Mannlíf eða mislæg gatnamót
Ákvörðun um að byggja Barnaspítala Hringsins var tekin skömmu fyrir aldamót þegar Hringskonur, bakhjarlar spítalans voru búnar að safna fé í 60 ár með bakstri, prjóni og hekli. Áætlaður kostnaður var einn milljarður. Á sama tíma tóku stjórnvöld ákvörðun um að byggja mislæg gatnamót. Áætlaður kostnaður var einn milljarður.
Ákvörðun um að byggja mislæg gatnamót þótti sjálfsögð, skynsöm og hagkvæm þrátt fyrir að enginn hefði safnað fé, tálgað spítukarla, hnýtt flugur né annað til að selja og safna fyrir þeirri framkvæmd. Það er margt í okkar samfélagi sem hefur haft stöðu hins sjálfgefna og gagnrýnislaust verið sett í forgang á forsendum skynsemi, hagkvæmni og ábyrgra ákvarðana svo sem að virkja vatn frekar en að vernda vatn, keyra bíl frekar en að taka strætó, greiða lögfræðingi meira en kennara, vinna í banka frekar en búð, velja karl frekar en konu, búa til stæði frekar en stíg, framkvæmd umfram fegurð, gróða umfram gæði og velja mislæg gatnamót umfram mannslíf. Það hefur verið sjálfgefið að leggja megináherslu á fullnýtingu auðlinda, stórar og frekar framkvæmdir og viðhald gamalla valda- og efnahagskerfa oft á kostnað mikilvægra verðmæta; náttúru, mannlífs, menntunar, sköpunar, fegurðar og gæða. Hið sjálfgefna hefur þannig í krafti ímyndaðrar skynsemi og hagkvæmni skapað svo mikið ójafnvægi að það ógnar nú allri náttúru og mannlífi.
Nýr veruleiki blasir við sem kallar á nýja nálgun og aðferðir til að tryggja lífvænlega framtíð. Miklar áskoranir kalla á stórar hugmyndir og raunverulegar lausnir. Það þarf að koma á jafnvægi milli manns, náttúru, neyslu, framkvæmda og tækni. Eina færa leiðin er að nálgast verkefnið með skapandi lausnum, stórhug, kjark, auðmýkt og mikilli bjartsýni. Leiðin snýst ekki síst um að skapa áður óþekkt jafnvægi í ákvarðanatöku og forgangsröðun fjármagns þar sem ólík sjónarmið, þekking og faghópar mætast á jöfnum grundvelli. Hönnuðir hafa menntun, þekkingu og reynslu til að skapa, skilgreina og búa til nýjar leiðir, þeir eru vanir að takast á við áskoranir, hanna lausnir, tengja á milli ólíkra faggreina, nálgast mál frá nýjum sjónarhóli, og um leið ögra viðteknum venjum og hugmyndum. Góð hönnun setur þarfir fólks, umhverfi og fegurð í forgang og leitar lausna sem einfalda, greiða leiðir og bæta lífsg.agnvart viðv-fangsefninui lausnirta lapandi greinum r en að greiða hönnun. Ar en tökum þvæði. Víða um heim er hönnun talin lykiltæki til breytinga og nýsköpunar. Við megum engan tíma missa það verður að efla þessar greinar verulega hér á landi, því við höfum ekki efni á öðru en að gera hönnun að megin drifkrafti í íslensku samfélagi.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 27. nóvember.