Aðalfundur Arkitektafélags Íslands
Aðalfundur Arkitektafélags Íslands var haldinn sem fjarfundur miðvikudaginn 24. febrúar síðastliðinn. Auk venjulegra aðalfundarstarfa þar sem ársskýrsla og ársreikningur voru lögð fram var kosið í stjórn og nefndir. Ný stjórn félagsins er skipuð þeim Sigríði Maack sem var kosinn formaður, Helgu Guðrúnu Vilmundardóttur, sem kosinn var gjaldkeri, og Jóhanna Høeg, sem kosinn var ritari.
Fundarstjóri var kosinn Halldór Eiríksson og ritari fundar var kosinn Jóhanna Høeg. Á fundinum voru lagðar fram nokkrar lagabreytingar og ein ályktun var send á stjórn.
Lagabreytingar
Kosið var um fjórar lagabreytingar á aðalfundi og voru þær allar samþykktar. Lagabreytingar sem kosið var um voru eftirfarandi:
Tillaga stjórnar: "Inntökubeiðni skal fylgja leyfi ráðherra til starfsheitis,….."
Tillaga stjórnar: "Formenn fastanefnda eru varamenn í stjórn."
Tillaga stjórnar: "Fastanefndir félagsins eru: laganefnd, menntamálanefnd, kjaranefnd, samkeppnisnefnd, dagskrárnefnd, siðanefnd og orðanefnd."
Tillaga stjórnar: "Greiði félagi ekki félagsgjald fellur félagsaðild hans niður. Skrifstofa félagsins skal gera viðkomandi viðvart með tölvupósti eða símtali innan mánaðar. Óski viðkomandi eftir áframhaldandi félagsaðild skal hann hafa samband við skrifstofu félagsins."
Pétur H. Ármannsson kosinn heiðursfélagi Arkitektafélags Íslands
Sá ánægjulegur viðburður átti sér stað á aðalfundi félagsins að Pétur H. Ármannsson var kosinn heiðursfélagi félagsins. Viðurkenninguna hlaut hann fyrir fræðistörf sín um íslenska byggingarlistasögu á miðlun hennar til almennings. Pétur hefur unnið sem arkitekt og sjálfstætt starfandi fræðimaður ásamt því að hafa byggt upp og stýrt Byggingarlistadeild Listasafns Reykjavíkur um árabil. Pétur hefur ritað fjölda bóka og greina og fengist við kennslu um íslenska byggingarlist. Á síðasta ári tók Pétur saman yfirlitsbók um verk Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins en bókin var m.a. tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Íslands.
Ályktun til stjórnar AÍ
Undirritaðar, félagar í AÍ, hvetja nýkjörna stjórn AÍ til að beita sér fyrir umræðu, rannsóknum og skilgreiningu á gæðum í manngerðu umhverfi. Í ljósi þeirra áskorunar sem að samfélagið stendur frammi fyrir er mikilvægt að gæði og umhverfisvitund verði í forgrunni allrar umræðu, ákvörðunartöku og stefnumörkunar hjá ríki jafnt sem sveitafélögum.
Jafnframt hvetjum við AÍ til að beita sér fyrir lagaumbótum og reglugerðabreytingum svo gæði verði í forgrunni á öllum stigum ákvörðunartöku, má þá nefna skipulagslöggjöf, byggingareglugerð og (menningarstefnur) mannvirkjastefnur .
Anna María Bogadóttir
Borghildur Sturludóttir
Hildur Gunnarsdóttir
Ný stjórn tók ályktuninni fagnandi og mun taka mið af henni þegar stefnumál stjórnar verða mótuð í marsmánuði.
AÍ þakkar fráfarandi stjórnarmönnum þeim Karli Kvaran, fyrrum formanni, og Böðvari Páli Jónssyni, fyrrum gjaldkera, kærlega fyrir góð störf fyrir félagið. Eins þakkar AÍ fráfarandi nefndarmönnum kærlega fyrir vel unnin störf og um leið býður nýja nefndarmenn velkomna.