Pítsustund með Fléttu og Ýrúrarí tilnefnt sem verk ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023
Pítsustund eftir Fléttu, Hrefnu Sigurðardóttur og Birtu Rós Brynjólfsdóttur og Ýrúrarí, Ýr Jóhannsdóttur er tilnefnt í flokknum verk ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023.
Rökstuðningur dómnefndar:
Pítsustund er verk, gjörningur og mjög áhugaverð tilraun sem sýnir hvernig hægt er með aðferðum hönnunar og á mjög skemmtilegan og eftirtektarverðan hátt að varpa ljósi á nýtingu afgangsafurða og verðmæti þeirra.
Pítsustund verk hönnunarstúdíósins Fléttu og textílhönnuðarins Ýrúrarí var fimm daga gjörningur haldinn á HönnunarMars 2023, þar sem hönnuðirnir þæfðu ullarpítsur úr afgöngum frá íslenskum ullariðnaði og seldu viðskiptavinum eins og um venjulegar pítsur væri að ræða. Sviðsmynd verksins var byggð í kringum nálaþæfingarvél sem var í hlutverki pítsuofns en hönnuðirnir brugðu sér í hlutverk bakara og afgreiðslufólks. Leikgleðin var allsráðandi í verkinu hvort sem það sneri að grafískri hönnun matseðla, klæðnaði, sviðsetningu eða vörunni sjálfri. Sýningarrýmið, búðarrými á miðjum Laugavegi var með stórum aðgengilegum gluggum sem gerði gestum kleift að fylgjast með öllu ferlinu, þannig að áhorfandinn fékk góða innsýn í framleiðsluna sem yfirleitt fer fram á bak við luktar dyr.
Með verkinu Pítsustund tókst hönnuðunum að skapa eftirminnilega upplifun og um leið áhugaverða félagslega tilraun, sem vakti mikinn áhuga og ánægju hjá gestum og gangandi. Ullarpítsurnar slógu í gegn, ruku út og langar biðraðir mynduðust við sýningarstaðinn. Svo fór að allt hráefni kláraðist og hönnuðirnir náðu ekki að anna eftirspurn á meðan á þessari mögnuðu fimm daga pítsustund stóð.
Um:
Flétta, hönnunarstofa var stofnuð árið 2018 af vöruhönnuðunum Hrefnu Sigurðardóttur og Birtu Rós Brynjólfsdóttur, sem eru útskrifaðar úr vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands. Í vinnu sinni einblína þær á umhverfismál og láta hráefni ráða för. Verkefni þeirra stuðla að staðbundinni framleiðslu og nýtingu hráefna sem annars hefði verið urðuð.
Ýr Jóhannsdóttir er textílhönnuður og listamaður frá Íslandi, með aðsetur í Berlín og Reykjavík og starfar undir nafninu Ýrúrarí. Verk hennar eru að mestu prjónuð, þar sem brot af húmor, líkamshreyfingum og hversdagsleikanum mætast í ullarflíkum. Sjálfbærni og endurnýting eru Ýr hugleikin í verkum hennar.
Hönnunarverðlaun Íslands og samtal þeim tengt fer fram í Grósku þann 9. nóvember næstkomandi. Taktu daginn frá!
Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi með áherslu á áhrif þeirra á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið allt. Þau verða veitt í tíunda sinn í ár (2023) og í tilefni af því hefur verðlaunaflokkum verið fjölgað í þrjá undir heitunum Verk // Staður // Vara.
Dómnefnd tilnefnir þrjú verkefni í hverjum flokki og af þeim hlýtur einn sigurvegari í hverjum flokki Hönnunarverðlaun Íslands 2023 sem eru hvor tveggja heiðurs- og peningaverðlaun. Auk þess verður veitt viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun og Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands.
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.