Hönnunarteymið 1+1+1
—
Leikur sér að óvissunni
Leikurinn
„Við hófum verkefnið án þess að setja okkur sérstakt takmark eða markmið. Það snerist eingöngu um að leika sér og gera tilraunir,“ segir hönnuðurinn Róshildur Jónsdóttir um 1+1+1, samstarfsverkefni þriggja norrænna hönnunarstofa. Róshildur og eiginmaður hennar, Snæbjörn Stefánsson, mynda hönnunartvíeykið Hugdettu sem undanfarin misseri hefur unnið í samstarfi við Klaus og Elinu Aalto hjá Aalto+Aalto hönnunarstofunni og sænska hönnuðinn og sýningarstjórann Petru Lilju.
Saman hafa þau hannað muni og húsgögn með óvenjulegri aðferð. Hönnunarferlið líkist teiknileik sem margir þekkja og er kallaður boðmyndir eða því furðulega nafni „Frábært lík“. Leikurinn gengur út á að teikna hluta myndar efst á blað og brjóta svo blaðið þannig að næsti leikmaður, sem tekur við teikningunni, sjái ekki það sem á undan er komið og svo koll af kolli. Að lokum verður útkoman ein samsett mynd sem vekur oftar en ekki mikla kátínu.
Í verkefninu 1+1+1 hannar hver hönnunarstofa sína útgáfu af sams konar hlut sem samsettur er úr þremur einingum. Þannig verða alls til níu einingar sem raða má saman á tuttuguogsjö mismunandi vegu. Róshildur segir að 1+1+1 hafi byrjað sem tilraunaverkefni fyrir HönnunarMars 2015. „Í upphafi vorum við ekki viss um hvort það yrði eitthvað úr verkefninu en um leið og við sáum hversu skemmtilegt ferlið var vildum við að sjálfsögðu halda áfram,“ segir hún. Á skömmum tíma hefur orðið til heil vörulína af innanhússmunum; lömpum, speglum, kertastjökum og skápum.
Á HönnunarMars 2015 kynnti hópurinn lampa og í kjölfarið komu húsgögn sem kynnt voru á hönnunarvikunni í Helsinki (Helsinki Design Week) sama ár. Á hönnunarvikunni í Stokkhólmi (Stockholm Design Week) í ár voru kynntir speglar og á síðastliðnum HönnunarMars sýndi hópurinn nýja kertastjaka.
Hugarfarið
Upphaflega kynntust þau öll á HönnunarMars 2013 en þá sýndu þau hvert í sínu lagi undir sama þaki. Þau höfðu hist áður og hrifist af verkum hvers annars á norrænum hönnunarviðburðum, svo sem Shop Show, 13Al+ og We Live Here. Strax frá fyrstu stundu náði hópurinn vel saman og í dag eru þau mjög náin. Róshildur segir þau deila sama hugarfari: „Við getum öll verið mjög „spontant“ og erum öll svolítið uppreisnargjörn.“ Elina tekur undir það og segir hugarfarið skipta miklu meira máli en norrænu tengslin þeirra á milli: „Þjóðerni skiptir almennt minna máli í dag. Til að mynda er orðið mjög erfitt að segja hvað einkennir finnska hönnun. Samt sem áður held ég að fólk á Norðurlöndunum samsami sig norrænni sjálfsmynd því samfélög okkar eru svo svipuð innbyrðis en á sama tíma nokkuð ólík öðrum löndum. Það er því mjög eðlilegt að norrænu löndin starfi saman á vettvangi hönnunar.“
Hópurinn er sammála því að það felist styrkur í samvinnunni og að þau bæti hvert annað upp. „Klaus og Snæbjörn geta gert við hvað sem er, Elina er snillingur í styrkumsóknum og Petra er einstaklega skipulögð. Ég dáist að því hversu miklu hún kemur í verk en sjálf kem ég með smá trylling inn í verkefnið,“ segir Róshildur kímin.
Reglurnar
Við upphaf hvers hönnunarverkefnis eru mótaðar reglur sem allir verða að fylgja. Í fyrsta verkefninu var ákveðið að gera lampa en þá var ekki komin reynsla á aðferðina og regluverkið og því var ekki tekin ákvörðun um hvort hanna ætti borð- eða gólflampa. Nú eru reglurnar fastmótaðri, sérstaklega það sem snýr að tengingum og samsetningum. Þó að hugmyndin að verkefninu sé í grunninn einföld og skemmtileg er framkvæmdin öllu flóknari. Efnisval, form, og þyngd eru aðeins nokkur af þeim atriðum sem þarf að gæta að þegar hanna á hlut sem verður að passa við tvo aðra óþekkta hluti. „Til þess að allt gangi upp er nauðsynlegt að allir þátttakendur búi yfir ákveðinni kunnáttu. Verkefni af þessu tagi hefði líklega ekki verið mögulegt fyrr á okkar starfsferlum,“ segir Róshildur.
