Þeir afla sem sækja á skapandi mið
Viðtalið birtist fyrst í 8. tbl. HA, 2018
Segja má að saga Sjóklæðagerðarinnar sé samofin sögu lands og þjóðar en hún er eitt elsta og stærsta íslenska fataframleiðslufyrirtækið og í dag líklega þekktust fyrir að hanna, framleiða og selja vandaðan skjólfatnað undir vörumerkinu 66°Norður.
Fyrirtækið er í eigu hjónanna Bjarneyjar Harðardóttur framkvæmdastjóra og Helga Rúnars Óskarssonar forstjóra sem keyptu sig inn í Sjóklæðagerðina árið 2011 og eiga í dag meirihluta eignarhlutans á móti bandarískum fjárfestingasjóði. Áður starfaði Bjarney sem markaðsstjóri fyrir ýmis vörumerki ásamt því að kenna markaðsmál og vörumerkjastjórnun. „Í kennslunni notaði ég ýmis dæmi um vel þekkt erlend merki en velti því ítrekað fyrir mér hvort við Íslendingar ættum ekki merki sem gæti komist á sama stall. Ég hugsaði þá að ef það væri eitthvert íslenskt merki sem ég hefði trú á að gæti komist langt þá væri það 66°Norður.“
Í kjölfar kaupa þeirra hjóna voru gerðar ákveðnar áherslubreytingar hjá fyrirtækinu sem miðuðu að því að auka bæði gæði og framleiðslugetu og byggja upp vörulínu og vörumerki 66°Norður, meðal annars með því að fjölga hönnuðum. „Við endurskoðuðum alla línuna, byggðum á því sem fyrir var, bættum vöruúrvalið með því að fylla upp í ákveðin „göt“ í línunni og þróuðum hana áfram í takt við stíl 66°Norður,“ útskýrir Vala Melstað, listrænn stjórnandi og yfirhönnuður merkisins. Vala segir ákveðið áreynsluleysi einkenna stílinn, flíkurnar séu stílhreinar með fjölbreytilegt notagildi sem höfði til breiðs hóps: „Mér finnst skemmtilegt að sjá hvernig tæknilegur útivistarfatnaður er orðinn meira tískutengdur og sýnilegur á sýningarpöllunum. Íslendingar hafa lengi notað þennan fatnað dagsdaglega og það hefur alltaf talist eðlilegt „lúkk“, sem skýrist líklega af veðrinu og kuldanum.“ Bjarney bætir við að það gefi vörumerkinu mikinn trúverðugleika á erlendum mörkuðum að vera frá Íslandi.
Fyrirtækið byggir á mikilvægri arfleið. „Sjóklæðagerðin hóf að framleiða sjófatnað á tímum þegar sjóstakkurinn gat skilið milli lífs og dauða. Gæðin hafa því alltaf verið kjarninn í fyrirtækinu og til þess að tryggja þau er gríðarlega mikilvægt að fjárfesta í bestu efnunum. Svo er eitt að vera með tæknileg efni. Annað er að kunna að búa til vörur sem hámarka eiginleika efnanna,“ segir Bjarney. „Tæknin á að styðja við flíkina,“ heldur Vala áfram og útskýrir að það sé meðvituð ákvörðun og í takt við stefnu fyrirtækisins í gegnum tíðina að útlitið á vörunum miði við daglegan fatnað, þarfir fólks og ríkjandi strauma frekar en að mikið sé lagt upp úr mjög tæknilegu útliti.
