Hugleiðing um landslag
—
Guðbjörg R. Jóhannesdóttir doktor í umhverfisheimspeki
Landslag er marglaga hugtak og fyrirbæri sem hefur verið viðfangsefni margra ólíkra faggreina og fræðasviða í gegnum tíðina. Ef litið er yfir sviðið kemur í ljós að landslag á sér einkum tvær hliðar sem hafa fengið mismikla athygli – þessar tvær hliðar eru annars vegar landslag sem áþreifanlegt og sýnilegt fyrirbæri og hins vegar landslag sem óáþreifanleg og ósýnileg samtvinnun þeirrar veru sem skynjar og þess fyrirbæris sem skynjað er.
Hér á eftir fer hugleiðing mín um samspil þessara hliða og það hvaða máli landslag skiptir okkur sem fyrirbæri og hugtak, hvort sem er í daglegu lífi okkar og athöfnum eða fag- og fræðigreinum eins og hönnun og arkitektúr.
Eins og í fyrri hugleiðingu minni um fegurð sem birtist á heimasíðu HA1langar mig að byrja á að rýna í það hvernig við notum orðiðlandslagí daglegu máli. Það sem mörgum dettur eflaust fyrst í hug er að nota orðið um upplifun af hefðbundnu landslagi eins og því sem börn á grunnskólaaldri myndu teikna: fjöllum, dölum, túnum, vötnum, ám, himni, hafi. Margir tengja hugtakið líka við það að njóta þess að horfa yfir og vera í slíku náttúrulegu landslagi á góðviðrisdegi. Þetta er landslag sem er áþreifanlegt og sýnilegt; við getum horft yfir eða horft eftir smáatriðum eins og berjalyngi, við getum snert landslagið, hreyft okkur í því, fundið lykt og heyrt hljóð. En við notum orðiðlandslaglíka um annars konar fyrirbæri sem við höfum reynslu af á annan hátt; við tölum til dæmis um pólitískt landslag og tilfinningalegt landslag, landslag sem er óáþreifanlegt og ósýnilegt en samt sem áður skynjanlegt á einhvern hátt.
Það sem ef til vill sameinar það hvernig orðið landslag er notað í þessum ólíku dæmum er að í báðum tilfellum virðist vísunin til landslags eiga við um einhvers konar heildarskynjun á ákveðnum aðstæðum/ástandi eða ákveðnum stað/svæði. Samkvæmt þeim fyrirbærafræðilega skilningi á landslagshugtakinu sem ég hef skrifað um á öðrum vettvangi 2 er landslag einmitt umhverfi skynjað fagurferðilega. 3 Hið fagurferðilega vísar til þeirra augnablika þegar við opnum skynfæri okkar fyrir því að taka á móti merkingu, eða leyfa henni að gerast; að veita athygli eins konar heildarskynjun þess hvernig þetta verk, þetta landslag, þetta hljóð lætur mér líða einmitt núna. Hvað segir það mér? Hvaða hugrenningatengsl kallar það fram hjá mér? Hvernig endurómar það sem ég skynja utan við mig inni í mér? Við tölum um landslag þegar við skynjum umhverfi bara til að skynja það, tökum inn heildarskynjun þess hvernig umhverfið lætur okkur líða. Við tölum um landslag þegar við skynjum umhverfi fagurferðilega.
Lokaðu augunum og upplifðu tilfinninguna af því að standa frammi fyrir listaverki sem er í uppáhaldi hjá þér. Finndu hvernig merkingin streymir um líkamann, inn í hverja einustu frumu. Það að njóta listaverka á þennan hátt er eins konar erkitýpa fagurferðilegrar reynslu og því er ef til vill ekki undarlegt að fagurfræði hafi um langt skeið fengist fyrst og fremst við að reyna að greina og skilja fagurferðilega reynslu af listaverkum og það hvernig við fellum fagurferðilega dóma um listaverk en veitum hversdagsleika, náttúru og umhverfi litla athygli. 4 En það sem hefur oftar gleymst er að þessi fagurferðilega reynsla á sér ekki bara stað þegar við veitum henni sérstaka athygli inni á listasafni, í hljómleikahöll, leik- eða danshúsi, eða þegar við veitum henni athygli á fjallgöngunni rétt áður en við smellum mynd af útsýninu. Þessi fagurferðilega reynsla á sér stað alltaf og alls staðar. Á hverju augnabliki streymir merking um líkama okkar; þessi fagurferðilega líkamlega skynjun er grundvöllur allrar merkingar og gilda. 5 Það er hér sem fagurfræðin og fyrirbærafræðin mætast; í áherslunni sem báðar greinar leggja á þá staðreynd að við erum skynjandi líkamar.
