Nýtt og spennandi samstarf á sviði fatahönnunar og verkefnið Rúststeinar hljóta hæstu styrki í úthlutun Hönnunarsjóðs
Seinni úthlutun ársins hjá Hönnunarsjóði fór fram í Grósku þann 18. október. 25 fjölbreytt verkefni á sviði hönnunar og arkitektúrs hlutu styrki en 37,8 milljónir voru til úthlutunar að þessu sinni.
Alls bárust 73 umsóknir um almenna styrki þr sem samtals var sótt um 211 milljónir og 25 umsóknir um ferðastyrki. Framlag í Hönnunarsjóð hækkaði í 80 milljónir í byrjun árs og samhliða því var gerð sú breyting á úthlutunum að hámark styrkja var hækkað og ferðastyrkir hækkuðu upp í 150 þúsund krónur hver.
Að þessu sinni voru 37,8 milljónir til úthlutunar og 25 verkefni hlutu almenna styrki og 14 ferðastyrkir voru veittir.
Hæstu styrkina, 5 milljónir hvor hljóta Narfi Þorsteinsson, verkefnastyrk fyrir verkefnið Rúststeinar, sem eru múrsteinar gerðir úr rústum húsa og er hugmyndafræðilegri nálgun verkefnisins ætlað að skapa mikilvægt samtal um „ótímabær“ niðurrif húsa. Fatahönnuðirnir Magnea Einarsdóttir og Anita Hirlekar, hlutu rannsóknar- og þróunarstyrk fyrir nýja línu sem þær vinna í samstarfi og ætlað er að varpa ljósi á íslenskt hugvit. Þetta eru hæstu styrkir sem Hönnunarsjóður hefur veitt frá upphafi.
„Það bárust virkilega vandaðar og fjölbreyttar umsóknir til Hönnunarsjóðs að þessu sinni sem, líkt og undanfarin misseri, endurspegla þá gríðarlegu grósku hjá íslenskum hönnuðum og arkitektum, sérstaklega á sviði nýskapandi verkefna og mikilvægra samfélagsverkefna þar sem sjálfbærni og hringrás eru rauður þráður. Þar liggja fjölmörg spennandi tækifæri og við fylgjumst spennt með þessum verkefnum vaxa og dafna.“ Guðrún Inga Ingólfsdóttir, formaður stjórnar.
Úthlutun fór að þessu sinni fram tengd viðburði sem haldin var í Grósku í tilefni af 10 ára afmæli sjóðsins. Þar fór fram málþing og umræður og fjallað um þróun í nýsköpun og nýjar áherslur tengdar samfélagslegum breytingum og umhverfismálum. Þá voru tengsl Hönnunarsjóðs við aðra nýsköpunarsjóði rædd og tækifæri í stuðnings- og styrkjaumhverfi fyrir verkefni á þessu sviði. Einnig voru kynntar niðurstöður viðamiklar könnunar Hönnunarsjóðs meðal styrkþega og umækjenda sjóðsins.
Lilja D. Alfreðsdóttir, ráðherra menningar og viðskipta ávarpaði hópinn og veitti styrki, kynnir var Bergur Finnbogason, listrænn stjórnandi hjá CCP.
Hér fyrir neðan má lesa nánar um verkefnin sem hlutu almenna styrki úr Hönnunarsjóði.
Markaðs- og kynningarstyrkir
Íslenskt tweed á erlendan markað - Kormákur og Skjöldur - 2.500.000 kr.
Kormákur & Skjöldur halda í áframhaldandi sókn erlendis með fatalínur sínar úr íslensku tweedi árið 2024. Merkið hefur nú þegar sýnt bæði á Ítalíu og í Danmörku með góðum árangri.
Pizzatime x Fólk Reykjavík á 3 Days of Design - Stúdíó Flétta - 1.000.000 kr.
