Alan Ricks, MASS Design Group kemur fram á DesignTalks 2024
Arkitektinn Alan Ricks kemur fram á alþjóðlegu ráðstefnunni DesignTalks sem fer fram í Hörpu þann 24. apríl. Alan er einn af stofnendum og framkvæmdastjórum MASS Design Group (Model of Architecture Serving Society) sem telur að arkitektúr hafi mikilvægu hlutverki að gegna við að styðja samfélög til að horfast í augu við söguna, búa til nýja, vera heilandi afl og varpa fram nýjum möguleikum til framtíðar. Alan leggur sjálfur áherslu á að rannsaka, byggja og tala fyrir arkitektúr sem stuðlar að réttlæti og mannlegri reisn.
„Einstaklega mikilvæg rödd um arkitektúr sem heilar, byggir upp og endurreisir samfélög. Umhugsunarvert í dag, í heimi sem stendur frammi fyrir stórskala viðgerðum og enduruppbyggingu af ýmsu tagi.“
Hlín Helga Guðlaugsdóttir, stjórnandi DesignTalks
Alan Ricks kemur í staðinn fyrir kollega sinn hjá MASS Design Group, Christian Benimana sem við kynntum fyrr í vetur og forfallast.
Á HönnunarMars í ár er ástand heimsins speglað í sirkusnum og á DesignTalks er jafnvægis leitað og sirkushringurinn nýttur til að halda hugmyndum á lofti, spúa eldfimri snilld og fljúga hátt!
Dagskrá dagsins tekst á við öfgar og ójafnvægi ýmiskonar. Ofgnótt upplýsinga, hráefnisskort, möguleika nærumhverfisins í hnattrænu samhengi, enduruppbyggingu, heimsfjölskylduna og innri ró mun bera á góma. Í þessum tælandi töfraheimi er allt mögulegt en undir yfirborðinu kraumar hið óvænta og stundum óþægilega.
Alþjóðlega ráðstefnan DesignTalks fer fram í Silfurbergi í Hörpu þann 24. apríl 2024.
Miðasala er í fullum gangi, en uppselt hefur verið á þennan vinsæla viðburð síðustu ár. Ekki missa af þessari veislu sköpunarkraftsins!