Rán Flygenring á DesignTalks 2024
Hönnuðurinn, listamaðurinn og verðlaunamynd- og rithöfundurinn Rán Flygenring kemur fram á DesignTalks sem fer fram í Hörpu þann 24. apríl.
„Frásagnarlistin er eitt öflugasta tól skapandi fólks, hvort sem tilgangurinn er afþreyging, miðlun eða ákall til aðgerða. Rán er svo sannarlega sögumaður og samfélagsrýnir af Guðs náð og það verður algjör veisla að fá að skyggnast inn í hennar hugarheim.“
Hlín Helga Guðlaugsdóttir, stjórnandi DesignTalks
HönnunarMars 2024 speglar ástand heimsins í sirkusnum og DesignTalks tekst á við öfgar og ójafnvægi ýmiskonar. Í kosmísku kaosi er jafnvægis leitað og sirkushringurinn nýttur til að halda hugmyndum á lofti, spúa eldfimri snilld og fljúga hátt!
Ofgnótt upplýsinga, hráefnisskort, möguleika nærumhverfisins í hnattrænu samhengi, enduruppbyggingu, heimsfjölskylduna og innri ró mun bera á góma. Í þessum tælandi töfraheimi er allt mögulegt en undir yfirborðinu kraumar hið óvænta og stundum hið óþægilega.
Alþjóðlega ráðstefnan DesignTalks fer fram í Silfurbergi í Hörpu þann 24. apríl 2024. Miðasala er í fullum gangi, en uppselt hefur verið á þennan vinsæla viðburð síðustu ár. Ekki missa af þessari veislu sköpunarkraftsins!
Athugið að forsölu lýkur á morgun, 14. mars!