Hönnun og framleiðsla á skjólfatnaði krefst sérhæfingar og sérþekkingar. Í dag fer meirihluti framleiðslunnar fram í þremur verksmiðjum sem fyrirtækið á í Lettlandi. „Við göngum að þessari þekkingu sem vísri og gerum okkur jafnvel fyrst grein fyrir sérhæfingunni þegar við vinnum með hönnuðum úr öðrum geirum,“ nefnir Vala. Að vera með eigin framleiðslu þýðir að fyrirtækið getur tryggt gæði og framleitt í minna magni. „Þegar við gerum nýja flík þá getum við framleitt minni lotur en ella og séð hvernig flíkin reynist. Seinna getum við breytt, bætt og framleitt meira. Tæknilegar flíkur þurfa mun fleiri prófanir en aðrar og algengt er að verktakar séu einungis tilbúnir að framleiða tvær prufur. Við getum hins vegar gert 4–5 prufur og ef við erum ekki ánægð með útkomuna þá gerum við eina prufu í viðbót!“ segir Vala og játar því að í dag séu kúnnar meðvitaðri um samfélagslega ábyrgð og umhverfisvernd en áður: „Það er mun betra fyrir umhverfið að gera flík sem endist sem lengst. Allar okkar vörur eru framleiddar við mjög góðar aðstæður. Við vinnum með efnisbyrgjum í fremstu röð sem eru stöðugt að endurbæta sínar vörur og notum vottaðan dún og loðfeldi. Tæknileg efni eru mjög dýr þannig að við leggjum upp með að sóa sem minnst og framleiðum ýmsa smáhluti eins og hanska til að nýta efnin betur. Í okkar huga er þetta almenn skynsemi.“
66°Norður hefur á undanförnum árum gefið út minni línur í samstarfi við innlenda og erlenda hönnuði á ýmsum sviðum. Afrakstur nýjasta samstarfsins leit dagsins ljós á tískuvikunni í Kaupmannahöfn í ágúst síðastliðnum sem hluti af vor- og sumarlínu danska tískumerkisins Ganni fyrir árið 2019. Þar var Kríujakkinn í forgrunni en hann kom fyrst á markað árið 1991 og var einn af fyrstu jökkum 66°Norður sem gerður var úr öndunarefni. „Ganni er eitt áhugaverðasta og stærsta tískumerki Dana sem hefur vaxið gríðarlega síðustu fimm árin,“ segir Bjarney og Vala bætir við að samstarfið hafi borið brátt að: „Ferlið tók um átta vikur sem vanalega er ógerlegt.“ Þar sem 66°Norður gefur sig út fyrir ákveðin gæði er mikilvægt að framleiðslan sé í þeirra höndum. Stílarnir sem þróa átti voru því valdir út frá því sem hægt var gera innan þessa þrönga tímaramma og bæði efni og litir þurftu að vera til á lager.
Vala segir að það sé ekki síður skemmtilegt að vinna með íslenskum hönnuðum: „Það hefur loðað við hérlendis að litið sé á fatahönnun sem áhugamál en ekki alvöru „bisness“. Mér finnst mikilvægt að við sem fyrirtæki tökum þátt í því að sýna fram á að þetta er alvöru iðnaður sem Íslendingar ættu að styðja betur við því við eigum mikið af flottum hönnuðum – duglegu fólki sem er að gera skemmtilega hluti.“ Vala segist velta því fyrir sér hvort sú vitundarvakning verði ekki fyrr en erlendir fjárfestar byrja að fjárfesta í íslenskri hönnun í meira mæli: „Íslendingar fatta oft ekki hvað þeir eiga fyrr en einhverjir aðrir uppgötva það. Það getur reynst litlum fyrirtækjum erfitt að fá bankalán og þar að auki eru fjárfestar, sem eru reiðubúnir að setja fjármagn í skapandi greinar eins og fatahönnun, ekki á hverju strái. Mér finnst frábært að íslenskir fatahönnuðir láti vaða en það er leiðinlegt að margir þeirra þurfa að reka sig á sömu veggina. Það sem við sem fyrirtæki getum gert er að sýna fram á að þetta sé einhvers virði – að þetta sé viðskiptatækifæri.“
Bjarney segist horfa mikið til Danmerkur hvað þessi mál varðar. „Danir eiga ekki sömu auðlindir og Íslendingar en á móti kemur að þeir eru með hugvitið og hönnunina og skapandi greinar eru mjög sterkar í þar í landi. Þeir eru auðvitað hvað best þekktir fyrir húsgagnahönnun en eru í dag farnir að leggja mikla áherslu á tískugeirann. Það er mjög stutt síðan dönsk fatahönnun komst á kortið á alþjóðavísu“, segir hún og útskýrir að samstillt átak allra hlutaðeigandi aðila hafi komið Dönum á þann stað sem þeir eru í dag. „Þeir keppa ekki innbyrðis heldur flykkja sér á bak við merki eins og Ganni sem er ákveðinn brautryðjandi fyrir hin merkin,“ útskýrir Bjarney og heldur áfram: „Að mínu mati hefur það oft staðið íslensku samfélagi fyrir þrifum að við eigum þessar auðlindir og skapandi greinar eru þar af leiðandi ekki burðarásinn í okkar efnahags- og menningarlífi. Í skapandi greinum eins og fatahönnun krefst það bæði tíma og úthalds að byggja upp vörumerki sem er einhvers virði. Það er ekki gert á einni nóttu eða á þremur árum. Þú þarft stuðning og þolinmótt fjármagn. Það er mjög mikilvægt að við náum að koma stoðum undir skapandi greinar til að skapa spennandi störf fyrir fólkið okkar og sjá viðvarandi hagvöxt. Þar finnst mér 66°Norður hafa ákveðið hlutverk sem sterkt vörumerki byggt á íslenskri framleiðslu, hönnun og hugviti. Það er okkar stefna að koma merkinu upp á næsta stig og geta þannig vonandi rutt brautina fyrir önnur merki frá Íslandi.“