Lisa Lapauw og Mous Lamrabat á DesignTalks 2024

Grafíski hönnuðurinn, stílistinn og listræni stjórnandinn Lisa Lapauw og ljósmyndarinn Mous Lamrabat koma fram á alþjóðlegu ráðstefnunni DesignTalks sem fer fram í Hörpu þann 24. apríl. Saman mynda þau teymið Lisa&Mous og sérhæfa sig í listrænni nálgun sem sameinar tísku og hönnun með virðingu fyrir og innblástur í arfleifð og minningar.
„Ég myndi lýsa verkum þeirra sem óð til mannkyns, eða þess að vera mannlegur. Þau ögra allskyns staðalímyndum, afmá menningarleg landamæri - og eru sannkölluð veisla fyrir augað. Lisa og Mous eru ötult talsfólk jafnréttis og mannréttinda og verk þeirra láta engan ósnortin. „Real food for thought.“
Hlín Helga Guðlaugsdóttir, stjórnandi DesignTalks
Á HönnunarMars í ár er ástand heimsins speglað í sirkusnum og á DesignTalks er jafnvægis leitað og sirkushringurinn nýttur til að halda hugmyndum á lofti, spúa eldfimri snilld og fljúga hátt!
Dagskrá dagsins tekst á við öfgar og ójafnvægi ýmiskonar. Ofgnótt upplýsinga, hráefnisskort, möguleika nærumhverfisins í hnattrænu samhengi, enduruppbyggingu, heimsfjölskylduna og innri ró mun bera á góma. Í þessum tælandi töfraheimi er allt mögulegt en undir yfirborðinu kraumar hið óvænta og stundum óþægilega.
Alþjóðlega ráðstefnan DesignTalks fer fram í Silfurbergi í Hörpu þann 24. apríl 2024. Miðasala er í fullum gangi, en uppselt hefur verið á þennan vinsæla viðburð síðustu ár. Ekki missa af þessari veislu sköpunarkraftsins!





