Robert Thiemann og Hrund Gunnsteinsdóttir á DesignTalks 2024
Innanhússarkitektinn, fyrrum ritstjóri FRAME tímaritsins og stofnandi Betterness, Robert Thiemann kemur fram á DesignTalks 2024. Róbert hefur ástríðu fyrir hinu byggða umhverfi og hvernig hægt sé að bæta það til þess að einstaklingar og samfélög blómstri en að minnka á sama tíma áhrif þess á jörðina? Rithöfundurinn og sjálfbærnileiðtoginn Hrund Gunnsteinsdóttir stígur einnig á svið í Hörpu þann 24. apríl næstkomandi. Hrund leiðir saman hugmyndir og fólk þvert á fög og atvinnugreinar til að veita skapandi hugarfari og uppbyggilegum lausnum brautargengi.
„Robert hefur djúpa innsýn í þróun rýmishönnunar síðustu áratugi og stefnu og strauma dagsins í dag. Það verður líka áhugavert að heyra um feril hans frá stofnun FRAME, eins stærsta hönnunarfréttamiðils heims og þróun hans á tímum ofgnóttar upplýsinga. Hrund kemur úr allt annarri átt, en í nýútgefinni bók sinni, InnSæi fjallar hún um líka um þessa ofgnótt og hvaða áhrif það hefur á okkar innri áttavita. Við eigum von á stórkostlegu ferðalagi um “sæinn innra með okkur” eða eins og hún orðar það sjálf „Stærsta vonin um bjartari tíma liggur í því að færa grunnpunktinn með því að tengja aftur innan frá við aðrar lífverur og náttúruna. “
Hlín Helga Guðlaugsdóttir, stjórnandi DesignTalks
Á HönnunarMars í ár er ástand heimsins speglað í sirkusnum og á DesignTalks er jafnvægis leitað og sirkushringurinn nýttur til að halda hugmyndum á lofti, spúa eldfimri snilld og fljúga hátt!
Dagskrá dagsins tekst á við öfgar og ójafnvægi ýmiskonar. Ofgnótt upplýsinga, hráefnisskort, möguleika nærumhverfisins í hnattrænu samhengi, enduruppbyggingu, heimsfjölskylduna og innri ró mun bera á góma. Í þessum tælandi töfraheimi er allt mögulegt en undir yfirborðinu kraumar hið óvænta og stundum óþægilega.
Alþjóðlega ráðstefnan DesignTalks fer fram í Silfurbergi í Hörpu þann 24. apríl 2024. Miðasala er í fullum gangi, en uppselt hefur verið á þennan vinsæla viðburð síðustu ár. Ekki missa af þessari veislu sköpunarkraftsins!