Ísland tekur þátt í Feneyjartvíæringnum í arkitektúr 2025
Undirbúningur vegna þátttöku Íslands í Feneyjartvíæringnum í arkitektúr 2025 er hafinn. Menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur falið Miðstöð hönnunar og arkitektúrs að halda utan um verkefnið og átta manna stýrihópur hefur hafið störf. Í apríl verður kallað eftir tillögum að framlagi Íslands til Feneyjartvíæringsins í arkitektúr. Óskað verður eftir þátttöku teyma til að senda inn hugmynd að framlagi Íslands í opnu kalli.
Allar nánari upplýsingar verða vel kynntar á miðlum Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs. Við hvetjum áhugasama til að fylgjast vel með, kynna sér tvíæringinn nánar og leyfa huganum að fara á flug.
Um Feneyjartvíæringinn í arkitektúr
Tvíæringurinn í arkitektúr var fyrst haldinn 1975 og gegnir mikilvægu hlutverki við að þróa, móta og dýpka umræðu um arkitektúr um heim allan. Eins og nafnið gefur til kynna er hann haldinn annaðhvert ár, á móti tvíæringnum í myndlist. Hann byggir á sýningum frá þjóðum heims í þjóðarskálum annars vegar og sjálfstæðri sýningu undir stjórn sýningarstjóra hins vegar.
Á tvíæringnum koma saman aðilar sem vinna á vettvangi arkitektúrs og þróun manngerðs umhverfis, t.a.m. fulltrúar ríkja, sveitarfélaga, arkitektar og hönnuðir, sérfræðingar á sviði byggingartækni, framleiðendur byggingarefna, fjárfestar og þróunaraðilar bygginga svo einhverjir séu nefndir. Alls eru 63 þjóðir sem taka þátt í tvíæringnum og á síðasta tvíæringi í arkitektúr voru sýningagestir yfir 285.000 talsins og komu þeir allstaðar að úr heiminum.