Fjölmenni á fróðlegum viðburði Hönnunarsjóðs um nýjar áherslur í nýsköpun
Margt var um manninn í Grósku í gær þar sem fór fram viðburður í tilefni 10 ára afmælis Hönnunarsjóðs. Styrkþegar veittu innsýn inn í verkefni sem hafa hlotið styrk í gegnum tíðina, fróðlegur panell var um framtíðarsýn Hönnunarsjóðs og styrkjaumhverfið og að lokum fór fram síðari úthlutun Hönnunarsjóðs þar sem 25 verkefni á sviði hönnunar og arkitektúrs hlutu styrk.
Kynnir dagsins var Bergur Finnbogason, listrænn stjórnandi CCP.
Fjallað var um þróun í nýsköpun og nýjar áherslur tengdar samfélagslegum breytingum og umhverfismálum. Viðburðurinn hófst með því að þrír styrkþegar stigu á stokk og kynntu framgang sinna verkefna sem öll eiga það sameiginlegt að hafa hlotið styrk úr Hönnunarsjóði og í kjölfarið fengið styrki úr Tækniþróunarsjóði. Það voru þau Ragna Margrét Guðmundsdóttir frá Pikkóló, Anna Karlsdóttir og Jan Dobrowolski frá Lúdíka arkitektum með verkefnið Hampsteypa, Biobuilding og Valdís Steinarsdóttir með verkefnið Shape. Repeat.
Þá voru panelumræður þar sem rædd var framtíðarsýn sjóðsins og tengsl hans við aðra sjóði og tækifæri í stuðnings- og styrkjaumhverfi fyrir verkefni á þessu sviði.
Í panel sátu Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK, Sigurður Óli Sigurðsson, sviðsstjóri rannsókna- og nýsköpunarsviðs Rannsóknamiðstöðvar Ísland, Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Guðrún Inga Ingólfsdóttir, formaður stjórnar Hönnunarsjóðs.
Þar kom margt fróðlegt fram og greinilegt að mikilvægt samtal og tengingar eru að myndast á milli hönnunar og arkitektúrs og þeirra sem vinna að framgangi á sviði nýsköpunar.
Það er áhugavert að skoða hvort áherslur tengdar umhverfismálum og samfélagslegum breytingum séu almennt að aukast í nýsköpun og margar vísbendingar um að þau verkefni sem Hönnunarsjóður hefur verið að styrkja í gegnum tíðina séu einmitt dæmi um þá þróun. Erum við kannski að fara inn í nýja tíma með meiri kröfur til nýsköpunarverkefna um sjálfbærni og endurgjöf til umhverfis og samfélags? Aðferðir hönnunar og arkitektúrs eru nýskapandi í sjálfu sér og með Hönnunarsjóði, þó smár sé, skapast aukin tækifæri fyrir fólk sem starfar á því sviði að þróa hugmyndir og nýjar lausnir. Hönnunarsjóður hefur með nýrri nálgun skapað grundvöll til nýsköpunar innan skapandi greina. Þar er nýr vaxtarbroddur sem getur verið mjög mikilvægur í atvinnuþróun og verðmætasköpun og vert er að efla og styrkja.
Einnig voru kynntar fróðlegar niðurstöður könnunar sem gerð var meðal umsækjenda og styrkþega Hönnunarsjóðs auk þeirra sem starfa á sviði hönnunar og arkitektúrs. Nánari upplýsingar um niðurstöður verða kynntar síðar.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ráðherra menningar og viðskipta, ávarpaði hópinn ásamt því að veita styrki úr sjóðnum.
Hér má sjá brot af stemmingunni á myndum frá Víði Björnssyni, ljósmyndara.