Samkvæmt fyrirbærafræðilegum skilningi á mannverunni og veruleika hennar er mannveran fyrst og fremst líkamleg tengslavera. 6 Vestræn hugmyndasaga hefur þó oftar haldið því að okkur að við séum fyrst og fremst aðskildir einstaklingar, hver með sinn huga sem er aðskilinn frá líkamanum. Fyrirbærafræðin, auk ýmissa annarra kenninga svo sem um póst-húmanisma 7 og hlutmiðaða verufræði, 8 kennir okkur um afmiðjun mannverunnar og sjálfsins. Sjálfið er alltaf nú þegar staðsett í veruleikanum; sem líkamar erum við, rétt eins og líkamar annarra dýra og plantna, í stöðugum samskiptum við umhverfi okkar í gegnum öll skynfærin. Á hverri einustu sekúndu, allt frá því að við erum fóstur í móðurkviði og fyrstu skynfærin virkjast, erum við að taka á móti merkingu frá þeim rýmum og aðstæðum sem við dveljum í. Þessi merking sem við tökum á móti safnast upp í líkömum okkar og verður að mynstrum; 9 að setlögum merkingar sem að lokum skapa heildarmyndina af því hvað það er að vera þessi líkami, þessi mannvera, í þessum veruleika.
Á sama hátt og hið ytra náttúrulega landslag verður til úr setlögum og jarðlögum og athöfnum manna, dýra og annarra náttúruafla sem hafa sett mark sitt á landslagið, jafnvel að því marki að náttúrulegt landslag verður að menningar- eða borgarlandslagi, verður hið innra landslag líkamans til úr setlögum aðstæðna, athafna og rýma sem hafa sett mark sitt á okkur sem manneskjur.
Þótt við veitum fagurferðilegri skynjun okkar ekki alltaf sömu athygli og þegar við tökum á móti merkingu listaverks er þessi skynjun alltaf að verki; við erum á hverju augnabliki að taka á móti merkingu um leið og við sendum frá okkur merkingu í gegnum athafnir okkar. Landslag er orð sem við notum til að lýsa þessari samtvinnun, eða þeim fagurferðilegu augnablikum þar sem við veitum því athygli hvernig heildarskynjun af því landslagi sem við erum staðsett í lætur okkur líða; þegar við veitum því athygli hvernig okkur líður í landslaginu og hvernig við líðum um landslagið – hvernig það hreyfir við okkur og hreyfir okkur. Landslag er ekki til án þessarar samtvinnunar; hugtakið vísar alltaf bæði til þess hlutbundna fyrirbæris sem er skynjað og þeirrar staðreyndar að það er einhver sem skynjar þetta fyrirbæri og tekur á móti merkingu og áhrifum þess.
Landslag sem hugtak og fyrirbæri getur þannig hjálpað okkur að skilja hvernig veruleikinn hefur sífellt áhrif á okkur á sviði skynjunar á sama tíma og við höfum áhrif á veruleikann með verkum okkar, orðum og athöfnum, sem aftur mótast af skynjunum okkar. Þannig erum við í eilífum hringdansi við veruleikann. Ef þessar hugleiðingar mínar um landslag eru settar í samhengi við fag- og fræðasvið þeirra deilda sem ég starfa innan við Listaháskóla Íslands, listkennsludeild og hönnunar- og arkitektúrdeild, má draga fram nokkra þræði (eða setlög) sem gera það að verkum að landslag sem hugtak og fyrirbæri skiptir máli fyrir þessi svið.
Fyrsti þráðurinn sem vert er að draga fram snertir það hvernig við lífverurnar erum alltaf að nema eitthvað af umhverfi okkar. Þetta skiptir máli á sviði listkennslufræða vegna þess að þar veitum við því meðal annars athygli hvernig rýmið sem námið á að fara fram í, skólabyggingin og skólastofan, sem og hið óáþreifanlega tilfinningalega rými sem kennarar og nemendur skapa í gegnum samskipti sín, hefur áhrif bæði á kennsluhættina og námið almennt. Í listkennslu er einnig sterk hefð fyrir því að beina athygli að mikilvægi þess að færa sig út fyrir skólastofuna og læra af því að dvelja í og tengjast umhverfinu í gegnum skynjun sína. Listkennsla sinnir meðal annars því lykilhlutverki að þjálfa nemendur í að beina athygli sinni að skynjuninni; engin æfing er betri til þess að beina athyglinni að fagurferðilegri skynjun en sú að njóta lista og skapa list.
Sú staðreynd að þau rými og það landslag sem við dveljum í er alltaf að kenna okkur eitthvað, að bæta við nýjum þekkingarmynstrum í líkama okkar, skiptir líka miklu máli á sviði hönnunar og arkitektúrs. Nær öll þau rými sem við dveljum í eru hönnuð af einhverjum; borgirnar okkar eru hannaðar og skipulagðar á vissan hátt, húsin, fötin, vörurnar og myndmálið alls staðar í kringum okkur er hannað. Við erum alltaf að nema eitthvað af því umhverfi sem hönnuðir og arkitektar eiga svo stóran þátt í að skapa ásamt öllum öðrum þegnum samfélagsins og þeim kerfum sem hönnuðir og arkitektar starfa innan. Það landslag/rými/umhverfi, þeir hlutir og þau áreiti sem við sköpum, eiga gríðarstóran þátt í að móta þau mynstur og setlög sem skapa alla okkar þekkingu og öll okkar gildi. Ábyrgðin sem hvílir á okkur sem í sameiningu höfum áhrif á það hvernig landslagið sem við dveljum og lifum í þróast er því mikil. Þess vegna er svo mikilvægt að auka umræðu og meðvitund um fyrirbærið og hugtakið landslag; það hjálpar okkur að muna eftir því að ytra landslag okkar hefur áhrif á innra landslagið sem byggist upp í líkama okkar – það hjálpar okkur að muna að við erum tengslaverur – og það hjálpar okkur að muna að það að skapa merkingu og gildi þess veruleika sem við búum við er samstarfsverkefni sem við þurfum að vinna að með lýðræðislegum hætti.
