Björn Steinar, Johanna Seelemann og Brynjar Sigurðarson meðal sýnenda í norrænni samsýningu í Helsinki
Vöruhönnuðirnir Björn Steinar Blumenstein, Johanna Seelemann og Brynjar Sigurðarson sýna Travel as a Tool í hinu virta finnska hönnunarsafni Design Museo í Helsinki. Á sýningunni er að finna verk eftir nokkra af fremstu hönnuðum heims.
„Þetta er mikill heiður, að fá tækifæri til að sýna samhliða sumum af færustu og þekktustu hönnuðum Norðurlandanna, eins og Arne Jacobsen, Alvar Aalto og Hans J. Wegner. Þessir menn voru mín fyrirmynd þegar ég byrjaði í hönnun á sínum tíma,“ segir Björn Steinar í viðtali við Mannlíf sem má lesa í heild sinni hér en hann og Johanna Seelemann sýna verkið sitt Banana Story á sýningunni.
Auk Björn Steinars og Johönnu þá er vöruhönnuðurinn Brynjar Sigurðarson meðal sýnenda í Travel as a Tool og af öðrum hönnuðum má nefna Kaj Franck, Ramona Salo Myrseth og Arne Jacobsen. Sem fyrr segir er sýningin haldin í finnska hönnunarsafni Design Museo í Helsinki en þema sýningarinnar eru ferðalög norrænna hönnuða í víðum skilningi. Sýningin stendur yfir til 7. mars á næsta ári.
Hér er hægt að lesa nánar um sýninguna.