HönnunarMars 2022 - sýningar sem standa lengur
HönnunarMars 2022 lauk sunnudaginn 8. maí eftir velheppnaða 5 daga hátíð. Alls voru 100 sýningar og 200 viðburðir á dagskrá og því ekki ólíklegt að einhverjum hafi ekki tekist að sjá allt sem var á dagskrá. Það eru þónokkrar sýningar sem standa opnar lengur svo enn er hægt að njóta HönnunarMars þó hátíðinni sjálfri sé lokið.
Hér að neðan má sjá yfirlit yfir þessar sýningar og hversu lengi þær standa opnar.
Tilraun - Æðarrækt
Sýning Tilraun - Æðarrækt er þverfagleg sýning í Hvelfingunni í Norræna húsinu um sjálfbært sambýli æðarfugla og manna á Íslandi, í Danmörku og Noregi. Sýningin er samsýning hönnunða og listamanna úr ólíkum áttum og er byggð á rannsókn á fuglinum og umhverfi hans, á sambandi hans við manninn, hefðinni, æðardúni og því hvernig dýrmæt sjálfbær hlunnindi eru nýtt á Norðurslóðum.
Tilraun - Æðarrækt stendur til 31. júlí 2022.
Erik Bryggman - norrænn arkitekt 1891-1955
Erik Bryggman var með áhrifamestu arkitektum sinnar kynslóðar og mun með hönnun sinni hafa, ásamt Alvar Aalto, markað upphaf virknihyggju í Finnlandi. Eftir hann stendur fjöldinn allur af byggingum sem þykja hornsteinn í byggingarsögu 20. aldar og hafa svo sannarlega staðist tímans tönn. Bryggman-stofnunin í Eistlandi hefur sett saman sýningu um feril Bryggman og áhrif hans á byggingarsögu Norðurlandana í sölum Norræna hússins.
Erik Bryggman - norrænn arkitekt 1891-1955 stendur út maí 2022.
Hliðarheimur plantna
Hliðarheimur plantna er safn af stafrænum myndum, hreyfimyndum, ilmum, hljóðmynd og texta þar sem viðfangsefnið eru skálduð blóm. Gestum er boðið inn í ilmheim flóru þar sem mörkin milli þess raunverulega og hins skáldaða skarast. Sýning fer fram í kjallara Fischersunds.
Hliðarheimur plantna stendur út árið 2022.
Snúningur
Hanna Dís Whitehead tekur annan snúning á fyrri verkum þar sem áhugaverðum efnivið, litum, formum og sögu er blandað saman á nýjan hátt á sýningunni sinni Snúningur í Gerðarsafni. Orka keðjuverkunar leiðir eitt af öðru, ein hugmynd ýtir á þá næstu.
Snúningur stendur til 5. ágúst 2022.
Hljóðhimnar
Hljóðhimnar er upplifunarrými fyrir börn og fjölskyldur á jarðhæð Hörpu. Á HönnunarMars opnaði fjölskylduvæna sýningin ,,Undir Hljóðhimnum“ sem veitir innsýn í hönnunarferlið á bak við rýmið. Hvað gera hönnuðir eiginlega? Geta krakkar verið sérfræðingar hönnuða?
Undir Hljóðhimnum stendur til 12. maí en Hljóðhimnar eru komnir til þess að vera í Hörpu og eru opnir frá kl. 14:öö - 18:00 á virkum dögum og frá kl. 10:00 - 18:00 um helgar.
Efnisheimur steinullar
Sýningin Efnisheimur steinullar í Hafnarborg veitir innsýn í efnisrannsókn Fléttu og Kristínar Sigurðardóttur þar sem skoðaðir eru möguleikar á endurvinnslu steinullar auk þess sem leikið er með fráfallsefni sem myndast við framleiðslu hennar á Íslandi. Hráefnið sem skapast er svart glerjað efni sem minnir á hrafntinnu sem nú er friðuð. Steinull er eitt af fáum byggingarefnum sem framleidd eru á Íslandi og er megin uppistaða hennar íslensk jarðefni. Sýningin er tilraunakennd og hrá og gefur innsýn í yfirstandandi tilraunavinnu hönnuðanna.
Efnisheimur steinullar stendur til 15. maí 2022.
Snert á landslagi
Snert á landslagi er vinnutitill yfirstandandi doktorsverkefnis Tinnu Gunnarsdóttur vöruhönnuðar, þar sem áhersla er lögð á að virkja fagurferðilega upplifun í landslagi sem afl til umbóta.
