Og svo kemur sólin - einkasýning hönnuðarins Jóns Helga Hólmgeirssonar
Sýningin Og svo kemur sólin opnar í dag í Ásmundarsal. Um er að ræða er aðra einkasýning á vegghengdum listaverkum eftir hönnuðarins Jóns Helga Hólmgeirssonar en þar vinnur hann með samspil sólarljóss og skugga. Á sýningunni fangar hann fagurfræðina í nærumhverfi okkar en myndirnar eru skornar beint í rammagler verkanna. Sýngin stendur til 20. nóvember.
„Það er skýjað, þoka, súld. Umhverfið er grátt og rennur saman í eitt.
Og svo kemur sólin. Umhverfið skerpist, lifnar við og dýpkar.“
Án sólar eða ljóss sést ekkert í rammanum, rétt eins og í þoku, en þegar það rofar til birtist mynd inni í rammanum. Verkin haga sér mismunandi eftir magni ljóss í rými en lifna fyrst við þegar sólin leikur um þau, þar sem þau hreyfast í takt við sólarganginn.
Verkin eru unnin upp úr ljósmyndum sem Jón Helgi hefur tekið víðsvegar um landið. Myndunum er umbreytt í línuteikningar á stafrænu formi sem síðan eru sendar í gegnum tölvustýrðan fræsara sem sker verkin út í gler með demantshníf.
„Hugmyndina fékk ég þegar ég sá ryk á listaverki í stofunni hjá mér sem varpaði skugga inn í rammann á því. Ég ákvað að prófa að skera í gler og sjá hvort það myndi hafa sömu áhrif. Eftir tilraunir með mismunandi bakgrunna og fjarlægð þeirra frá glerinu fann ég milliveg sem skapar þetta þokukennda ástand verksins þegar það er skýjað en skýra mynd þegar sólin skín. Viðfangsefni myndanna eru því hlutir og form úr nærumhverfinu sem birtast, skýrast og skerpast þegar sólin lætur sjá sig.“