Pizza Time gjörningurinn með hönnuðunum Fléttu og Ýrúrarí verður framkvæmdur í samstarfi við Fólk Reykjavík á 3daysofdesign hönnunarvikunni í Kaupmannahöfn. Á viðburðinum eru þæfðar ullarpítsur af matseðli fyrir gesti úr afgöngum frá ullariðnaði. Pítsurnar eru þæfðar í nálaþæfingarvél sem minnir á pítsuofn.
Stockholm Furniture Fair - Hanna Whitehead - 1.000.000 kr.
Þátttaka í Stockholm Furniture Fair dagana 6 - 10 febrúar 2024, á sérstöku svæði sem nefnist Greenhouse sem leggur áherslu á að kynna spennandi og upprennandi hönnuði. Sýningin er leiðandi í kynningu á skandínavískri hönnun og laðar að gesti úr öllum heiminum.
SWIMSLOW - Erna Bergmann - 1.000.000 kr.
Swimslow er sjálfbært sundfatamerki stofnað árið 2017. Verið er að hanna og framleiða nýjar umbúðir sem auðvelda sölu á sundfötunum á ýmsum baðstöðum og í verslunum sem og að sækja sölusýningu í Kaupmannahöfn.
Sundföt by Petra Bender - Petra Bender - 1.000.000 kr.
Áhersla er lögð á markhópinn sjósundiðkendur og áhugafólk um brimbretti. Bolurinn er hugsaður fyrir sund á Íslandi og brimbrettaiðkun í heitari löndum. Lífstíll er megininntak markaðssetningarinnar sem og umhverfismál.
Íslenskar vélatuskur, afgangstextíll i hringrá - On to Something - 1.000.000 kr.
Verkefnið vinnur markvisst að því að skapa verðmæti úr afgangstextíl frá íslenskum fyrirtækjum og stofnunum ásamt því að fjölga verkefnum fyrir starfsfólk með skerta starfsgetu og efla hringrásarhagkerfið!
Borgartunnan - IFAT - Baldur Helgi Snorrason - 1.000.000 kr.
Kynntar verða allar útfærslur Borgartunnunar á IFAT ráðstefnunni í Munchen 2024, sem er leiðandi ráðstefna á heimsvísu um meðhöndlun vatns, skólps, úrgangs og hráefna.
Bók um verkefnið Biobuilding - Lúdika arkitektar - 600.000 kr.
Bók um verkefnið BioBuilding þar sem farið verður yfir hönnunar- og byggingarferlið á myndrænan hátt og fjallað um innlend byggingarefni og byggingariðnað. Markmiðið er að miðla upplýsingum um notkun iðnaðarhamps og annarra lífrænna efna í íslensku samhengi og deila reynslu frá byggingu frumgerðar.
Verkefnastyrkir
Rúststeinar - Narfi Þorsteinsson og Adrian Freyr Rodrigues - 5.000.000 kr.
„Rúststeinar“ eru múrsteinar gerðir úr rústum húsa. Verkið er listræn framsetning á rannsóknarverkefni á steinsteypu með megináherslu á múrbrot. Þar er saga þeirra rakin og framtíð þeirra velt fyrir sér. Hugmyndafræðilega nálgun verkefnisins er ætlað að skapa samtal um „ótímabær“ niðurrif húsa.
Wasteland Ísland - Lendager á Íslandi - 2.500.000 kr.
Sýning þar sem kynntar verða sjálfbærar leiðir við að nýta hráefni í hinu byggða umhverfi. Umframefni frá rekstri fyrirtækja, byggingarúrgangur og náttúruleg staðbundin hráefni verða skoðuð í íslensku samhengi og myndaður samræðuvettvangur um byggingarefni framtíðarinnar.
Sýndarveruleiki sjónaukar - Gagarín - 1.000.000 kr.
Í sýndarveruleika sjónaukum geta notendur kannað tiltekna staði þar sem viðbótarveruleiki og/eða sýndarveruleiki bætist við upplifun þeirra. Þannig má t.d horfa aftur í tímann eða inn í framtíðina og/eða fá nánari upplýsingar um allt það sem fyrir augu ber þegar sjónaukanum er beint út í umhverfið.