Hugtökin landslag og fagurfræði eru mun dýpri og yfirgripsmeiri en þau virðast við fyrstu sýn. Þau fjalla ekki einungis um ásýnd heldur raunverulega snertingu okkar við heiminn, þar sem maður og landslag mætast og hafa áhrif hvort á annað.
Á sýningunni í Hafnarborg má sjá verk frá öllu ferli Tinnu en þungamiðja sýningarinnar, byggir á áralangri tilviksrannsókn í Héðinsfirði á norðanverðum Tröllaskaga.
Snert á landslagi stendur til 15. maí 2022.
UNDIRLAND – UPPSTREYMI
Í verkefninu UNDIRLAND – UPPSTREYMI í Ásmundarsald koma tvö verkefni saman sem tengjast vistkerfi hrauns á bæði örkvarða og stórskala.
Það sem mætir gestum á sýningunni UNDIRLAND – UPPSTREYMI í Ásmundarsal er gluggi að hátækniheimi á örkvarða og stórskala sem hefur sagt skilið við gróðahámörkun og er því frjálst að rannsaka nýskapandi og framsæknar lausnir. Heimur þar sem rennandi hraun er notað sem byggingarefni og örverur sem áður þrifust í nýlegum hraunbreiðum eru orðin grunnur fyrir villiölframleiðslu. Þessi heimur er raungerður sem bar og leikjasalur þar sem upplýsingar og myndir eru sýndar á skjám auk þess sem gestir verða hluti af heiminum með því að setjast niður á UNDIRLAND barnum, teyga villiöl samhliða því að móta og kanna hraunborgir í gegnum sýndarveruleika og tölvuspil. Í líkingu við örverurnar sem eru fyrstar til að nema nýtt hraun og leggja þar grunninn fyrir ný lífríki.
UNDIRLAND - UPPSTREYMI stendur til 15. maí 2022.
Sól Hansdóttir AW22 – Áríðandi tilraunir á raunveruleikanum
Fatalínan „Áríðandi tilraunir á raunveruleikanum“ er frumraun Sólar Hansdóttur eftir útskrift úr Central Saint Martins. Fatalínan var frumsýnd á London Fashion Week í febrúar og kannar línan aðstæður til framleiðslu á nútímafatalínu, með áherslu á nýtingu auðlinda, hérlendis. Með haustlínu 2022 kannaði Sól Hansdóttir aðstæður á Íslandi til þróunar og framleiðslu á nútímafatalínu. Verkefnið er framhald af fyrri rannsókn og útskriftarlínu hönnuðar við Central Saint Martins háskóla í London vorið 2021. Línan var unnin í samstarfi í Textílmiðstöð Íslands, Ístex og Glófa með sérstakri áherslu á að nýta íslensku ullina sem hráefni. Markmið er að efla textílþróun og framleiðslu fatnaðar á Íslandi ásamt því að nýta innlendar auðlindir.
„Áríðandi tilraunir á raunveruleikanum“ er sýnd í Gryfjunni í Ásmundarsal til 15. maí 2022.
Bíbí og blabla
Verkefnið er rannsókn teymisins studio allsber á samskiptum manna og fugla og tilraun til þess að hanna nauðsynlega og yndisaukandi hluti fyrir þá, sem og okkur sjálf, mannfólkið. Sýningin fer fram utandyra í garði Ásmundarsals þar sem sýnd eru fuglaböð og fleira sem kemur út úr rannsókninni.
Bíbí og blabla stendur til 15. mai 2022.
Sund
Sýningin Sund á Hönnunarsafni Íslands nær yfir tímabilið frá sundvakningunni við upphaf 20. aldar til dagsins í dag. Sagan sem hún segir af sundlaugamenningu er um leið ylvolg sagan af íslensku nútímasamfélagi með léttri angan af klór og hveralykt, gufuslæðu og skvampi.
Sund stendur til 25. september 2022.
Annar Laugavegur
Höfundar bókarinnar „Laugavegur“ sýna efni sem rataði ekki í bókina. Má þar nefna stóra útlitsteikningu af öllum húsum við götuna í annarri mynd en við þekkjum í dag og tölvugerðar myndir af húsum sem aldrei risu og þau sett inn á nýjar ljósmyndir af götunni.
Bókin „Laugavegur“ kom út fyrir jólin 2021 á vegum bókaforlagsins Angústúru. Í henni er byggingar- og verslunarsaga aðalgötunnar sögð í máli og myndum og tilraun gerð til að útskýra hvers vegna Laugavegurinn hefur þróast með þeim hætti sem raun ber vitni.
Annar Laugavegur sýningin verður opin í Epal Gallerí, Laugavegi 7 til 22. maí.