Áhugaverðar sjálfbærar lausnir frá Norðurlöndunum
Norræna samstarfsverkefnið Nordic Sustainable Cities sýnir áhugaverðar sjálfbærar lausnir frá Norðurlöndunum og fjallar um norrænar sjálfbærar lausnir í manngerðu umhverfi og sýnir dæmi um leiðir til að auka lífsgæði, efla mannlíf og bæta umhverfið.
Við vitum öll að það er flókið ferli að skapa sjálfbært samfélag. Þar er engin ein lausn heldur þurfum við að taka þúsund lítil skref í átt að takmarkinu
Aukið þéttbýli og hröð uppbygging borga hefur áhrif á lífsgæði milljónir manna um allan heim og skapar áskoranir fyrir heilsu, öryggi og umhverfi. Á sama tíma skapast alþjóðleg eftirspurn eftir góðum lausnum fyrir borgarumhverfið. Norðurlönd eru framarlega í þróun sjálfbærra lausna og mannlegrar nálgunar í þéttbýli en sýningin dregur fram góð dæmi frá öllum löndunum.
Sýningin er samstarfsverkefni hönnunar og arkitektamiðstöðva á Norðurlöndum: ArchInfo í Finlandi, ArkDes & Form/Design Center í Svíþjóð, DAC - Danish Architecture Center, DOGA Design & Architecture Norway og Hönnunarmiðstöð Íslands. Verkefnið er styrkt af Nordisk innovation.
Eftirfarandi verkefni eru framlag Íslands í sýninguna:
-
Upphitun gatna – Circular Economy City
– Reykjavíkurborg hefur endurnýtt heitt vatn í áratugi sem rennur í gegnum húsin okkar og leitt það inn í gatnakerfið, göngu- og hjólastíga sem og umferðargötur.
- Guðlaug – Healthy City
– Íslensk sundmenning á sér fáa líka. Akranesbær hefur tekist að skapa nýtt aðdráttarafl með Guðlaugu, heitri náttúrulaug við Langasand. Guðlaug er hönnuð af Basalt arkitektum og er vatnið fengið úr Deildartunguhver.
- Lifandi landslag C40 – Low Carbon City
– Lifandi landslag er framtíðarverkefni unnið fyrir samkeppnina C40 Reinventing Cities en höfundar verkefnisins eru Jakob+Macfarlane. T.ark, Landslag, Efla, Heild og Upphaf. Lifandi landslag er kolefnishlutlaus bygging sem er hönnuð með vistvæn gildi að leiðarljósi.
- Borgarlínan – Mobility City
– Borgarlínan er leið borgarinnar til að ná markmiðum sínum um kolefnisjafnvægi árið 2040. Borgarlínan er almenningsvagnakerfi þar sem ferðir eru tíðar, á forgangsakrein, og ná yfir öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.
- Votlendi – Resilient City – Reykjavíkurborg hefur unnið að endurheimt votlendis í Úlfarsárdal, skv. aðalskipulagi borgarinnar. Alls voru 87 hektarar af svæði teknir undir verkefnið en endurheimt votlendis er talið hafa hamlandi áhrif á loftslagsbreytingar.
Hvert og eitt þema verkefnisins tengist sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna (UN17). Nordic Sustainable Cities verður sett upp á HönnunarMars 2020 og síðan sett upp á Akranesi í framhaldinu.
Fyrir nánari upplýsingar um Nordic Sustainable Cities vinsamlegast hafið samband við Hönnunarmiðstöð Íslands á info@honnunarmidstod.is