Samtal um glerunga/sjálfbærni - Sigurlína Margrét Osuala - 1.000.000 kr.
Á bak við verkefnið Samtal um glerunga eru 7 listakonur og hönnuðir frá Norðurslóðum; Íslandi, Danmörku og Kanada. Verkefnið stuðlar að miðlun upplýsinga og þekkingar um glerunga og leiðir af sér nýsköpun og sjálfbærni í keramikfaginu.
Tákn lands og þjóðar - Hörður Lárusson - 500.000 kr.
Bókverk sem hampar og skoðar myndrænu hliðarnar á táknum lands og þjóðar. Mörg táknanna þekkjum við en önnur ekki. Íslenski fáninn, skjaldarmerkið, fálkaorðan, landshlutamerkin, forsetaskildirnir og fleira. Hvernig eiga þessi tákn við okkur í dag og skipta þau máli?
Rannsóknar- og þróunarstyrkir
MAGNEA X ANITA HIRLEKAR - Magnea Einarsdóttir og Anita Hirlekar - 5,000,000 kr.
Samstarfslína fatahönnuðanna Anítu Hirlekar og Magneu Einarsdóttur þar sem þær sameina krafta sína og herja á erlendan markað með nýtt íslenskt tískumerki. Byggt verður á sameiginlegri reynslu, grunni og dýrmætri þekkingu. Með nýju merki varpa hönnuðirnir ljósi á íslenskt hugvit og uppruna fyrir erlendan hóp fjölmiðla og neytenda.
ANDRÁ 01 - Steinunn Björg Hrólfsdóttir - 2,000,000 kr.
Fyrsta fatalína Andrá Reykjavík. Um er að ræða heildstæða fatalínu þar sem yfirhafnir einangraðar með íslenskri ull eru í forgrunni.
Sambýlisform kynslóðanna - Tendra - 1,500,000 kr.
Íslenska þjóðin eldist hratt. Þetta er risavaxin áskorun og þörf á kostnaðarsamri uppbyggingu til að mæta þörfum þessa hóps. Í gegnum tíðina hefur stórfjölskyldan (þrjár kynslóðir) deilt heimili. Gætu ólík sambýlisform kynslóða verið hluti af lausn á þessari miklu áskorun?
Samhljómur / In dialogue with nature - Sigmundur Páll Freysteinsson og Halldór Eldjárn - 1,500,000 kr.
Tækni nýtt á nýstárlegan hátt þar sem skrifað er forrit sem lætur tölvuna reikna stensilmynstur til prentunar út frá fyrirfram gefnum forsendum. Hefðbundið handverk mætir tækninni og afraksturinn er túlkaður og unninn á textíl þar sem hver litur er unnin með hefðbundnum náttúrulegum aðferðum.
Hljómkassar - Jón Helgi Hólmgeirsson og Halldór Eldjárn - 1,500,000 kr.
Verkefnið Hljómkassar sameinar tónlist og hönnun í nýstárlegum hátalara. Afurðin er bæði vandaður gripur hannaður með íslensk hráefni í huga en einnig verkfæri handa tónlistarfólki til sköpunar. Eiginleikar íslenskra hráefna skila sér í hljómburði og íslenskt hugvit ræður för í hönnun og ásýnd.
House of error - Sigríður Birna Matthíasdóttir - 1.000.000 kr.
House of Error er vettvangur fyrir stafræna tísku, þar sem hægt er að kaupa, selja og klæðast stafrænni tísku í gegnum viðbótarveruleika. Stafræn tíska er sýndarþrívíddarfatnaður og verður aldrei áþreifanleg og er því töluvert ódýrari og sjálfbærari kostur en hefðbundinn tíska.
Útivistarskór úr íslensku hráefni - Guðmundur Magnússon og RANRA studio - 1,000,000 kr.
