Félagsfundur FÍT: Samningsgerð og höfundaréttur
FÍT og Myndstef standa fyrir fundi fyrir teiknara, grafíska hönnuði og myndhöfunda innan FÍT varðandi höfundaréttar- og samningamál. Fundurinn verður haldinn í Grósku, þriðjudaginn 15. nóvember kl. 17.00.
Fyrirspurnir til Myndstefs frá hönnuðum hafa verið að aukast til muna á síðustu árum og er óhætt að segja að samtökin fái um það bil eitt mál á viku inn á borð til sín, er varða brot á rétti hönnuða eða samningum þar um. Hvers vegna hafa fyrirspurnir aukist svo?
Lögfræðingur Myndstefs mun td. fara yfir þessi atriði:
- Hvernig á að semja við fyrirtæki, atvinnurekenda eða beint við kúnna?
- Hvernig á að semja við útgefanda eða annan framleiðenda? (t.d. bókaútgáfa eða hönnnarhús)
- Hvað á að innheimta fyrir höfundaréttinn?
- Hvað gerist ef nýr hönnuður tekur við brandi eða hönnun, og ætlar sér td að „uppfæra“ (breyta) merki, útlit eða heildarbrandi?
- Hvernig kemur maður í veg fyrir að hönnun verði notuð meira en leyfilegt er?
- Vinagreiði sem fer úr böndunum?
- Samstarf nokkurra hönnuða (eða arkitekta og listamanna) og teymisvinna
- Hönnun eftir pöntun kúnna sem er með mjög ákveðnar hugmyndir
- Hönnun innan skóla/stofnunar/vinnustaðar osfrv...
Um Myndstef:
Myndstef eru höfundaréttarsamtök hönnuða og annarra sjónlistarmanna. Um 2600 félagsmenn eru í Myndstef, og teljast hátt í 50% þeirra félagsmanna vera starfandi hönnuðir, og fellur þar undir grafískir hönnuðir, vefsíðuhönnuðir, tölvuleikjahönnuðir, teiknarar, kvikarar og aðrir myndhöfundar. Samtökin veita ókeypis lögfræðiráðgjöf til félagsmanna, og hafa hönnuðir nýtt sér þá þjónustu í gegnum árin.
Það hefur sýnt sig að það er hægt að bæta verulega úr ef hönnuðir eru upplýstari um hvaða möguleika þau hafi um leið og komið er út á vinnumarkaðinn og samið er við kúnna. Reynslan er því miður sú að hönnuðir eru helst að læra þetta af biturri reynslu, og stundum tugi ára eftir að hafa verið í bransanum. Saman getum við hjálpast að við að auka meðvitund fyrir þessum mikilvæga réttindi hönnuða, bæði til hönnuða en einnig til kúnnanna, og þannig stuðlað að sanngjörnum og gagnsæum samningum og samstarfi, og komið í veg fyrir mögulega kergju innan fagsins.