Handverk í arkitektúr! Opinn fyrirlestur með Degi Eggertssyni
Dagur Eggertsson arkitekt og gestaprófessor við Listaháskóla Íslands heldur opinn fyrirlestur í arkitektúrdeild LHÍ, fyrirlestrarsal A, föstudaginn 13. janúar næst komandi klukkan 12:15. Fyrirlesturinn er hluti af 'Gestagangi' , sameiginlegri fyrirlestraröð arkitektúrdeildar og hönnunardeildar Listaháskóla Íslands.
Í fyrirlestrinum fjallar Dagur um þýðingu handverks í arkitektúr. Þá kemur hann inn á undirstöður sjálfbærnihugtaksins og hvers vegna menning og félagslega hliðar þess hafa átt undir högg að sækja á síðustu árum.
Dagur Eggertsson er gestaprófessor við Listaháskólann og stjórnar lokaverkefni arkitektúrnema á Bachelorstigi ásamt Hjördísi Sigurðardóttur. Lokaverkefnin hjá þeim hafa snúist um sjálfbærni í víðum skilningi orðsins og hafa nemendur þeirra fengið frjálsar hendur til að túlka hugtakið - og oft heimfært það upp á starfsemi í þjóðfélaginu sem oft verður út undan í umfjöllun fjölmiðla.
Dagur rekur arkitektastofuna Rintala Eggertsson Arkitekta í Osló og Bodö ásamt finnska arkitektinum Sami Rintala og norska arkitektinum Vibeke Jenssen. Þau hafa komið víða við á ferlinum og meðal annars tekið þátt í sýningum á MAXXI safninu í Róm, Victoria & Albert Museum í London og margsinnis á Feneyjatvíæringnum. Þá hafa verk eftir þau birst í tímaritum á borð við Domus, Abitare, Architectural Review, Blueprint, A+U, Detail til að nefna nokkur. Saman hafa þau unnið til fjölda verðlauna á alþjóðavettvangi eins og The Global award for Sustainable Architecture, Wan 21 for 21 Award, Architizer A+Award, Travel & Leisure Award, American Architecture Award and the International Architecture Award auk fjölda tilnefninga til Mies van der Rohe verðlaunanna.
Aðgangur ókeypis og öll velkomin!