Edda, hús íslenskunnar tilnefnt sem staður ársins - Hönnunarverðlaun Íslands 2023
Edda, hús íslenskunnar eftir Hornsteina arkitekta tilnefnt sem staður ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023.
Rökstuðningur dómnefndar:
Edda er nýtt hús íslenskunnar, sem stendur á Melunum í Reykjavík. Byggingin er einkennandi og áhrifamikil. Vandað er til verka af fagmennsku, listfengi og hugað að hverju smáatriði að innan sem utan. Sporöskjulaga formið og einstök áferð hið ytra gefur til kynna dýrmætt innihald. Edda er bjart og opið hús þar sem fallegir inngarðar gefa innri rýmum andrúm og birtu. Bygging Eddu á sér langan aðdraganda og sérstaklega ánægjulegt að sjá þessa mikilvægu og metnaðarfullu byggingu, sem markar tímamót fyrir miðlun menningararfs á Íslandi, rísa í borginni.
Edda var vígð á vormánuðum og er ný lykilbygging í íslensku samfélagi, sem geymir handrit Íslendinga, merkustu menningarverðmæti þjóðarinnar. Byggingin stendur í grunnri spegiltjörn og að utan er hún klædd koparhjúp með stílfærðum afritum texta úr handritum, sem í senn skreytir veggina og vekur forvitni um það sem býr innan þeirra. Í húsinu er starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands sameinuð ásamt því að varðveisla og aðgengi almennings og ferðafólks að íslenskum menningarverðmætum er tryggð til langrar framtíðar.
Um:
Hornsteinar arkitektar er stúdíó með arkitektum og landslagsarkitektum sem vinna á sviði arkitektúrs, skipulags og landslagsarkitektúrs. Stofan vinnur að því markmiði að sameina hönnun við náttúru, umhverfi og mannlegra þarfa ásamt samspili við nýjustu framfarir í tækni og vísindum.
Verðlaunaafhending Hönnunarverðlauna Íslands 2023 fer fram í Grósku þann 9. nóvember næstkomandi ásamt samtali því tengdu. Taktu daginn frá!
Fylgstu með næstu daga er við tilkynnum tilnefningar til Hönnunarverðlauna Íslands 2023.
Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi með áherslu á áhrif þeirra á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið allt. Þau verða veitt í tíunda sinn í ár (2023) og í tilefni af því hefur verðlaunaflokkum verið fjölgað í þrjá undir heitunum Verk // Staður // Vara.
Dómnefnd tilnefnir þrjú verkefni í hverjum flokki og af þeim hlýtur einn sigurvegari í hverjum flokki Hönnunarverðlaun Íslands 2023 sem eru hvor tveggja heiðurs- og peningaverðlaun. Auk þess verður veitt viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun og Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands.
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.