Basalt arkitektar hljóta Steinsteypuverðlaunin í fjórða sinn
Basalt arkitektar hlutu Steinsteypuverðlaunin í fjórða sinn 2. febrúar síðastliðinn en verðlaunin í ár hlutu þau fyrir sjóböðin GeoSea á Húsavík. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á Steinsteypudeginum 2024 á Grand Hótel. Basalt arkitektar hlutu einnig Steinsteypuverðlaunin á síðasta ári, 2023, fyrir Vök Baths á Egilsstöðum, 2019 fyrir Bláa lónið Retreat og 2011 fyrir sundlaugina á Hofsósi.
Um GeoSea segir dómnefnd:
Geosea sækir innblástur sinn í jarðfræði svæðisins en falleg lagskipting í sjávarhömrum Skarfahillu endurspeglast í áferð steyptra veggja baðstaðarins. Við val á mannvirki er horft til þess að saman fari frumleg og vönduð notkun á steinsteypu í manngerðu umhverfi og þykir aðilum verks hafa tekist vel til í þessu efni við hönnun og framkvæmd Geosea. Það er mikið ánægjuefni að sjá þann metnað sem aðstandendur hafa lagt í verkið.
Verðlaunin eru veitt mannvirkinu og öllum þeim komu að hönnun og framkvæmd. Um hönnun sáu Basalt arkitektar og VERKÍS hf., framkvæmd var í höndum Trésmiðjunnar Rein og steinsteypan kom frá Steinsteypi. Eigandi eru Sjóböð ehf. Er öllum aðstandendum þess óskað innilega til hamingju.
Frekari upplýsingar um Steinsteypuverðlaunin má nálgast hér.
Myndir af GeoSea.
Við óskum BASALT arkitektum til hamingju!