Þórunn Árnadóttir hannar kerti til styrktar Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur þriðja árið í röð
Mæðrablómið er árlegt söluátak Menntunarsjóðs Mæðrastyrksnefndar Reykjarvíkur og er sala hafin á kerti hannað af Þórunni Árnadóttur, sem inniheldur leyniskilaboð frá þjóðþekktum konum.
Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og frú Eliza Reid, forsetafrú, eru sérstakir stuðningsaðilar átaksins en í hópinn hefur bæst söngkonan Sigríður Thorlacius. Allar hafa þær valið texta sem birtist í botni postulínsskálar sem kertin eru í og birtast sem leyniskilaboð þegar kveikt er á kertinu.
Þórunn Árnadóttir er vöruhönnuður og yfirhönnuður hönnunarfyrirtæksins 54 Celsius sem gerir meðal annars Pyropet kertin. Hægt er að sjá meira um hana hér.
Allur ágóði af sölu Mæðrablómsins rennur óskertur til Menntunarsjóðsins sem styrkir tekjulágar konur til mennta. Markmið sjóðsins er að efla styrkþega til mennta og auka þannig möguleika þeirra á að finna góð störf sem geta tryggt þeim og fjölskyldum þeirra öruggari framtíð. Á síðasta ári veitti sjóðurinn 52 konum styrk til náms en frá upphafi stofnunar hans árið 2012 hefur sjóðurinn veitt fleiri en 250 styrki til náms.
Íslenskir hönnuðir hafa frá upphafi árið 2012 lagt söluátakinu lið með því að gefa vinnu sína við hönnun Mæðrablómsins. Meðal þeirra er Steinunn Sigurðardóttir, Snæfríður Þorsteins og Tulipop.
Kertin er til sölu til 19. maí í verslunum Pennans Eymundssonar á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri, í Epal í Skeifunni og Kringlunni, Snúrunni, hjá Eldum Rétt, Nettó og á Heimkaup.is, auk heimasíðu Mæðrastyrksnefndar hér.