DesignTalks talks - hlaðvarp um hönnun
DesignTalks talks er hlaðvarp um hönnun og arkitektúr, fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og fjallar um víðtæk áhrif greinanna í samfélaginu og ástríðuna sem liggur þar að baki. Hlín Helga Guðlaugsdóttir, hönnuður og stjórnandi DesignTalks hefur umsjón með hlaðvarpinu, sem er framleitt af Studio HönnunarMars og Miðstöð hönnunar og arkitektúrs. Tæknimaður er Þorbjörn G. Kolbrúnarson og Halldór Eldjárn samdi stefið.
Hlaðvarpið er samtalsvettvangur þar sem fjallað er um hönnun og arkitektúr í allkyns samhengi með frábærum gestum. Nýsköpun, tækni, samfélagslegar áskoranir, loftslagsmál og hvað-eina, af því að þannig er hönnun: snertir við öllu og getur verið mikilvægur drifkraftur nýsköpunar og samfélagslegra framfara.
DesignTalks talks er í umsjón Hlínar Helgu Guðlaugsdóttur, hönnuðar og stjórnanda DesignTalks ráðstefnunnar, sem hefur verið einn af lykilviðburðum HönnunarMars frá upphafi. Þættirnir í þessari fyrstu seríu eru fimm og gestirnir hefðu verið í hópi fyrirlesara ásamt fleirum í DesignTalks í Silfurbergi Hörpu ef ekki hefði verið fyrir heimsfaraldur.
Með hlaðvarpinu stuðlum við að faglegri umræðu um hönnun og arkitektúr sem eykur skilning á mikilvægi greinanna fyrir samfélagið í heild. Á þessu augnabliki langaði mig að staldra við og taka stöðuna; hvað eru hönnuðir og arkitektar að fást við um þessar mundir? Heyra af viðbrögðum hönnuða í heimsfaraldrinum, áhrifin á greinina og leiðina framundan.
Viðmælendur í DesignTalks talks eru þau Valdís Steinarsdóttir vöruhönnuður og Halldór Eldjárn, Ragna Fróðadóttir, textílhönnuður, verkefnastjóri hjá Li Edelkoort Inc. og Magnea Einarsdóttir, fatahönnuður, stofnandi og eigandi fatamerkisins MAGNEA, Hörður Lárusson grafískur hönnuður, stofnandi og eigandi hönnunarstofunnar Kolofon og Magga Dóra, stafrænn hönnunarleiðtogi, stofnandi og eigandi Mennsk ráðgjöf, Arnhildur Pálmadóttir arkitekt, stofnandi s.pa. og af þessu sérstaka tilefni: Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.