Er hægt að hanna tengsl okkar við náttúruna? Hönnun sem stuðlar að náttúruvernd og náttúruupplifun
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, í samstarfi við systurstofnanir á Norðurlöndum, hefur gefið út dæmi um leiðir og lausnir í hönnun sem ýta undir náttúruupplifun og náttúruvernd á vefsíðunni NatNorth.is.
Náttúran er meginaðdráttarafl á Norðurlöndum sem sífellt fleiri sækja heim. Á sama tíma verður náttúran fyrir auknum ágangi og þrýstingi vegna fjölgunar ferðamanna. Markmið verkefnisins Hönnun í náttúru er að auka þekkingu, efla gæði, og sýna með dæmum hvernig beita má hönnun og arkitektúr til að takast á við náttúrutengdar áskoranir sem Norðurlönd standa frammi fyrir út frá sjónarhóli ferðamennsku og sjálfbærni.
Í verkefninu, sem unnið er af hönnuðum og sérfræðingum frá Danmörku, Finnlandi, Grænlandi, Íslandi og Noregi, er rýnt í arfleifð, samtímaverkefni og mögulegar framtíðarlausnir. Varpað er ljósi á niðurstöðu verkefnisins í gegnum sextíu hönnunarverkefni, frá Norðurlöndum sem öll eru aðgengileg almenningi og stuðla að aðgengi allra- eða greiða leið að stöðum sem áður voru óaðgengilegir. Sum verkefnanna miða að því að leiða gesti örugglega um náttúrusvæði, önnur eru færanleg og sveigjanleg mannvirki sem má fjarlægja sporlaust, eða dæmi um ígrundaða efnisnotkun sem endurspeglar virðingu fyrir umhverfinu. Þá byggja sum verkefnin á heildstæðri nálgun til þess að mæta ólíkum þörfum og stuðla að endurheimt og endurgerð menningarlandslags, mannvirkja og náttúru á smáum og stórum mælikvarða.
Auk dæma um hönnunarverkefni eru niðurstöður birtar í yfirlitsgreinum sérfræðinga frá þátttökulöndum sem gefa innsýn í staðbundnar aðstæður í hverju landi fyrir sig; lagalegt umhverfi, skipulag, og opinberar áherslur þar sem reynt er að sjá fyrir möguleika framtíðarinnar sem liggja í nýsköpun og Norrænu samstarfi.
Á vefsíðunni er einnig hlaðvarpsserían Dialogue on Design in Nature, þar sem gripið er niður í afmarkaða þætti viðfangsefnisins í samtali hönnuða og arkitekta á Norðurlöndum, því velt upp hvernig líta megi á náttúruna sem verkkaupa og skjólstæðing hönnuða, og hvernig hanna megi upplifun og samstarf um hönnun í náttúru.
Hönnun í náttúru er eitt þriggja verkefna á NatNorth.is sem eru unnin undir hatti Sjálfbærrar ferðamennsku í norðri, eitt af formennskuverkefnum Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2019-2021. Hin tvö verkefnin eru Clean Energy (Hrein orka), leitt af Orkustofnun og Nature Conservation (Umhverfisvernd), leitt af Umhverfisstofnun. Verkefnin miða að því að auka þekkingu, efla gæði og yfirsýn yfir áskoranir og tækifæri Norðurlanda í samhengi sjálfbærrar ferðamennsku í norðri.