Þegar búið er að ákveða reglurnar fer hver hópur í sína átt. Hönnunarferlið fer fram leynilega og hóparnir þrír mega ekki deila neinum hugmyndum sín á milli. Hönnuðurnir hittast svo rétt fyrir sýningu til að skoða verk hvers annars. „Það er mögnuð upplifun að sjá samruna eigin verks við verk annarra. Það setur hlutina í algjörlega nýtt samhengi og gerir manni ómögulegt að festast í viðjum vanans,“ segja Elina og Klaus Aalto.
Óvissan
Ferlið er skemmtilegt og spennandi en það er áskorun að mæta óvissunni. „Við vitum ekki hver útkoman verður fyrr en nokkrum dögum fyrir sýningar svo áhættan er töluverð. En þetta hefur gengið upp hingað til,“ segir Elina og Róshildur tekur undir: „Það eru auðvitað jafnar líkur á því að verkefnið misheppnist hrapallega. Margar samsetningarnar eru þannig að ekki nokkur manneskja hefði gert þær á eigin spýtur.“ En svo gerist það stundum að hlutirnir eru settir saman og allt gengur upp; heildin myndar þá alveg nýjan grip með einstakt útlit. Þegar hópurinn vann til að mynda að skápunum völdu þau öll fyrir einskæra tilviljun að vinna með ask sem viðartegund og þegar kertastjakarnir voru settir saman fengu þeir á sig framandi „nýbabýlónskan blæ“, þótt það hafi alls ekki verið ætlunin.
„Þó að verkefnið sé mjög tilraunakennt í eðli sínu þá er alveg hægt að yfirfæra hugmyndafræðina á fjöldaframleiðslu,“ segir Elina og bætir við að verkferlar í vinnslu fjöldaframleiddrar vöru séu mjög langir; yfirleitt þarf að gera málamiðlanir og stundum er hætt við allt saman. Hún segir það hafa verið mjög hressandi að vinna verkefni á svo stuttum tíma. Róshildur tekur undir þetta. „Það er ekki oft sem maður upplifir slíkt frelsi í hönnunarvinnu því oftast vinnur maður fyrir viðskiptavin og er bundinn kostnaðaráætlun og listrænum höftum af einhverju tagi,“ segir Róshildur.
Kjarninn
Eitt af því sem varð til þess að Róshildur lærði hönnun var leikur: „Ég ólst upp í sveit fyrir norðan og átti engin leikföng. Ég varð að nota ímyndunaraflið, búa til hluti, þykjast og leysa vandamál.“ Mörgum árum seinna gerði hún það sama við hrúgu af fiskbeinum, hári og roði. Útkoman varð fiskbeinamódelið Skepnusköpun sem inniheldur fiskbein, málningu og lím. „Verkefnið varð til þegar ég lék mér að því búa til fígúrur með því að líma saman fiskbein. Ég var ekki með neinar væntingar og fannst þetta bara skemmtilegt,“ segir hún.
Þegar Róshildur kom að hönnun skápanna í 1+1+1 notaði hún svipaða aðferð: „Sumarið áður hafði ég tínt og safnað íslenskum blómum. Mig langaði að finna leið til þess að njóta fegurðar þeirra allt árið um kring. Lausnin fólst í því að varðveita blómin í gleri.“ Róshildur, sem smíðaði skápinn í hlöðunni sinni, ákvað að hafa blómin og glerið í innviðum skápsins og láta þau endurspegla viðkvæma fegurð íslenskrar náttúru. Til að vísa í andstæður náttúrunnar hafði hún ytra byrðið gróft; eins konar grófan skjöld utan um hið viðkvæma og brothætta.
