Innflutningur / Útflutningur: Banana Story
Með vel útfærðri hönnun tekst Banana Story að greina og túlka flókna ferðasögu venjulegs banana og flettir um leið ofan af hulduslóð margs konar kerfa sem umlykja líf okkar.
Flestar matvörur sem við neytum eiga óralanga ferð að baki frá manni til manns, eftir flóknum, ósýnilegum leiðum. Í hvert sinn sem við notum kreditkortið styrkjum við kerfi sem nýta auðlindir á stöðum sem við sjáum e.t.v. aldrei og lífsviðurværi fólks sem við munum aldrei hitta. Hnattvæðingin gerði Íslendingum kleift að njóta ógrynnis innfluttra afurða, svo sem suðrænna ávaxta, ítalsks pasta og afrísks kakós, sem nú þykir eðlilegt að neyta hversdags. Eftirspurn eftir slíkum vörum gerir okkur háð innflutningi og honum fylgir óhjákvæmilega kolefnisspor, sem á Íslandi er það hæsta á mann meðal þjóða Fríverslunarsamtaka Evrópu og hærra en í nokkru ríki Evrópusambandsins.
Eftir því sem afleiðingar hins hnattræna lífsstíls hrannast upp gerbreytast væntingar neytenda og siðferðisvitund fólks. Á Vesturlöndum bregðast fyrirtæki nú sem aldrei fyrr við samviskusemi viðskiptavina, kröfum um gagnsæi og loftslagsbreytingum. Þetta gera þau með beinni þátttöku og frumkvæði. Meðvitund almennings um markaðssiðfræði og vöruframsetningu þykir sjálfsögð. Það gefur hönnuðum tækifæri til þess að ryðja sér braut í hefðbundnum atvinnugreinum og færa þangað ferska sýn.
Tillaga að hönnun vöru hefst nú löngu áður en að því kemur að neyta hennar eða nota hana, því allir þættir eru samtvinnaðir: hvaðan hlutirnir koma sem nota á í vöruna, hvar hún verður framleidd og hvernig henni verður dreift. Og nú, þegar gagnsæi er mikilvægara en nokkru sinni fyrr, er æ algengara að hinar ýmsu atvinnugreinar noti merkingar, sögur og mannmiðaða hönnun í því skyni að skapa og senda frá sér hluti sem hafa ákveðin gildi, styrkja sambandið við viðskiptavininn og leggja grunn að framtíðinni. Þrátt fyrir þetta er hið raunverulega ferðalag hverrar vöru hulið meiri þoku en við gerum okkur í hugarlund.
Þrátt fyrir þetta er hið raunverulega ferðalag hverrar vöru hulið meiri þoku en við gerum okkur í hugarlund.
Í augum hönnuðanna Johönnu Seelemann og Björns Steinars Blumenstein er hönnun leið til að bæta siðferði og auka þjóðfélagsábyrgð í hnattvæddum heimi. Hver einasta ákvörðun sem tekin er í hönnunarferlinu mun snerta hundruð manna víðs vegar um heiminn og því finnst þeim að hönnuðir þurfi að leggja sig fram um að þróa með sér djúpan skilning á þessari fjöltengdu og flóknu veröld sem við búum í. Til þess að hægt sé að taka siðferðislegar ákvarðanir er nauðsynlegt að skilja til fulls hvernig vara kemst á markað, allt frá uppruna hráefnisins til framleiðslu, dreifingaraðferða og smásölu – oft og tíðum landa og láða á milli.
Johanna og Björn Steinar, sem oft hafa unnið saman að rannsóknar- og tilraunaverkefnum, hafa ólíkan bakgrunn sem nýtist þar vel. Johanna kannar samhengi og fagurfræði hversdagslegra hluta og gefur gaum að tengslum milli smíði þeirra, fjöldaframleiðslu og alþjóðaviðskipta. Björn Steinar einbeitir sér aftur á móti að því að nýta niðurstöður rannsóknanna til þess að finna skýrar og aðgengilegar lausnir. Flest verkefnin gefa honum færi á að nýta eðlislæga þörf sína til þess að leita djarfra og hagkvæmra lausna.
Upp á síðkastið hafa þau hlotið alþjóðlega athygli fyrir verkefnið Banana Story, rannsókn og miðlun á flóknu kerfi farmaflutninga á heimsvísu. Verkefnið felur í sér að óvenju ítarlegar upprunamerkingar eru útbúnar fyrir ósköp venjulega banana sem fást í matvöruverslunum. Ólíkt tilkomulitlu límmiðunum sem við erum vön er nýjum og upplýsandi merkingum ætlað að auka skilning og áhuga fólks á þeim flóknu ferlum sem liggja að baki því að bananarnir komast til okkar. Við sjáum vegabréf banana sem ferðast hefur frá Ekvador til Íslands, auk myndskreytts miða með nákvæmri ferðalýsingu þar sem fram kemur að meira en þrír tugir manna í þremur heimsálfum hafa farið um bananann höndum á leið hans á áfangastað.
