Fjölskyldusmiðjur Hönnunarsafns Íslands hefjast á ný
Fyrsta sunnudag hvers mánaðar býður Hönnunarsafn Íslands fjölskyldum í skapandi smiðju með hönnuðum og listhandverksfólki sem veita börnum innsýn í ólíkar greinar. Á dagskrá vetrarins eru fjölbreyttar smiðjur, allt frá textíl til arkitektúrs. Á meðal nýstarlegra smiðja má nefna bangsastólasmiðju og piparkökuarkitektúr.
Sunnudaginn 1. september fer fram fyrsta smiðja vetrarins „Körfugerð - Fjölskyldusmiðju með Guðrúnu Pétursdóttur“.
Smiðjan opnar glugga inn í heillandi heim körfugerðar og er leidd af Guðrúnu Pétursdóttur sem lýkur senn vinnustofudvöl á safninu. Guðrún hefur stundað körfugerð í rúm 40 ár og haldið fjölda námskeiða. Undanfarinn áratug hefur hún alfarið snúið sér að því að nýta efnivið úr íslenskri náttúru til körfugerðar og listsköpunar. Körfurnar hennar eru úr víðigreinum, berki, rótum, melgresi og íris. Á þessari smiðju kennir hún fjölskyldum að vefa litríkar litlar körfur sem eru tilvaldar undir gersemar og góðgæti!
Smiðjan er 1. september kl 13-15 í fræðslurými Hönnunarsafns Íslands.
Aðgangur er ókeypis og öll velkomin!