Hönnunarverðlaun Íslands veitt í tíunda sinn
Hönnunarverðlaun Íslands fara fram í Grósku þann 9. nóvember. Opnað verður fyrir ábendingar í ágúst.
Þetta er í tíunda sinn sem verðlaunin verða veitt. Í tilefni af afmælisári var tekin ákvörðun um að breyta fyrirkomulagi verðlaunanna sem var unnin í samstarfi við faghópa, samstarfsaðila og starfsfólks þannig að í ár verða verðlaunin haldin með breyttu sniði.
Hönnunarverðlaun Íslands verða veitt í þremur flokkum, þrjár tilnefningar í hverjum flokki og einn sigurvegari í hverjum flokki. Það verða því þrenn aðalverðlaun ásamt viðurkenningunum; Besta fjárfesting í hönnun og Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands.
Áherslur flokkanna eru:
- Staður
- Vara
- Verk
Nánari lýsingar á flokkunum verða kynntar þegar opnað verður fyrir ábendingar í haust. Allir geta sent í ábendingar og hvetjum við alla, einnig höfunda framúrskarandi verka, til að senda inn ábendingar.
Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi með áherslu á áhrif þeirra á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið allt.
Hönnunarverðlaun Íslands beina sjónum að því besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi um leið og einstaka hönnuðum eða hópum hönnuða er veitt mikilvæg viðurkenning.
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands og Listaháskóla Íslands með stuðningi frá Samtökum Iðnaðarins og Íslandsstofu ásamt fleirum.