Norrænt samstarf eykur sjálfbærni
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og systurstofnanir á Norðurlöndunum ætla styrkja samstarfið sín á milli með það að markmiði auka þekkingu og skilning á því hvernig hönnunargreinar geta flýtt grænni umbreytingu og eflt sjálfbæra verðmætasköpun, á Norðurlöndunum og víða um heim. Norrænn samstarfsvettvangur verður formlega settur á laggirnar á alþjóðlegu arkitektúrráðstefnunni, UIA, í Kaupmannahöfn í byrjun júlí.
Meiri og markvissari árangur með sameiginlegum vettvangi
Markmið samstarfsins er að dýpka skilning norræns stjórnmálafólks og og ákvörðunarvaldsins á hlutverki hönnunar og arkitektúrs í grænni umbyltingu, og hvernig þessar greinar geta haft jákvæð áhrif á atvinnulífið og samfélögin í heild.
„Við erum stór hópur fólks á Norðurlöndum sem vinnum á breiðu sviði hönnunar og arkitektúrs. Öll höfum við sama markmið, að miðla þekkingu á þeim aðferðum og nálgun sem felast í hönnun og arkitektúr og efla þessar greinar samfélögum okkar til heilla. Með því að sameinast á einum vettvangi getum við náð meiri og markvissari árangri, miðlað þekkingu, tækjum og tólum innbyrðis, stækkað verkefnin og eignast sterkari rödd í stefnumótun og á vettvangi stjórnmála og atvinnulífs,“ segir Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs
Hugmyndin kviknaði þegar Jan Christian Vestre, atvinnumálaráðherra Noregs, hitti Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra á fundi í Osló í apríl 2022, þegar hún var á ferð til að kynna sér málefni hönnunar og arkitektúrs á Norðurlöndum. Þau koma bæði fram á ráðstefnunni til að kynna aukið samstarf Norðurlandanna á sviði hönnunar og arkitektúrs. Einnig mun Karin Svanberg- Sjövall, skrifstofustjóri sænska menningarmálaráherrans koma fram.
„Hönnun og arkitektúr eru mikilvægir drifkraftar fyrir sjálfbæra þróun, græn umskipti og verðmætasköpun, bæði með tilliti til aukinnar samkeppnishæfni og möguleika norrænna fyrirtækja, og fyrir borgir og samfélög. Þessi nýi vettvangur sameinar krafta fagfólks á Norðurlöndunum sem vinnur að því að efla hönnunargreinar, og mun miðla þekkingu, aðferðum og árangri með markvissari hætti. Ég bind vonir við að samvinnan muni leysa úr læðingi mikla skapandi krafta og bera hróður norrænnar hönnunar enn víðar en áður,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Næstu skref er að kortleggja vistkerfi landanna sem eru til staðar innan hönnunar og arkitektúrs og móta sameiginlega sýn til framtíðar ásamt aðgerðaáætlun.
Eftirfarandi stofnanir sem standa að samstarfinu:
- Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Ísland
- Dansk Design Center (DDC), Danmörk
- Dansk Arkitektur Center (DAC), Danmörk
- ArkDes, Svíþjóð
- Archinfo, Finnland
- Design Forum Finland, Finnland
- DOGA, Noregur
Eftirfarandi aðilar eiga líka aðild að verkefninu: Form/Design Center, Sveriges Arkitekter, SVID, Svensk Form, SAFA, Designinfo, Arkitektforbundet, NAL, Arkitektforeningen og Dansk Designråd.
Stærsta arkitektaráðstefna í heimi
Viðeigandi er að formlega verður tilkynnt um samstarfið á UIA heimsráðstefnu arkitekta, verður haldin í Kaupmannahöfn 2.-6. júlí 2023. Þetta er í fyrsta sinn sem ráðstefnan er haldin á Norðurlöndunum sem standa saman að því að framkvæmdinni. Ráðgert er að um 10.000 gestir sæki ráðstefnuna en Kaupmannahöfn er heimsborg arkitektúrs (e. World Captial of Architecture) árið 2023.
Sýningaskáli Norðurlandanna er unnin í samstarfi norrænu arkitektafélaganna og Norrænu ráðherranefndarinnar, en þar verður verkefnið „Hönnun í norrænni náttúru“ (e. Design in Nordic Nature) meðal annars kynnt. Verkefnið var hluti af formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni á árunum 2019-2021 og leitt af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs. Verkefnið miðlar fjölbreyttum norrænum hönnunarlausnum sem stuðla að sjálfbærri ferðamennsku en það var unnið af hönnuðum og sérfræðingum frá Danmörku, Finnlandi, Grænlandi, Íslandi og Noregi.