Arkþing/Nordic hlýtur fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppni um Torfunef á Akureyri
Arkþing/Nordic hlýtur fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppni um Torfunef á Akureyri en verðlaunaafhending fór fram 28. apríl síðastliðinn. Alls bárust sjö tillögur í samkeppnina sem haldin var af Hafnarsamleagi Norðurlands bs í samvinnu við Akureyrarbæ og Arkitektafélag Íslands og var auglýst 7. mars sl.
Meginmarkmið samkeppninnar var að gera tillögu að lifandi hafnarhverfi með fjölbreyttri starfsemi á Torfunefi í hjarta Akureyrar. Leitað var eftir tillögu þar sem byggingar og almennarými hafa aðdráttarafli fyrir bæjarbúa, ferðamenn og rekstraaðila á ýmsum sviðum eins og ferðaþjónustu, veitingarekstur, verslanir, sýningarrými, vinnustofur og skrifstofurými svo eitthvað sé nefnd. Ósk var um að útirými mættu gjarnan gefa möguleika á viðburðum, s.s. útitónleikum, útimarkaði eða öðrum smærri uppákomum.
Dómnefnd mat tillögurnar með hliðsjón af áherslum, sem fram komu í lýsingu. Um er að ræða samkeppni um skipulag svæðisins og vógu þættir eins og bæjarmynd, mælikvarði og þróunarhæfni þyngra en hönnun einstakra bygginga og útlit þeirra. Allar tillögurnar fela í sér skýra hugmynd. Þær eru ólíkar og falla misvel að bæjarmynd, staðaranda og sjónarmiðum dómnefndar. Byggingarmagn var ekki tilgreint í keppnislýsingu og er í tillögunum frá 825 m² upp í um 7.800 m². Hæfilegt byggingarmagn virðist vera nokkurn vegin mitt þar á milli miðað við það samhengi útirýma, húsahæða og bæjarmyndar, sem lesa má úr tillögunum.
Um vinningstillöguna segir:
Í tillögunni felst hugmynd um ákveðna umhverfismótun með skýru samhengi bygginga og útirýma. Auðvelt er að þróa eða breyta einstökum þáttum tillögunnar án þess að víkja frá meginatriðum hennar. Mælikvarði byggðarinnar er hóflegur þrátt fyrir stórar byggingar syðst og myndar húsaþyrpingin áhugaverða framhlið miðbæjarins auk þess sem hún fellur vel að smábátahöfninni og Hofi.
Dómnefnd skipaði:
- Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, formaður
- Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Hafnasamlags Norðurlands
- Ágúst Hafsteinsson, arkitekt FAÍ
- Árni Ólafsson, arkitekt FAÍ
- Guðrún Ragna Yngvadóttir, arkitekt FAÍ
Ritari dómnefndar og trúnaðarmaður samkeppninnar var Sigríður María Róbertsdóttir frá Hafnarsamlagi Norðurlands