Svífandi stígar tilnefndir sem vara ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023
Svífandi stígar eftir Birgi Þ. Jóhannsson og Laurent Ney eru tilnefndir í flokknum vara ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023.
Rökstuðningur dómnefndar:
Svífandi stígar er sérhannað stígakerfi sem ver náttúru fyrir ágangi og opnar hjólastólanotendum aðgengi að útivist.
Hönnun stíganna svarar brýnu kalli um styrkingu innviða í ferðaþjónustu og er leið til að uppfæra malarstíga með umhverfis- og samfélagslega ábyrgum hætti. Verkefnið er marglaga, í því mætist algild hönnun og náttúruvernd. Greiðara aðgengi að náttúru landsins hefur í för með sér heilsubót og meiri lífsgæði fyrir alla sem þess njóta. Stígarnir eru hannaðir með viðkvæmustu svæðin í huga; svo sem hraun, hverasvæði og mýrlendi án þess að undirlag stíganna verði fyrir hnjaski.
Náttúruvernd er höfð að leiðarljósi við hönnun stíganna og við uppsetningu er stefnt að lágmarksraski svo stígana megi setja upp og fjarlægja án nokkurra ummerkja. Þá fylgir smíði þeirra reglugerð um algilda hönnun og tryggir þannig fólki sem notar hjólastóla aðgengi að ósnortinni náttúru. Möguleikar þessa hóps til útivistar eru oft takmarkaðir og stígarnir bæði fjölga þessum möguleikum og einfalda þá.
Hönnuðir Birgir Þ. Jóhannsson og Laurent Ney, Alternance slf. hafa með Svífandi stígum búið til einfalda og auðvelda lausn til að auðvelda öllum aðgengi að náttúrunni.
Um:
Birgir Þ. Jóhannsson er arkitekt með sérhæfingu í borgarhönnun frá ISACF La Cambre í Brussel. Hann stofnaði Alternance árið 2000 og verkefni hans spanna allt frá borgarskipulagi og arkitektúr að húsgagnahönnun. Meira um Svífandi stíga hér.
Laurent Ney er arkitekt og verkfræðingur. Hann er CEO hjá Ney & Partners, framkvæmdastjóri hjá Ney & Partners BXL, rekstrarstjóri hjá Ney & Partners LUX og stofnandi Ney & Partners.
Hönnunarverðlaun Íslands 2023 og samtal þeim tengt fer fram þann 9. nóvember í Grósku. Taktu daginn frá!
Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi með áherslu á áhrif þeirra á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið allt. Þau verða veitt í tíunda sinn í ár (2023) og í tilefni af því hefur verðlaunaflokkum verið fjölgað í þrjá undir heitunum Verk // Staður // Vara.
Dómnefnd tilnefnir þrjú verkefni í hverjum flokki og af þeim hlýtur einn sigurvegari í hverjum flokki Hönnunarverðlaun Íslands 2023 sem eru hvor tveggja heiðurs- og peningaverðlaun. Auk þess verður veitt viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun og Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands.
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.