DesignTalks 2020 - Genki Instruments og MINISOPHY!
Jón Helgi Hólmgeirsson, yfirhönnuður Genki Instruments, bætist í hóp fyrirlesara og MINISOPHY eftir Katrínu Ólínu hönnuð og Sigríði Þorgeirsdóttur heimspeking gefur tóninn á DesignTalks 2020 sem fer fram í Hörpu 26. mars. Þema ráðstefnunnar sem er lykilviðburður HönnunarMars hátíðarinnar er Nýr heimur, nýjar leiðir.
Sú jákvæða togstreita sem myndast þegar ólíkir hugsunarhættir og aðferðafræði mætast er ástæðan fyrir því hvers vegna við gátum búið Wave til.
Jón Helgi Hólmgeirsson er yfirhönnuður og hluti þverfaglegs teymis hönnuða og verkfræðinga, stofnenda Genki Instruments, hönnunardrifins hátæknifyrirtækis sem vinnur að því að gera tækni náttúrulegri.
Allt frá útskrift úr Listaháskólanum hafa verk Jóns Helga vakið mikla athygli og alþjóðlega viðurkenningu, en þau þykja framúrstefnuleg og hönnuð með það í huga að notendur geti aðlagað þau að sér.
Þessi áhrif kristallast í Wave, hring sem gerir tónlistarfólki kleyft að móta og stýra hljóði með hreyfingum handarinnar en markmið Genki Instruments er að gera samspil okkar við tækni náttúrulegri.
Genki Instruments eru handhafar Hönnunarverðlauna Íslands árið 2019 fyrir Wave. Lesa meira hér.
MINISOPHY bregst við vanda sem við erum öll meira og minna að kljást við: skerta athygli á tímum ofgnóttar upplýsinga og aftengingu við okkur við okkur sjálf við aðstæður sítengingar. Þess vegna er iðkun djúprar hugsunar kannski mikilvægari núna en nokkru sinni fyrr í sögu mannkyns.
MINISOPHY eftir Katrínu Ólínu, hönnuð, listamann og hugsuð, og Sigríði Þorgeirsdótturprófessor í heimspeki við Háskóla Íslands er vefrit í smá-formi á ensku.
MINISOPHY birtir heimspekilega smátexta, æfingar í smáspekilegri hugsun, myndverk, hversdagssmáspekiraddir og visku-tilvitnanir. MINISOPHY er tilraun til nýstárlegrar notkunar á samfélagsmiðlum.Með því að stefna saman list og heimspeki kynnir MINISOPHY aðferðafræði gagnrýninnar og skapandi hugsunar.
Katrín Ólína vinnur þverfaglega að hönnun. Verkefni hennar tengja saman ólík svið, en hún vinnur á mörkum vöruhönnunar, rýmis-, skartgripa-, grafískrar listar og hönnunarheimspeki. Hönnun er heimspeki, því hver einasti gripur felur í sér hugmynd um heiminn og stöðu okkar í honum.
Sigríður Þorgerisdóttir er prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands. Smáspeki eða Minisophy tengist rannsóknuma Sigríðar á líkamlegri, heimspekilegri hugsun. Sjá betur hér.
Sigríður teygir heimspeki í ýmsar áttir í viðleitni sinni til að gera heiminn heimspekilegri og heimspekina veruleikatengdari. Sigríður hefur birt fjölda bóka og greina um rannsóknir sínar og er eftirsóttur fyrirlesari víða um heim.
Þema DesignTalks í ár, Nýr heimur, nýjar leiðir, birtist eins og rauður þráður í gegnum daginn og hnýtir saman erindi erlendra og innlendra hönnuða og arkitekta, sem á einn eða annan hátt eru að bregðast við stöðu mála í heiminum í dag.
Hlín Helga Guðlaugsdóttir er stjórnandi DesignTalks og ásamt henni mun Robert Thiemann, stofnandi og aðalritstjóri FRAME stjórna dagskránni, en hann er stofnandi og forstjóri Frame Publishers.
Fylgstu með því á næstu vikum munum við kynna fleiri nöfn sem ætla að veita innblástur á DesignTalks 2020 í Hörpu.
Uppselt hefur verið á viðburðinn undanfarin ár -tryggðu þér miða hér.
Hér er viðburðurinn á Facebook.
DesignTalks er lykilviðburður HönnunarMars, skipulagt af Hönnunarmiðstöð Íslands og styrkt af Arion banka og Reykjavíkurborg.