Af ást til fagmennskunnar
Borghildur Sölvey Sturludóttir, arkitekt skrifar:
Á heimsvísu er umræðan um manngert umhverfi á forsendum framtíðarinnar, hvernig við getum búið okkur betri heim, hvernig við getum stuðlað að nýsköpun og hönnum sem svarar kalli framtíðar út frá umhverfisjónarmiðum og hugmyndum um gott samfélag.
Nýverið voru í samráðsgátt stjórnvalda kynnt drög að reglugerð [Hlutdeildarlán] til umsagnar en þau lán eiga að hjálpa fólki með sín fyrstu íbúðarkaup. Að mörgu leyti háleit hugmynd en þegar betur er að gáð – gamaldags nálgun sem feykir okkur 20 til 30 ár aftur í tímann. Ríkisvaldið er því miður frekar illa að sér í heimilissköpun og skipulagsmálum almennt.
Með hlutdeildarlánum ráðast stjórnvöld ekki að rót vandans, sem hefur ekkert með skipulag og byggingatæknilegar lausnir að gera. Heldur birtist kerfisleg skekkja sem rekja má til fjármálageirans og þá sérstöku hugmynd að líta á íbúðarhúsnæði sem fjárfestingarkost og sem atvinnuveg.
Borgir nágrannalanda okkar stefna ótrauðar á framtíð fulla af gæðum fyrir fólk, þéttingu byggðar og góðan arkitektúr. Stefin í dag eru sterk – við þurfum hús sem rúma fjölbreytileika í borg með gæðum svo sem sólarljósi, dagsbirtu, vönduðu og hlýlegu efnisvali og fjölbreytileika. Íþróttahús verða að samkomustöðum, og nú á tímum Covid verða margar íbúðir í dag að fjölbreyttum skólastofum og skrifstofum. Þetta krefst mikils af skipulagsfræðingum, arkitektum, landslagsarkitektum og þeim sem þróa hið manngerða umhverfi. Rýmin í kringum húsin verða mikilvægari þar sem gróður, skjól, dagsbirta, sólargeislar og fjölbreytileiki leika lykilhlutverk í lífsgæðum okkar. Alla fermetra verður að nýta og huga þarf að gæðum og góðu aðgengi. Hverfin fá enn meiri vigt og allstaðar verður að stefna að því að hverfi geti ýtt undir og boðið upp á ríka blöndun fyrir heimili og vinnustaði, að börn geti með góðu móti orðið sjálfbjarga. Það eitt og sér dregur úr mengun. Rannsóknir sýna okkur betur og betur hversu hættuleg bílamengun er fyrir lungu 0 – 5 ára barna, það ætti að vera heill málaflokkur eins ráðuneytis tengdur samgöngum.
Þess vegna er það þyngra en tárum tekur taki að lesa yfir og gera sér grein fyrir áherslum og ég leyfi mér að segja algjöru metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar er kemur að uppbyggingasýn og íbúðarkaupum til handa borgurum þessa lands.
Þorvaldur Thoroddsen skrifar eftir ferð sína um Múlasýslu árið 1897: „Því miður eimir eftir sums staðar af hinum gamla húsgangshætti, að hugsa eingöngu um stundarhaginn, nokkra aura í svipinn, en láta sér standa á sama, hvort gerður er stórskaði öldum og óbornum.“ (Úr Ferðabók Þ.Th. nr. IV, (2. útg. 1959, bls. 289-290)). Það er vel hægt að færa fyrir því rök að reglugerðin um hlutdeildarlán sem nýlega birtist í samráðsgátt Alþingis herji einmitt á þennan stundarhag – hvernig „reddum við“ íbúðarmálum núna, án þess að horfa til komandi kynslóða?
Ég vil ganga svo langt og segja að þetta frumvarp vinni gegn og til höfuðs fagmennskunni.
