Flétta kemur fram á DesignTalks 2024
Hönnuðirnir Hrefna Sigurðardóttir og Birta Rós Brynjólfsdóttir koma fram á alþjóðlegu ráðstefnunni DesignTalks sem fer fram í Hörpu þann 24. apríl. Saman reka þær hönnunarstúdíóið Fléttu sem vinnur að fjölbreyttum verkefnum þar sem endurnýting hráefna og staðbundin framleiðsla spilar lykilhlutverk. Á yfirborðinu einkennast verk þeirra af leikgleði og léttleika en undir niðri krauma gagnrýnar spurningar.
„Paul Smith gaf einu sinni út bókina: Þú getur fundið innblástur allsstaðar - (Og ef þú getur það ekki, horfðu þá aftur.) Hann hefði getað verið að lýsa verkum Stúdíó Fléttu, því þær finna virðið þar sem öðrum yfirsést. Hugsunarháttur sem er mikilvægt tól frammi fyrir hráefnaskorti efnisheimsins. Enda hlutu þær Hönnunarverðlaun Íslands 2024 bæði fyrir verk og innsetningu ásamt Ýrúrarí.“
Hlín Helga Guðlaugsdóttir, stjórnandi DesignTalks
Á HönnunarMars í ár er ástand heimsins speglað í sirkusnum og á DesignTalks er jafnvægis leitað og sirkushringurinn nýttur til að halda hugmyndum á lofti, spúa eldfimri snilld og fljúga hátt!
Dagskrá dagsins tekst á við öfgar og ójafnvægi ýmiskonar. Ofgnótt upplýsinga, hráefnisskort, möguleika nærumhverfisins í hnattrænu samhengi, enduruppbyggingu, heimsfjölskylduna og innri ró mun bera á góma. Í þessum tælandi töfraheimi er allt mögulegt en undir yfirborðinu kraumar hið óvænta og stundum óþægilega.
Alþjóðlega ráðstefnan DesignTalks fer fram í Silfurbergi í Hörpu þann 24. apríl 2024.
Miðasala er í fullum gangi, en uppselt hefur verið á þennan vinsæla viðburð síðustu ár. Ekki missa af þessari veislu sköpunarkraftsins!