Elísa Jóhannsdóttir nýr framkvæmdastjóri Arkitektafélags Íslands
Elísa Jóhannsdóttir er nýr framkvæmdastjóri Arkitektafélags Íslands og tekur við starfinu 1. október. Hún tekur við af Gerði Jónsdóttir sem hefur verið framkvæmdastjóri félagsins frá 2017.
Elísa er með viðamikla og fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu en síðastliðin ár hefur hún starfað sem fræðslu-og jafnréttisfulltrúi hjá BHM. Þar áður hafði hún starfað sem aðstoðarritstjóri, markaðsstjóri, vefstjóri og sem texta og hugmyndasmiður hjá auglýsingastofum. Hún hlaut íslensku barnabókaverðlaunin 2017 fyrir skáldsöguna Er ekki all í lagi með þig? og var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir sama verk.
,,Ég er þakklát fyrir tækifærið til að fá að vinna í svona frjóu umhverfi og er spennt að kynnast félaginu og hefjast handa. Undanfarin ár hef ég unnið sem sérfræðingur á skrifstofu BHM og öðlast þar reynslu af félagastarfi og utanumhaldi um stór verkefni, sem ég tel að sé gott veganesti inn í verkefnin sem framundan eru hjá Arkitektafélaginu." Elísa Jóhannsdóttir
Elísu bíða fjölbreytt og spennandi verkefni á næstunni en auk samkeppna, samskipta við hið opinbera, uppfærslu á siðareglum, verður Arkitektafélag Íslands 100 ára 2026.
,,Við erum gríðarlega spennt að fá Elísu til starfa. Hún hefur fjölbreytta og viðamikla reynslu og verður gagnlegt að fá hennar þekkingu að borðinu. Sigríður Maack, formaður AÍ
Við bjóðum Elísu velkomna til starfa og þökkum Gerði fyrir vel unnin störf undanfarin ár.