Samstarfsverkefni Guðmundar Magnússonar og Ranra Studio / Arnars Más Jónssonar. Unnið verður að þróun á útivistarskóm úr íslenskum hráefnum. Verkefnið felst í rannsókn og þróun á efniskennd og þeirra framleiðslumöguleika sem íslensk hráefni hafa upp á að bjóða til notkunar í skófatnað fyrir útivist.
Melta, bætt flokkun og söfnun lífræns hráefnis - Kristjana Björk Brynjarsdóttir - 1,000,000 kr.
Melta er closed-loop hringrásarkerfi fyrir dreifbýl sveitarfélög sem felst í því að brugga næringarríkan áburð – Meltu – úr lífrænum heimilisúrgangi. Verkefnið snýst um hönnun á búnaði sem leysir þær einstöku áskoranir sem fylgja sorphirðu í dreifbýli og eykur hringrásarmöguleika lífúrgangs.
Hagvextir - Grallaragerðin - 600.000 kr.
Markmið verkefnisins er að nýta hagfræðigögn til að skapa áhrifamikla þrívíða skúlptúra. Hér er gerð tilraun til þess að auka skilning á flóknum tölfræði upplýsingum með hlutbundinni miðlun. Sem dæmi gæti þróun á vergri landsþjóðarframleiðslu orðið að fallegum vasa.
Aldamótamenn, tíu húsameistarar fæddir fyrir aldamótin 1900 - Björn Georg Björnsson 500.000 kr.
Bók um tíu húsmeistara sem fæddir eru fyrir aldamótin 1900. Þeir hófu feril sinn sem smiðir, bættu við sig teiknikunnáttu og gerðust mikilvirkir bygginga- og húsameistarar í Reykjavík og víða um land. Bókina prýðir mikill fjöldi ljósmynda, greinargóður texti, verkaskrár þeirra.
Textílfélagið í hálfa öld - Textílfélag Íslands - 500.000 kr.
Textílfélagið á sér merka sögu sem á erindi við allt áhugafólk um íslenska hönnun og myndlist. Saga félagsins tengist m.a. kvenréttindabaráttunni á Íslandi og þróun hönnunar sem fags hérlendis. Ritið kemur út í kjölfar afmælissýningar félagsins sem m.a. verður haldin í Hönnunarsafninu og víðar árið 2024.
Myndræn náttúruvitundarrannsókn - Rán Flygenring - 500.000 kr.
Af hverju fer möppudýr á leynilega hugleiðslufundi í hádeginu, gröfukall fyrir austan gerir samninga við álfa og háskólaprófessor færir mosanum fórnir? Myndræn rannsókn á náttúruvitund og þeim áhrifum sem náin sambúð við náttúruöfl, myrkur, veður & vættir hefur á umhverfisviðhorf á Íslandi.
Ferðastyrkir að upphæð 150.000 kr.
- Smjör ehf, Rannsóknarferð, Berlín
- Raphaël Costes, Crafting culture, Frakkland
- Erla Björk Baldursdóttir, ISPO, Þýskaland
- Hrefna Sigurðardóttir, Feneyjatvíæringurinn, Ítalía
- Lúdika Arkitektar, Biobuilding, England
- Svana Lovísa Kristjánsdóttir, 3 Days of Design, Danmörk
- Magnús Albert Jensson, Hvammur á völlum, Ísland
- Marko Svart, Ekkert er til, Frakkland
- Halldóra Sif Guðlaugsdóttir, Sif Benedicta, Litháen
- Ingibjörg Hanna Bjarnadóttir, Ihanna, Portúgal
- Halldóra Arnardóttir, Skarphéðinn Jóhannsson, Noregur
- Óskar Örn Arnórsson, Emerging Ecologies, Bandaríkin
- Kristveig Halldórsdóttir, Paper Alive, Þýskaland
- Þórdís Rós Harðardóttir, CIE 2023, Slóvenía