Guðbjörg R. Jóhannesdóttir er doktor í umhverfisheimspeki og aðjúnkt við Listaháskóla Íslands.
1 Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, „Hugleiðingar um fegurð“ í HA, tímarit á netinu, www.hadesignmag.is, 2015.
2 Sjá t.d. greinar mínar „Utan kerfis: landslag og fegurð“ í Mæna – raftímarit Hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands, 2015; „Vá! – Undrun, fegurð og ægifegurð í upplifun af íslenskri náttúru“ í Náttúran í ljósaskiptunum, ritstýrt af Birni Þorsteinssyni, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2016, bls. 141–166; og „Phenomenological Aesthetics of Landscape and Beauty“ í Nature and Experience: Phenomenology and the Environment, ritstýrt af Bryan Bannon, London & New York: Rowman & Littlefield, 2016, bls. 187–214.
3 Enska lýsingarorðið aesthetic hefur lengi verið þýtt á íslensku með orðinu fagurfræðilegt. Þessa þýðingu má þó gagnrýna á þeim forsendum að hún taki ekki mið af þeim mun sem er á ensku orðunum aesthetics og aesthetic. Í ensku er aesthetics notað um ákveðið fræðasvið og þaðan er komin íslenska þýðingin fagurfræði. En aesthetic er einnig notað sem lýsingarorð í ensku til að lýsa þeim gildum og þeirri upplifun sem fræðasviðið fagurfræði fjallar um (aesthetic value, aesthetic experience). Þýðingin fagurfræðilegt nær ekki að fanga þennan mun þar sem það gefur til kynna fræðilega nálgun, en þau gildi og upplifun sem vísað er til með orðunum aesthetic value/aesthetic experience eru síst af öllu fræðilegs eðlis. Til að leysa þennan þýðingarvanda hefur Njörður Sigurjónsson, dósent við Háskólann á Bifröst, stungið upp á þýðingunum fagurferði og fagurferðilegt gildi, en með því má lýsa á skýrari hátt hvernig rannsóknir í fagurfræði fjalla um fagurferði og fagurferðileg gildi á sama hátt og rannsóknir í siðfræði fjalla um siðferði og siðferðileg gildi. Fagurferði vísar þannig til skynjunar og mats fólks á fegurð og ljótleika, rétt eins og siðferði vísar til mats fólks á góðu og illu.
4 Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, „Fagurfræði náttúrunnar: vitræn skynjun og skynræn þekking“ í Hugur 22, 2010, bls. 29–42; Ronald Hepburn „Contemporary Aesthetics and the Neglect of Natural Beauty“ í British Analytical Philosophy, 1966, bls. 285–310; Yuriko Saito, „Everyday Aesthetics“ í Philosophy and Literature 25, nr. 1 2001, bls. 87–95.
5 Arnold Berleant, Sensibility and Sense: The Aesthetic Transformation of the Human World, Exeter: Imprint Academic, 2010.
6 Sjá Dan Zahavi, Fyrirbærafræði, Björn Þorsteinsson þýddi, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2008; Maurice Merleau-Ponty, Phenomenology of Perception, London & New York: Routledge, 2008.
7 Sjá Sigríður Þorgeirsdóttir, „Hvers vegna umhverfissiðfræði er róttæk grein hugvísinda: Um húmanisma og pósthúmanisma“ í Náttúran í ljósaskiptunum, ritstýrt af Birni Þorsteinssyni, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2016, bls. 53–73; Rosi Braidotti, „Posthuman, All Too Human: Towards a New Process Ontology“ í Theory, Culture & Society 23, nr. 7–8 2001, bls. 197–208.
8 Sjá Sigrún Inga Hrólfsdóttir, „Raunveruleikinn er ævintýr og listin er aðferð til þess að henda reiður á honum“, Hugur 28, 2017, bls. 107–122; Graham Harman, „Object-Oriented Ontology“ í The Palgrave Handbook of Posthumanism in Film and Television, Palgrave Macmillan UK, 2015, bls. 401–409.
9 Sjá umfjöllun Jonnu Bornemark um hugtökin retention og passive synthesis hjá Husserl: „Life beyond Individuality: A-subjective Experience in Pregnancy“ í Phenomenology of Pregnancy, ritstýrt af Jonnu Bornemark og Nicholas Smith, Södertörn Philosophical Studies 18, Södertörn: Södertörn University, 2016, bls. 251–278.