hönnun -ar kvk, það að hanna

20. maí 2020
Einn stóll á dag. Elsa Nielsen fyrir Hönnunarsafn Íslands, 2017.

Bragi Valdimar Skúlason texta- og hugmyndasmiður fer yfir sögu íslenska orðsins hönnun

Greinin birtist fyrst í 6. tbl. HA, 2017.

Hönnun er hluti af lífi okkar allra. Allt frá mjólkurfernum til bíla. Tannburstum til sófasetta. Dyrabjöllum til gluggapósts. Allt þarf þetta að líta einhvern veginn út. Stundum þjóna einhverju hlutverki. Jafnvel tilgangi. Sumir hlutir eru til í ótal útgáfum. Sumir þykja ljótir, aðrir smart. Sumu tekur maður eftir, annað verður maður varla var við. En allt er þetta hannað af einhverjum. Stundum hönnuði. Stundum einhverjum öðrum.

Sjálf sögnin að hanna er ekki ýkja gömul í málinu okkar. Hún kemur fyrst fram í gagnmerku hefti frá menntamálaráðuneyti, nánar tiltekið Nýyrðum frá árinu 1957. Fylgir þar gagnmerkum orðum úr flugmáli á borð við þotu (jet) og ratsjárkraga (scanner) — jú og auðvitað tvívegismiða, sem er að sjálfsögðu miði sem gildir báðar leiðir. Ekki veit ég hvað varð af því góða orði.

Sögnin þótti „djörf“ og var sögð þýða það að „gera uppdrátt af flugvélum, skipum og öðru slíku“. Einnig voru nefnd til sögunnar afleiddu orðin hönn, sem er sumsé það sem við köllum í dag hönnun, og starfsheitið hannar (sem beygist eins og Gunnar) en það breyttist seinna í hönnuð.

En hvað um það. Áður en hugtakið hönnun læddi sér inn í málið okkar bjó fólk bara eitthvað til. Sumt var fallegt. Annað ekki. Sumt var gagnlegt. Annað ekki. Það þótti ekki sérstök ástæða til að eiga sérstakt orð yfir það að gera hluti fína. Auðvitað voru til listamenn sem bjuggu til dásamlega hluti. Og smíðameistarar sem reistu stórbrotnar byggingar. Og hagleiksfólk sem töfraði fram óviðjafnanlegt handverk. En mestmegnis var samt bara verið að búa hluti til. Af því að við þurfum hluti. Ólíklegustu hluti, sem gera okkur lífið auðveldara, eða flóknara — eftir atvikum.

Sumsé. Þarna upp úr miðri síðustu öld áskotnaðist okkur loksins hönnun. Og í beinu framhaldi svokallaðir hönnuðir. Þær skringilegu skepnur, með sínar grafísku glyrnur, lipra litaskyn og fáguðu formgreind. Þá var nú aldeilis farið að hanna. Við þurftum auðvitað að setja okkar mark á hönnunarsöguna með ýmiss konar tilraunastarfsemi — til að mynda forsíðunni á Vikunni. Umbúðum utan um súrmjólk og súkkulaði. Myndmerkjum framsækinna iðnaðarfyrirtækja. Mublum og merkingum. Já og húsunum í Breiðholtinu. Og plötuumslögunum hans Ladda. Sumt var vel heppnað. Annað miður. Flest ekki. Bara alls, alls ekki.

En það er nú bara þannig að hönnun eldist ekkert endilega vel. Ekkert frekar en mjólkurvörur, brandarar og hleðslutæki. Það sem á einu augnabliki þykir ægifagurt og flennifínt er áður en varir úthrópað og niðurálitið. Ekki allt. En margt.

Þá komum við að öðru — hugtakinu „tímalausri hönnun“. Það á við hluti sem verða ekki púkalegir, lummó og lúðalegir jafnharðan og þeir eru hannaðir. Þetta eru vandfundnir hlutir. Fæst eigum við heimili sem búin eru tímalausri hönnun eingöngu. Oftar en ekki eru húsgögnin okkar nokkuð hefðbundin, stólarnir stólalegir, sófarnir sófalegir, innanstokksmunir almennt gagnlegir en ekkert alltof glæsilegir, garðarnir nokkuð íhaldssamir og „garðalegir“ — og borðbúnaðurinn eins og nokkurs konar yfirlitssýning um hnífapara- og glasahönnun síðustu áratuga. Samtíningur. Safn hönnunar, sem er ekki endilega tímalaus og sígild. Meira svona … happa og glappa. Hipsumhaps.

Allt er þetta þó hönnun. Hönnuð af hönnuðum. Á einhverjum tímapunkti. Líka hraunuðu veggirnir. Geisladiskahillurnar. Símabekkirnir. Allt átti þetta sinn stað og stund. Allt var þetta keypt, jafnvel rifið úr hillum. Mögulega eftirsótt og jafnvel vandfundið. En situr nú og bíður dóms tímans. Gott eða slæmt? Fagurt eða fokkljótt? Aðeins tíminn leiðir það í ljós, með auðvitað dyggri aðstoð fagurfræðinga og óvéfengjanlegra hönnunarstjóra.

Já. Hönnun er svo sannarlega hluti af lífinu. Hún er allt í kring um okkur, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Við lærum að meta hana. Greina gott frá slæmu. Þroska með okkur smekk fyrir góðri hönnun. Það er alls ekki sjálfgefið. Við þurfum að læra þetta. Við erum að því. Og vonandi höldum við því áfram. Góð hönnun á að láta okkur líða betur, létta lífið og auðga það. Rétt eins og góð tónlist, nú eða fullkomlega framreidd rjómapönnukaka.

Hönnun er 60 ára gömul í málinu. Til lukku með það. Það er í stóra samhenginu ekki neitt neitt. Svona miðað við okkar elstu og reyndustu orð, eins og hjarta og hest. En það fellur vel í hópinn. Nýtur vaxandi virðingar og fylgis. Nær að halda reisn sinni án þess að verða tilgerðarlegt. Svei mér ef það gæti ekki orðið sígilt.

Bragi Valdimar Skúlason er íslenskufræðingur og einn eigenda hönnunar- og auglýsingastofunnar Brandenburg.

Dagsetning
20. maí 2020
Texti
Bragi Valdimar Skúlason
Teikning
Elsa Nielsen

Tögg

  • HA
  • HA06
  • Hönnun
  • Bragi Valdimar Skúlason