RANRA x Salomon tilnefnt sem vara ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023
RANRA x Salomon eftir þá Arnar Már Jónsson og Luke Stevens fyrir Salomon er tilnefnt í flokknum vara ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023.
Rökstuðningur dómnefndar:
RANRA x Salomon er samstarf hönnunarstúdíósins RANRA við alþjóðlega útivistarmerkið Salomon um hönnun umhverfisvæns skófatnaðar.
Hönnuðirnir nálgast verkefnið út frá hugmyndafræði umhverfisverndar og sjálfbærni sem leggur línurnar fyrir efnisval og framleiðslu. Skórnir eru mjög eftirsóttir, unnir í anda „gorpcore“ tísku sem liggur á mörkum útivistar- og tískufatnaðar og höfða jafnt til þeirra sem vilja leggja áhersla á umhverfið en ekki síður hinna sem eru ekki svo meðvitaðir um það. Nýstárleg efnisnotkun, faglegt og einstakt handbragð og fagurfræði RANRA skín í gegn með áherslu á náttúrulitun, endurunnin og endurnýtanleg hráefni. Kynningarefni vörunnar í vakti mikla eftirtekt en þar var skórinn settur fram á gamansaman hátt með skírskotun í Skandinavískar matarhefðir, jarðveg, menn og dýr.
Ranra er hönnunarstofa Arnars Más Jónssonar og Luke Stevens í London og Reykjavík sem sérhæfir sig í útivistarfatnaði sem er hannaður fyrir náttúruna og borgarumhverfið. Samstarf RANRA við útivistarmerkið Salomon hófst árið 2022 og hefur vakið heimsathygli. Þetta er í annað sinn sem RANRA hannar Cross Pro skóna sem Salomon framleiðir.
Um:
Ranra er hönnunarstúdíó staðsett í London og Reykjavík stofnað árið 2019 sem sérhæfir sig í útivistarfatnaði hannaður fyrir bæði náttúru og borg. Stúdíóið er byggt upp með samstarf og hönnun að leiðarljósi. Stúdíóið vinnur að fjölbreyttum verkefnum allt frá vöru- og textílþróun og vöruhönnun til framleiðslu.
Luke Stevens er meðstofnandi RANRA, staðsettur í London. Luke útskrifaðist frá Royal College of Art Menswear Program árið 2016, en hann lauk áður BA-prófi í kvenfatnaði við Central St. Martins. Meðfram starfi sínu hjá RANRA hefur Luke unnið að fjölmörgum þverfaglegum hönnunarverkefnum og sýnt samstarfsverkefni á Seoul Biennale of Architecture and Urbanism, London Design Festival og Vínar Biennale.
Arnar Már Jónsson er meðstofnandi RANRA, staðsettur á Íslandi. Arnar útskrifaðist frá Royal College of Art Menswear árið 2016, en hann lauk áður BA-prófi í fatahönnun við IUA. Meðfram starfi sínu hjá RANRA hefur Arnar unnið með vörumerkjum á borð við Stone Island, Loro Piana og Adidas.
Hönnunarverðlaun Íslands 2023 og samtal þeim tengt fer fram þann 9. nóvember í Grósku. Taktu daginn frá!
Nú er bráðum búið að tilkynna allar níu tilnefningarnar til Hönnunarverðlauna Íslands - kynntu þér tilnefningarnar hér.
Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi með áherslu á áhrif þeirra á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið allt. Þau verða veitt í tíunda sinn í ár (2023) og í tilefni af því hefur verðlaunaflokkum verið fjölgað í þrjá undir heitunum Verk // Staður // Vara.
Dómnefnd tilnefnir þrjú verkefni í hverjum flokki og af þeim hlýtur einn sigurvegari í hverjum flokki Hönnunarverðlaun Íslands 2023 sem eru hvor tveggja heiðurs- og peningaverðlaun. Auk þess verður veitt viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun og Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands.
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.