega möguleika í þróun og þau séu með stórar hugmyndir hvað skuli gera að loknum fyrsta hluta.
„Mikilvægasta skrefið, eftir að reglur hafa verið settar saman, er að búa til aðstæður sem einfalda notkun á þeim og í raun smíða kerfi sem hjálpar fólki að nota merkingarnar og setja þær upp. Það eru ótrúlega margir sem koma að svona verkefni, við í teyminu erum bara einn hluti í risa keðju. Okkar hluti er mögulega sá sem er einna sýnilegastur en langt í frá að vera mikilvægastur. Og með alla þessa vinnu sem hefur verið unnin, verður svo mikilvægt að hlúa að verkefninu áfram. Með því og með því að líta í raun aldrei á það sem einhverju sem er lokið, verður hægt að halda góðu samræmdu merkingakerfi í notkun um áratugi.“