Við gerð frumvarpsins var leitað samráðs hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Samtökum iðnaðarins og byggingaraðilum. Ekki skipulagsfræðingum (ekki einu sinni Skipulagsstofnun), ekki arkitektum, ekki landslagsarkitektum! Nei, leitað var til stofnunar sem hefur ekki einn arkitekt á sínum snærum sem sinnir stefnumótun eða framtíðarsýn. Samtök iðnaðarins eru svo regnhlífarsamtök byggingaraðila sem voru því tvíefld mætt til leiks. Ofan á allt þetta er svo á sama tíma verið að leggja niður nýsköpun og rannsóknir í þeirri mynd sem við þekkjum með Nýsköpunarmiðstöð og allt óvíst hvernig komandi módel verður!
Arkitektafélag Íslands sendi inn umsögn um umrædda reglugerð en í þeirri umsögn kemur m.a. fram að með því að skilyrða hlutdeildarlán á höfuðborgarsvæðinu við nýjar íbúðir er verið að:
- Mismuna fólki um búsetu eftir landshlutum.
- Stuðla að tvískiptum húsnæðismarkaði þar sem aðeins þeir sem ekki þurfa að treysta á hlutdeildarlán hafa raunverulegt val um búsetu.
- Vinna gegn félagslegri blöndun þar sem fólk úr mismunandi tekjuhópum og á mismunandi aldri býr saman sem eykur aftur möguleika fólks á að færast á milli félagslegra hópa.
- Að setja fjölskyldum þann eina kost að flytja börn úr leik- og grunnskólaumhverfi sem þau eru í með fyrirsjáanlegum erfiðleikum fyrir börn og fjölskyldur þeirra.
- Stuðla að einsleitum hverfum, hverfahlutum, lóðum eða fjölbýlishúsum þar sem lágtekjufólk sem treystir á hlutdeildarlán er búsett með neikvæðum félagslegum afleiðingum.
Frumvarpið er því algjörlega snautt allri fagmennsku. Allt það sem ástundað er í skipulagsmálum og arkitektúr í löndunum í kringum okkur er hunsað. Í frumvarpinu birtist það sem allir í kringum okkur eru að forðast eða eyða. Fjármunum og kröftum er veitt í tóma vitleysu. Blöndun og þétting byggðar er það sem margoft hefur sýnt sig að vera besta samfélagslega úrræðið út frá hagfræðilegum og umhverfislegum vísum. Það virðist ekki vera til staðar í þessari reglugerð og er það í besta falli sorglegt og í versta falli stórhættulegt!
Sú fagmennska, rannsóknir og framtíðarsýn sem landið hefur að geyma eru á engan hátt nýtt. Það er ekki sáð til langs tíma – og á meðan byggingaraðilar eru einir af stærstu samráðsaðilunum í frumvarpi um hlutadeildarlánin, þá er ljóst að verið er að hyggla stundargróða en ekki að fjárfesta í til framtíðar.
Það er aðför að fagmennsku!
Það er þörf fyrir lengri tímamörk en það hvernig húsnæðismálum er reddað í frumvarpi – ráðamenn þjóðarinnar vilja líklega geta sett þetta frumvarp á „to do listann“ og hakað við. Frumvarpið kostar bara svo mikið til framtíðar í formi lélegs skipulags, lélegrar nýtingar á auðlindum og úreltra hugmynda um herbergjafjölda. Það er þörf á ráðherrum sem treysta sér til að taka ákvarðanir sem marka góð spor lengra inn í framtíðina en til næstu kosninga.
Byrjum upp á nýtt og gerum betur. Nýtum þá þverfaglegu fagþekkingu sem er á eyjunni. Fáum fjölda stofnana og aðila til leiks. Leyfum fleirum ráðherrum og ráðuneytum að eiga hlut að máli. Þetta er jú lýðheilsumál, skipulagsmál sem og fjölskyldumál – og meira að segja samgöngumál!
Borghildur Sölvey Sturludóttir
Arkitekt