Bókin Kristín Þorkelsdóttir er komin út
Bókin Kristín Þorkelsdóttir er komin út en þar varpa þær Bryndís Björgvinsdóttir og Birna Geirfinnsdóttir ljósi á fjölmörg verk Kristínar og þeirra óskráðu sögu.
Kristín er grafískur hönnuður, handhafi Heiðursverðlauna Hönnunarverðlauna Íslands 2020 og óhætt að segja að hér á landi hafi fáir skilað jafn mörgum þekktum verkum, sem skipa viðlíka sess í íslenskri sjónmenningu.
Bókin er gefin út af Angústúru, innbundin, 240 bls og er bókarhönnun í höndunum á Studio Studio (Arnar Freyr Guðmundsson, Birna Geirfinnsdóttir). Bryndís og Birna starfa báðar sem dósentar við hönnunardeild Listaháskóla Íslands.
Kristín (1936) hóf að vinna fyrir sér sem teiknari og grafískur hönnuður á unglingsaldri. Allar götur síðan hafa verk hennar verið áberandi hluti af íslensku hversdagslífi, svo sem þegar ísskápur er opnaður, veski er dregið fram í verslun eða sest er við borðhald. Á löngum ferli hefur Kristín hannað urmul auglýsinga, minnistæðra umbúða og rótgróin merki, sem hafa verið landsmönnum sýnileg á skiltum, pappír og skjáum í yfir fimm áratugi. Kristín stofnaði og rak um árabil eina mikilvirtustu auglýsingastofu landsins þar sem hún leiddi alla hönnunarvinnu, til að mynda á mjólkurfernum fyrir Mjólkursamsöluna, umbúðum Osta- og smjörsölunnar og sjónvarpsauglýsingar fyrir BYKO. Kristín teiknaði einnig merki þessara fyrirtækja og annarra og hafa sum þeirra verið í notkun í áratugi. Þá sinnti hún hönnun þeirra peningaseðla sem nú eru í notkun hérlendis og íslenska vegabréfinu.