Banana Story er að því leyti ólíkt hefðbundnum hönnunarverkefnum að það nýtir ekki hönnun til þess að benda á lausn. Aftur á móti miðlar það á aðgengilegan hátt flóknu ferðalagi sem annars er ósýnilegt. Banana Story er laust við pólitík en ekki kímni og fær okkur til þess að tengjast stærri veruleika um leið og það biður okkur um að gefa hlutum, sem okkur hafa þótt sjálfsagðir, nýjan gaum. Notaðar eru aðlaðandi leiðir til þess að koma flóknum rannsóknum og samhengi á framfæri og áhrifin magnast þegar maður gerir sér grein fyrir hve snúið ferlið er þótt það sé sett fram á einfaldan hátt.
Með því að svipta hulunni af framleiðslukeðjunum og viðskiptanetunum sem gera lífsstíl okkar mögulegan er hægt að stuðla að því að við lærum að meta hlutina í kringum okkur og sýnum þeim forvitni.
Það kostaði ótal klukkutíma vinnu að grafast fyrir um þessi ferðalög. Fara þurfti yfir áreiðanlegar upplýsingar, hringja símtöl og fullvissa sig um staðreyndir, hvort sem um var að ræða nöfn á höfnum og fyrirtækjum eða flutningsleiðir. Slíkar upplýsingar eru ekki auðfengnar og verða fljótt úreltar, því heimur viðskiptanna er síbreytilegur. Þó er tiltölulega einfalt að rekja vöru sem á uppruna sinn á aðeins einum stað miðað við þær sem samsettar eru úr mörgum hlutum. „Einfalt dæmi er venjulegur blýantur,“ útskýrir Björn Steinar: „Strokleðrið á honum kemur trúlega frá gúmmíekru í Kambódíu. Rafhúðaða stálið gæti verið frá Kongó, viðurinn frá Lettlandi og grafítið frá Kína, Indlandi eða Brasilíu. Þá er eftir að finna út hvaðan málningarefnið kemur. Það er ekki ljóst.“ Vara sem við fyrstu sýn virtist einföld reynist nú vera ákaflega flókin, og enn frekar þegar mótþrói framleiðenda er tekinn með í reikninginn en þeir eru oft tregir til að gefa nokkuð upp um aðferðir sínar.
Neytendur upplifa það sem Johanna kallar „ráðgátu“ vörunnar þar sem þá skortir tengingu við framleiðsluaðferðir hluta sem þeir nota dagsdaglega: „Og þar eð neysla okkar fer nú í síauknum mæli fram í gegnum netið, þar sem allar vörur eru í smellfæri, minnkar enn skilningur okkar á því hvernig þær urðu til og hvaða ferli við setjum af stað með kaupunum.“ Í heimi fagurra vörumerkja vill brenna við að vinnan og tíminn sem í framleiðsluna fór hverfi sporlaust. Og þegar hlutirnir eru ekki rekjanlegir verður auðveldara að arðræna fólk og lífríki til að lækka verð á almennum markaði. Inn- og útflutningur gerir nútímalífsstíl mögulegan en okkur jafnframt berskjölduð fyrir áhættunni sem fylgir óljósum framleiðsluháttum og skorti á staðbundinni sjálfbærni.
Johanna leggur til að við upplýsum börn og almenning um hversdagslega hluti, hvernig þeir eru framleiddir og hvaðan þeir koma. Það væru fyrstu skrefin í átt til mótvægis við þessar afleiðingar. Með því að svipta hulunni af framleiðslukeðjunum og viðskiptanetunum sem gera lífsstíl okkar mögulegan er hægt að stuðla að því að við lærum að meta hlutina í kringum okkur og sýnum þeim forvitni. Með þessu móti, segir Jóhanna, „förum við að gera okkur grein fyrir hvað til þarf svo vara komist af einum stað á annan: hve mikillar sérhæfðrar þekkingar er þörf, þau hundruð manna sem leggja til hráefnið, framleiðsluna, flutninginn, skipulagninguna, færslu hlutanna á einn stað, samsetningu þeirra, dreifingu hvers einasta hlutar umhverfis okkur.“ Skilningur á öllu þessu gerir viðskiptaaðferðir mannlegri þannig að „okkur stendur ekki lengur á sama um fólkið sem á þátt í þeim og metum hlutina sjálfa, sem hefur áhrif á umgengni okkar við þá og neysluvenjur okkar,“ segir hún. Með því að setja fram meðvitaða kröfu um aukið gagnsæi þegar við hönnum eða veljum vörur öxlum við ábyrgð, byggjum heim þar sem við stöndum í auknum mæli skil á gjörðum okkar – þar sem okkur stendur einfaldlega ekki á sama.
Banana Story er meðal hundrað áhrifamestu hönnunarverkefna ársins 2019 að mati Icon Design. Verkefnið var valið á sýninguna FOOD: Bigger than the Plate sem opnaði 18. maí síðastliðinn í Victoria and Albert-safninu í London.