Langtímamarkmið
Allir hlutirnir sem 1+1+1-hópurinn hefur hannað voru sýndir saman í fyrsta skipti á lokasýningunni í Spark Design Space (sjá viðtal við Sigríði Sigurjónsdóttur í HA nr.3). „Sýningin í Spark gerði virkilega mikið fyrir okkur,“ segir Elina; „þótt verkefnið hafi alltaf átt nokkra dygga aðdáendur þá fór alltaf lítið fyrir því og það hafði fengið litla umfjöllun í fjölmiðlum. Spark gerði okkur mögulegt að ná til stærri hóps.“
Styrkir úr norrænum sjóðum gerðu hópnum kleift að sýna 1+1+1 á fjórum sýningum á síðasta ári en samt sem áður hafa hönnuðirnir sett töluvert af eigin fjármagni í verkefnið. Róshildur segir mikilvægt að breyting verði á því hvernig styrkjum til hönnunar sé varið. Hún segir ferðastyrki, eina og sér, ekki duga til. „Við erum kannski með frábært verkefni sem fær umfjöllun í Dezeen en án fjármagns og aðstoðar mun það fljótt verða að engu. Langtímamarkmið, hærri fjárfestingar og aukin hjálp á sviði markaðssetningar er nauðsynleg til þess að verkefni nái flugi í stað þess að koðna niður á miðri leið,“ segir Róshildur og nefnir tónlistariðnaðinn sem dæmi. „Það er töluverðu fjármagni veitt í markaðsetningu íslenskrar tónlistar erlendis og það hefur skilað sér margfalt til baka, bæði í peningum og ómetanlegri landkynningu. Reynslan sýnir að langtímafjárfestingar í skapandi greinum skila sér margfalt til baka.“
Framundan eru spennandi tímar hjá hópnum. Verkefnið verður sýnt í Hönnunarsafninu í Finnlandi, Lokal galleríi í Helsinki, á sumarsýningu Fiskars í innsveitum Finnlands og einnig í Beirút. „Þróun verkefnisins hefur verið sú að skilin á milli hönnunar og lista verða sífellt óljósari, sem er ánægjulegt. Við upphaf verkefnisins fundum við fyrir sams konar frelsi og við höfðum á námsárunum; að geta leikið sér og gert tilraunir,“ segir Róshildur. „Ég skil eiginlega ekki af hverju við byrjuðum ekki á þessu fyrr.“
Allt sem þú þarft að vita um hönnunarteymin þrjú
Hugdetta er hönnunarstofa sem sérhæfir sig í vöru- og innanhússhönnun. Stofan var stofnuð árið 2008 af hjónunum Róshildi Jónsdóttur og Snæbirni Þór Stefánssyni. Þau reka einnig íbúðarhótelið Grettisborg, sem þau hönnuðu í sameiningu, en þau hafa enn fremur hannað opin vinnusvæði, veitingastaði og viðmót heilsugæslustöðvar. Þau hafa margsinnis sýnt verk sín á hönnunarvikunum í Stokkhólmi og Helsinki. Bæði Róshildur og Snæbjörn útskrifuðust með BA-gráðu í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2006.
www.hugdetta.com
Petra Lilja er iðnhönnuður og sýningastjóri. Hún var einn af stofnendum hönnunarstofunnar Apokalyps Laboteks (2008‒2013) sem vann til Wallpaper hönnunarverðlaunanna árið 2011. Petra Lilja starfar sem dagskrárstjóri hjá Design Master Program í Lennaeus-háskólanum í Suður-Svíþjóð og rekur eigið gallerí í uppgerðu bílaverkstæði. Hún hefur áður sýnt Medusa, samstarfsverkefni sitt með Vík Prjónsdóttur, og stýrt sýningunni Shop Show á Íslandi. Petra lærði innanhússarkitektúr og iðnhönnun í hönnunardeild The Royal Danish Academy of Fine Arts í Kaupmannahöfn, verkfræðideild Háskólans í Lundi og Pratt Institute í New York.
www.petralilja.com
Elina og Klaus Aalto eru eigendur hönnunarstofunnar Aalto+Aalto sem staðsett er í Helsinki. Þau teljast með eftirtektarverðustu hönnuðum Finnlands af yngri kynslóðinni og hanna bæði vörur, rými og sýningar. Markmið þeirra er að búa til hversdagslega hluti með sérstöðu, sögu og sterk einkenni. Verk þeirra hafa verið sýnd víða, eru hluti af hönnunarsöfnunum í Helsinki og Quebec og hafa einnig hlotið IF golden vöruhönnunarverðlaunin. Aalto+Aalto hafa nokkrum sinnum tekið þátt í HönnunarMars og Elina var meðhöfundur sýningarinnar WE LIVE HERE; samvinnuverkefnis milli Íslands og Finnlands á hönnunarvikunni í Stokkhólmi 2015.
www.aaltoaalto.com