Uppruni — Nordic Angan
Íslenskur ilmbanki verður til
Nordic angan mun í vor opna fyrstu íslensku alhliða eimingarstofuna en ekki hefur verið mikið framboð af íslenskum ilmgjöfum hingað til.
Lítið er til af heimildum um eimingu jurta á Íslandi, enda hefur þessi forna aðferð til að fanga lykt úr jurtum takmarkað verið notuð hér á landi. Hönnuðirnir Sonja Bent og Elín Hrund Þorgeirsdóttir hafa unnið mikið frumkvöðlastarf undanfarin misseri á þessu sviði en þær fengu styrk frá Hönnunarsjóði og Atvinnumálum kvenna fyrir rannsóknarverkefnið Nordic angan – Ilmbanki íslenskra jurta.
Markmið verkefnisins er að búa til íslenskan ilmbanka með ilmum til að selja til fyrirtækja og til framleiðslu á ilmtengdum vörum út frá hugmyndafræði sem byggir á tengslum lyktar og lyktarskyns við minni og tilfinningar. Elín og Sonja rannsökuðu meðal annars hvaða jurtir innihalda ilmkjarnaolíur, hvenær best sé að tína þær og hvaða aðferð sé vænlegust til að ná olíum úr jurtunum. Þær fengu aðstöðu í Hönnunarsafni Íslands þar sem sett var upp lifandi sýning og vinnustofa þar sem gestir og gangandi gátu fylgst með framvindunni.
Vel tókst til þó að ferlið hafi stundum gengið hægt. „Sumar jurtirnar gáfu ekkert og það var auðvitað svekkjandi. Íslenskar jurtir eru margar einstakar hvað varðar lykt og því getum við ekki leitað í erlendar heimildir. Veðráttan og jarðvegurinn hafa þar mikið að segja – íslenskt blóðberg er til dæmis með allt annan ilm en annað timían. Í ferlinu skráðum við niður allar niðurstöður og við komum til með að vinna úr þeim,“ segir Elín.
Í vor mun Nordic angan opna fyrstu íslensku alhliða eimingarstofuna, þar sem hægt verður að eima og afgreiða ilmi til fólks og fyrirtækja með mismunandi eimingaraðferðum. Eimingarstofan verður staðsett í Álafosskvosinni en hluti af húsnæðinu fer undir gestastofu þar sem seldar verða ilmandi hönnunarvörur og tekið verður á móti gestum og gangandi. Elín bendir á að hingað til hafi ekki verið mikið framboð af íslenskum ilmgjöfum og því hafi mörg fyrirtæki tekið þeim fegins hendi: „Við erum gríðarlega spenntar fyrir næsta skrefi. Við höfum lært ótrúlega margt og farið ótal kollhnísa en vinnan er einstaklega gefandi og svo ilmar hún líka svo vel!“