Hverjir skipa dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands 2023?
Ný dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands árið 2023 er tekin til starfa og er skipuð átta vel völdum einstaklingum sem eru fulltrúar ólíkra faghópa innan hönnunar og arkitektúrs.
Framundan er vandasöm vinna við að finna sigurvegara Hönnunarverðlaunanna í flokkunum Vara // Staður // Verk ásamt viðurkenningum fyrir bestu fjárfestingu í hönnun og Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands.
Verðlaunaafhending fer fram þann 9. nóvember næstkomandi í Grósku.
Dómnefnd Hönnunarverðlaun Íslands 2023
Sigríður Sigurjónsdóttir
Formaður dómnefndar, forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands og fulltrúi safnsins í dómnefnd. Sigríður starfaði hjá Central Saint Martins Design Lab og hjá hátæknifyrirtækjum í Amsterdam og London sem hönnuður og hugmyndasmiður. Hún starfaði sem prófessor og fagstjóri í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands frá 2004 til 2012 og stofnaði og rak Spark Design Space hönnunargallerí við Klapparstíg á árunum 2010 - 2016.
Halldór Eiríksson
Arkitekt og einn eigandi atkitektastofunnar T.ark. Halldór er með MArch gráðu frá University of Virginia og hefur starfað sem stundakennari í arkitektúr bæði hérlendis og erlendis. Hann var fagstjóri Arkitektúrdeildar LHÍ 2003 - 2006. Halldór er stjórnarformaður Framkvæmdasjóðs Ferðamannastaða og formaður Samtaka Arkitektastofa.
Eva María Árnadóttir
Fatahönnuður og sviðsforseti arkitektúrs, hönnunar og myndlistar við Listaháskóla Íslands og fulltrúi skólans í dómnefnd. Eva María er með BA í fatahönnun við Listaháskóla Íslands og Msc í stjórnun fyrirtækja frá Stockholm School of Economics. Hún er með yfir 12 ára reynslu í fataiðnaðinum frá París, New York, Stokkhólmi og Íslandi.
Erling Jóhannesson
Gullsmiður, leikari og leikstjóri. Hann útskrifaðist sem gullsmiður frá Tækniskólanum í Reykjavík og stundaði framhaldsnám í Flórens á Ítalíu. Hann lauk meistaranámi í menningarstjórnun frá háskólanum á Bifröst 2022. Erling rekur Smiðsbúðina, vinnustofu og sýningarrými við höfnina í Reykjavík. Hann hefur gegnt starfi forseta Bandalags íslenskra listamanna frá árinu 2018.
Þorleifur Gunnar Gíslason
Grafískur hönnuður og hönnunarstjóri á Brandenburg. Hann útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands og hefur sérhæft sig í mörkun fyrirtækja og myndskreytingum. Þorleifur hefur hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín, hérlendis og erlendis. Hann situr í stjórn Félags íslenskra teiknara og hefur verið í dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands frá árinu 2020.
Guðrún Sóley Gestsdóttir
Dagskrárgerðarmaður á RÚV þar sem hún sinnir mestmegnis menningartengdri miðlun í þáttum á borð við Menningin, Kastljós og sértækri þáttagerð þar sem helstu viðfangsefni er myndlist, kvikmyndir, sviðslistir, hönnun og ljósmyndun. Guðrún Sóley hefur tvívegis kynnt Hönnunarverðlaun Íslands og DesignTalks ásamt því að vera mikil áhugamanneskja um greinina.
Margrét Kristín Sigurðardóttir
Almannatengsla - og samskiptastjóri Samtaka iðnaðarins. Margrét er viðskiptafræðingur MSc/MBA og starfaði lengi hjá Árvakri, útgefanda Morgunblaðsins og mbl.is. Hún hefur m.a. verið formaður Myndlistarráðs og formaður dómnefndar Íslensku myndlistarverðlaunanna. Margrét hefur setið í dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands undanfarin ár.
Tor Inge Hjemdal
Framkvæmdastjóri DOGA, miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs í Noregi. Tor er menntaður arkitekt með áherslu á nýsköpun og borgarumhverfi ásamt því að vera með gráðu í stjórnun frá Haas business school í Berkley. Hann hefur sinnt stjórnunarstörfum í atvinnulífinu og hjá hinu opinbera ásamt því að sinna kennslu, sýningarstjórnun auksetu í fjölbreyttum nefndum, stjórnum og dómnefndum á alþjóðavettvangi.
Varamenn dómnefndar eru: Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, vöruhönnuður, María Kristín Jónsdóttir, vöruhönnuður, Katrín María Káradóttir, fatahönnuður, Hrefna Sigurðardóttir, grafískur hönnuður, Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt og Sigurlína Margrét Osuala, keramiker.
Hönnunarverðlaun Íslands verða veitt í tíunda sinn í ár og í tilefni af því hefur verðlaunaflokkum verið fjölgað í þrjá undir heitunum
Vara // Staður // Verk.
Yfir 100 ábendingar um framúrskarandi verk bárust dómnefnd sem tilnefnir þrjú verkefni í hverjum flokki og af þeim hlýtur einn sigurvegari í hverjum flokki Hönnunarverðlaun Íslands 2023 sem eru hvoru tveggja heiðurs- og peningaverðlaun
Fylgist með í næsta mánuði þegar við tilkynnum tilnefningar til Hönnunarverðlauna Íslands 2023!