Cornered Compositions
Viðtalið birtist fyrst í 9. tbl. HA, 2019.
Fata- og textílhönnuðurinn Helga Lára Halldórsdóttir hannaði fatalínu út frá því sem hún kallar rýmisgreind vandræðaleikans. „Rýmið leitast alltaf við að vera kyrrt og líkaminn leitast við að hreyfa sig en fatnaðurinn fylgir hverjum þeim sem vill taka hann með. Ég spurði mig að því hvernig mætti sameina þessi þrjú lykilatriði, líkama, fatnað og rými, og afréð að færa rýmið inn í fatnaðinn sem á endanum klæðir líkamann og endurskilgreinir rýmið,“ segir Helga Lára Halldórsdóttir um Cornered Compositions, óhlutbundna fataskúlptúra úr endurunnum efnum í grunnlitunum, rauðum, gulum og bláum, sem vöktu verðskuldaða athygli á nýafstöðnum HönnunarMars.
Það eru margir hönnuðir í dag sem vinna algjörlega eins og listamenn en bara af því að þeir notast við fatnað sem miðil í sinni list þá eru þeir kallaðir fatahönnuðir.
Þar sem líkaminn mætir rýminu
Fatalínan varð til sem lokaverkefni Helgu í meistaranámi hennar við Textílháskólann í Borås í Svíþjóð og byggir á rannsóknum hennar á því sem hún kallar „rýmisgreind vandræðaleikans“. Það viðfangsefni hefur verið henni hugleikið allt frá því að hún var í BA-námi í fatahönnun við Listaháskóla Íslands.
„Ég fann að ég hafði mikinn áhuga á því hvernig einstaklingar haga sér þegar þeim líður vandræðalega í afmörkuðu rými. Undir slíkum kringumstæðum þykir mörgum betra að standa í horninu en annars staðar í herberginu. Hornið hefur þann eiginleika að geta faðmað líkamann frá tveimur hliðum. Í horninu fer herbergið úr því að vera tvívítt yfir í að vera þrívítt og því fannst mér rökrétt að notast við það til að færa ytra rýmið yfir á þrívíðan heim líkamans,“ segir Helga.
Snemma í ferlinu setti Helga sér skorður varðandi notkun á efnivið og litum. „Ég byrjaði að vinna með ákveðna litasögu í kringum grunnlitina sem ég hélt síðan í gegnum allt ferlið. Ég ákvað líka að nota einungis afganga og afgangsefni sem ég fékk í vefnaðarvöruverslunum og verksmiðjum sem selja notuð efni og eru margar staðsettar í grennd við skólann í Borås. Í raun er allt efni í línunni eitthvað sem enginn vildi kaupa eða nota. Ég notaðist líka við ákveðin viðmið við framleiðslu á hornunum. Þau eru öll gerð úr ferningum og þar af leiðandi fer ekkert efni til spillis. Ég er oft að nota meira efni en gengur og gerist en nýti það aftur á móti til fullnustu.“
Hún segir þó að mikilvægasti efniviðurinn sé líkaminn og rýmið: „Það er á endanum líkaminn sem bindur allt saman.“Í hönnunarferlinu notaðist Helga mikið við myndbandsupptökur til að skrásetja vinnuna með sem nákvæmustum hætti. „Eftir að hafa prófað ákveðið horn á sjálfri mér þá horfði ég á myndbandið og tók niður form sem mér fannst áhugaverð. Oft birtist formið sem fangar athygli mína bara í sekúndubrot, svo að ég þróa það yfir í varanlegt form sem líkaminn getur klæðst,“ segir hún.
Rýmið leitast alltaf við að vera kyrrt og líkaminn leitast við að hreyfa sig en fatnaðurinn fylgir hverjum þeim sem vill taka hann með. Ég spurði mig að því hvernig mætti sameina þessi þrjú lykilatriði, líkama, fatnað og rými, og afréð að færa rýmið inn í fatnaðinn sem á endanum klæðir líkamann og endurskilgreinir rýmið.
Hönnuður handan hönnunar
Helgu finnst hún ef til vill hafa fjarlægst fatahönnun sem slíka. „Ég mun alltaf vera hönnuður,“ segir hún, „ég er bara farin að hafa meiri áhuga á öðrum öngum hönnunar og lista. Það eru margir hönnuðir í dag sem vinna algjörlega eins og listamenn en bara af því að þeir notast við fatnað sem miðil í sinni list þá eru þeir kallaðir fatahönnuðir.“
Þó að verkið hafi orðið til í einrúmi hyggst Helga nú leita á náðir annarra til að þróa verkefnið áfram. „Í augnablikinu er ég að vinna með tveimur dönsurum. Hugmyndin er sú að hreyfingarnar sem dansararnir framkvæmi mótist alfarið af fatnaði hornsins og vandræðaleikans sem ég hef skapað. Hér er því um að ræða enn frekari útfærslu á sambandi líkamans, rýmisins og fatnaðarins í einni heild.“
Helga segist almennt stefna á frekari rannsóknir og þverfaglegt samstarf. „Fyrir mér er samstarf framtíðin og það er eitthvað sem ég mæli með fyrir alla. Þó svo það gangi kannski ekki alltaf upp þá lærir maður ávallt eitthvað á leiðinni og tekur eitthvað með sér frá hverju samstarfi. Það er svo gott að vinna með öðrum sem getur sagt þér þegar þú ert komin út í einhverja algjöra steypu eða einhverjum sem hjálpar þér að blanda meiri steypu sem er líka mjög mikilvægt að mínu mati.“