Settu formlega á laggirnar norrænan samstarfsvettvang
Jan Christian Vestre, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs og Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra settu formlega á laggirnar norrænan samstarfsvettvang um hönnun og arkitektúr á UIA, Alþjóðlegu arkitektúrráðstefnunni sem fór fram í Kaupmannahöfn í byrjun júlí.
Markmið verkefnisins er að efla samstarf milli aðila, deila þekkingu og um leið dýpka skilning norræns stjórnmálafólks á hlutverki hönnunar og arkitektúrs í grænni umbyltingu, og hvernig þessar greinar geta haft jákvæð áhrif á atvinnulífið og samfélögin í heild.
Hugmyndin kviknaði þegar Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra hitti Jan Christian Vestre, atvinnumálaráðherra Noregs á fundi í Osló í apríl 2022, þegar hún var á ferð til að kynna sér málefni hönnunar og arkitektúrs á Norðurlöndum sem Miðstöðin sá um að skipuleggja. Þau komu bæði fram á ráðstefnunni til að kynna aukið samstarf Norðurlandanna á sviði hönnunar og arkitektúrs.
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs er fulltrúi Íslands í samstarfinu og hefur tekið virkan þátt í þróun þess sem DOGA (no. Design og Arkitektur Norge) hefur leitt og systurstofnanir miðstöðvarinnar taka þátt í auk fjölda annarra.
„Þessi nýi vettvangur sameinar krafta fagfólks á Norðurlöndunum sem vinnur að því að efla hönnunargreinar, og mun miðla þekkingu, aðferðum og árangri með markvissari hætti. Ég bind vonir við að samvinnan muni leysa úr læðingi mikla skapandi krafta og bera hróður norrænnar hönnunar enn víðar en áður,“ segir Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Hægt er að lesa nánar um samstarfið hér.