Framtíð sem byggir á hönnun, hugviti og nýsköpun
Í sumar fór fram stefnumót hönnuða og arkitekta þar sem markmiðið var að skerpa fókus, skilgreina helstu áherslusvið og móta markvissar tillögur um aðgerðir til að kynna fyrir stjórnmálafólki vegna kosninga til Alþingis. Samhljómur var um áherslurnar og að Ísland eigi mikinn og vaxandi mannauð með mikla þekkingu og reynslu sem má virkja betur.
Tveir opnir vinnufundir fóru fram í Grósku, undir stjórn Hlínar Helgu Guðlaugsdóttur þar sem fjölmennur hópur úr ólíkum greinum hönnunar og arkitektúrs, atvinnulífi, háskólaumhverfi og stjórnsýslu kom saman til að eiga samtal um markmið og aðgerðir til að efla hönnun og arkitektúr á Íslandi. Samtal við stjórnmálafólk er hafið með fundum, kynningum og greinaskrifum.
Ennfremur stendur nú yfir vinna í Miðstöð hönnunar og arkitektúrs við mótun aðgerða en hér má sjá þau svið sem voru skilgreind í vinnunni, þar sem hönnun og arkitektúr hafa mikilvægu hlutverki að gegna:
Verðmætasköpun og staðbundin framleiðsla
- hönnun sem þjónusta til að auka gæði og samkeppnishæfni
- umhverfisvæn og staðbundin vöru- og fatahönnun
- endurhönnun, endurnýting og hringrásarhagkerfi
Innviðir, mannvirki og byggingar
- notendamiðuð og sjálfbær hönnun í manngerðu umhverfi og skipulagi
- þróun umhverfisvænna efni og aðferða í byggingariðnaði
- hönnun öflugra innviðir sem þjóna notendum
Myndræn miðlun og samskipti
- hönnun sem tæki til að að skýra og einfalda
- hönnun sem eykur skilning og eflir samtal
- stefnumótandi hönnun
Lýðheilsa og heilbrigði
- heildræn stefnumótandi hönnun í velferðar- og heilbrigðiskerfi
- þjónustu- og upplifunarhönnun og notendamiðaðra lausnir
- hönnun sem skýrir, auðveldar, eykur vellíðan og dregur úr kostnaði
Tæknivæðing og stafræn þróun
- þjónustu- og upplifunarhönnun í stafrænni þróun
- mannvæn og virðisaukandi nálgun og sýn á tæknibreytingar
- ný og áhugaverð störf fyrir hönnuði í tækni
Framtíðarkynslóð og atvinnusköpun
- menntun nýrra kynslóða
- þverfagleg nálgun í menntun, þekkingu, samstarfi
- góð atvinnutækifæri fyrir nýútskrifaða hönnuði og arkitekta
Hönnun og arkitektúr snúast um skapandi lausnir sem þjóna notandanum, eru einfaldar, skiljanlegar, hagkvæmar með tilliti til gæða og fjármagns auk þess að skapa góða upplifun og fegurð.
Í vinnunni var mjög mikill samhljómur um áherslurnar og að á Íslandi eigum við mikinn og vaxandi mannauð með mikla þekkingu og reynslu sem má virkja miklu betur í þágu atvinnulífs til auka sjálfbæra verðmætasköpun og gæði samfélagsins til framtíðar sem byggir á hönnun, hugviti og nýsköpun.