Feneyjatvíæringur í arkitektúr - fyrirspurnir og svör
Þann 23. apríl síðastliðinn auglýsti Miðstöð hönnunar og arkitektúrs eftir tillögum að sýningu Íslands fyrir 19. alþjóðlega tvíæringinn í arkitektúr í Feneyjum. Hér fyrir neðan eru fyrirspurnir og svör en fyrirspurnarfrestur rann út 6. maí síðastliðinn.
Þetta opna kall beinist að því að fá góða «tillögu að sýningu» á borðið. Það er ekki minnst á sýningarstjórn þrátt fyrir að hlutverk og ábyrgð teymisins sé skilgreint þá vegu. Þess vegna og okkar fyrsta spurning; hver verður sýningarstjóri (curator) sýningarinnar?
Sýningarstjórinn er einn af meðlimum teymisins. Þið setjið fram teymið og hlutverk hvers og eins í teyminu. Sýningarstjórinn getur verið einn eða fleiri úr teyminu.
Það er ekki minnst á sýningarrýmið í opna kallinu. Getur stýrihópurinn deilt upplýsingum um rýmið?
Íslenski skálinn er ekki kominn með rými eins og er. Stefnt er að því að rýmið verði í Arsenale. Um leið og það er ljóst hvaða rými íslenski skálinn fær verður það birt á vef Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.
Það er beðið um grófa kostnaðaráætlun. Á hún að innihalda ferðir og gistingu í Feneyjum og þáttöku í uppsetningu sýningarinnar að tvíæringinum loknum, eða eingöngu kostnaðaliðina sem tengjast uppsetningu sjálfrar sýningarinnar?
Kostnaðaráætlunin má vera í stórum dráttum en í henni þarf að gera ráð fyrir vinnu teymis við þróun, hönnun, útfærslu, gerð sýningarhluta fyrir eða á staðnum, aðkeypta vinnu, uppsetningu og framkvæmd sýningar í Feneyjum.
Má hluti af umsóknargögnunum (s.s. ferilsskrá og dæmi um fyrri verk) vera á ensku, eða þarf allt að vera á íslensku?
Umsóknargögn mega vera á íslensku og/eða ensku.
Hver er í dómnefnd?
Þeir sem sitja í stýrihóp tvíæringsins eru einnig valnefndarfulltrúar. Þeir sem sitja í stýrihóp tvíæringsins eru:
-Fyrir hönd Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs, Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri og formaður stýrihóps.
-Fyrir hönd Listaháskóla Íslands, Massimo Santanicchia, arkitekt, prófessor og deildarforseti í arkitektúr við LHÍ.
-Fyrir hönd Arkitektafélags Íslands, Magnea Guðmundsdóttir, arkitekt, Teiknistofan Stika
-Fyrir hönd Félags íslenskra landslagsarkitekta, Daníel Jakobsson, landslagsarkitekt, Landslag
-Fyrir hönd Félags húsgagna- og innanhússarkitekta, Silja Ósk Leifsdóttir, innanhúsarkitekt, Nordic Office of Architecture
-Fyrir hönd SAMARK, Sigurður Einarsson, arkitekt og hönnunarstjóri, Batteríið
-Fyrir hönd Íslandsstofu, Kristjana Rós Guðjohnsen, fagstjóri lista og skapandi greina
-Fyrir hönd menningar- og viðskiptaráðuneytis, Kristrún Heiða Hauksdóttir, sérfræðingur