Forsala hafin á DesignTalks 2023
DesignTalks fer fram þann 3. maí 2023. Búið er að opna fyrir miðasölu og er takmarkaður fjöldi miða í boði á sérstöku forsöluverði. Ekki láta heilan dag fullan af innblæstri, nýsköpun og skapandi krafta framhjá þér fara!
„Allt í okkar manngerða umhverfi er hannað, líka sum vandamál. Þess vegna þurfum við stöðugt að hugsa um og vinna að umbótum,“
Hlín Helga Guðlaugsdóttir, listrænn stjórnandi DesignTalks.
DesignTalks er stór ráðstefna og vel þekkt alþjóðlega sem mikilvægur vettvangur innblásturs og samtals um helstu þróun og breytingar sem drifnar eru áfram með aðferðum hönnunar og arkitektúrs - og einn sá skemmtilegasti!
Viðburðurinn tekur á áskorunum líðandi stundar og varpar ljósi á mikilvægi hönnunar og arkitektúrs í samfélagslegum og hnattrænum breytingum, með erindum um áhrifamikil verkefni og innblásnum samtölum. Hönnuðir, arkitektar og skapandi hugsuðir, erlendir og innlendir veita innsýn í brýn viðfangsefni af öllu hjarta. Ekkert er utan seilingar.
Fatahönnuðir, matarhönnuðir, arkitektar, vöruhönnuðir og gagnvirkni hönnuðir hafa fjallað um sjálfbærni og hringrásarhagkerfið í hönnun, tækni, jafnrétti, sveppi, upplifunarhönnun, stafræna tísku, upplýsingahönnun, endurhönnun kerfa, hönnunarhugsun, spáhönnun og framtíðir, gagnalæsi og hönnun í geimnum - fyrir jörðina.
DesignTalks höfðar til allra sem láta sig hönnun, arkitektúr, nýsköpun og framtíðarhugsun varða og hefur að markmiði að hvetja til skapandi samtals og samstarfs í víðu samhengi. Síðustu ár hefur ráðstefnan farið fram fyrir fullu húsi í Silfurbergi í Hörpu svo það er um að gera að tryggja sér miða snemma.
„Það er verið að fara yfir mál sem varða okkur öll og framtíðina. Þetta er lykilviburður í hönnun á Íslandi á árinu. Það er alveg á hreinu.“
Katrín Ólína Pétursdóttir, deildarforseti hönnunardeildar Listaháskóla Íslands
Í gegnum árin hafa fjölmargir eftirsóttir fyrirlesarar komið fram. Þar má nefna arkitektinn Bjarke Ingels, BIG, fatahönnuðinn og aktívistann Katharine Hamnett, Robert Wang sköpunarstjóra Google Creative Lab, fatahönnuðinn Calvin Klein, arkitektinn Kristian Edwards frá Snøhetta, spáhönnuðinn Daisy Ginsberg, grafíska hönnuðinn Jonathan Barnbrook, fatahönnuðinn Eley Kishimoto, grafíska hönnuðinn Jessica Walsh, Sagmeister&Walsh, arkitektinn Anders Lendager, sci-fi arkitektinn Liam Young og marga fleiri.
Ráðstefnan er lykilviðburður HönnunarMars og hefur verið einn best sótti viðburður hátíðarinnar frá upphafi þar sem um 800 manns hafa tekið þátt. Hlín Helga Guðlaugsdóttir er listrænn stjórnandi DesignTalks sem framleiddur af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs. HönnunarMars fer fram í fimmtánda sinn dagana 3. - 7. maí 2023.
Í fyrsta sinn árið 2022 var DesignTalks ráðstefnunni streymt beint út fyrir landssteinana í samstarfi við hönnunarmiðilinn Dezeen og Íslandsstofu. Hér er hægt að horfa á streymi.