Arkitektúr og pólitík
Bjarki Gunnar Halldórsson, arkitekt FAÍ, skrifar:
Ég gekk fram hjá byggingu um daginn sem hreif mig í alla staði. Þetta fallega verk bjó yfir kynngimagnaðri orku sem stuðlaði að vellíðan og kallaði fram jákvæðar hugsanir og bjartsýni til framtíðar. Hvað skóp þessa merkilegu tilfinningu?
Hvort sem horft er á verk af þessu tagi heildstætt eða hina smáu þræði þess þá virðist allt virka. Verkið lagar sig að nærliggjandi byggð, þó það sé stærra og öðruvísi í sniðum. Þeir sem standa að verkinu falla ekki í þá freistni að byggja það aðeins of stórt til að nýta byggingarreitinn betur, heldur er verkið í sinni skipulagslegu heild undirstaða að jafnvægi en líka framþróun umhverfisins.
Þegar byggingin er skoðuð nánar má sjá fólk á tali hvort við annað inni í sameiginlegu stigahúsi. Það er stemning yfir þessari samveru, þó hún eigi sér stað í hversdagslegum athöfnum daglegs amsturs, enda eru rýmin björt með útsýni út í gróðursælan garð.
Í garðinum má sjá leiksvæði. Ekki bara rólu og rennibraut heldur merkingarbæran stað fyrir börn til að vera á. Gróðurinn, yfirborðsfletir og landmótunin búa yfir jafnmiklum leik og hefðbundin leiktæki og þegar betur er að gáð má sjá eplatré sem ber ávöxt. Líklega af því að byggingarnar mynda skjól og eru hæfilega háar.
Þegar byggingin er skoðuð nánar að innan þá virka íbúðirnar einfaldar og hagkvæmar, þó án þess að hinn hagkvæmi hugsunarháttur beri verkið ofurliði. Hið hagkvæma og notadrjúga virkar sem meðvitaður hluti af fagurfræðilegri heild. Útlitið endurspeglar reglufestu og aga á sama tíma og það býr yfir listrænum blæ.
Hrifning mín jókst þegar í ljós kom að verkið var ætlað þjóðfélagshóp sem hefur lítinn aur á milli handanna. Góður arkitektúr er hér sannarlega fyrir alla. Bætt lífskjör felast hér í góðu umhverfi sem hefur jákvæð áhrif á líf fólks og andlega heilsu þess.
En hvað var það sem skóp þessi gæði?
Vafalaust hafa góðir arkitektar, byggingarfræðingar og verkfræðingar ásamt vandvirkum iðnaðarmönnum spilað miklivægt hlutverk við að skapa þennan fallega ramma utan um líf fólks. Aðilar á ólíkum stigum stjórnsýslunnar mega líka fá hrós sem og verkkaupinn sem virðist hafa búið yfir metnaði til að gera vel. Góð samvinna allra þessara aðila hefur að sama skapi skipt miklu máli.
Þó að góð samvinna og vandvirk vinnubrögð séu mjög mikilvæg þá var það síðast en ekki síst sterk pólitísk sýn sem sló lokahöggið við að skapa gott verk. Þetta var ekki sýn full af slagorðum eins og “hagkvæmt húsnæði” eða “litlar, ódýrar íbúðir” og markmiðið virkaði stærra en svo að ákveðnir sérhagsmunir væru í húfi. Það var miklu frekar einföld sýn um að skapa fallegan ramma utan um líf fólks sem var altumlykjandi.
Fyrir og eftir alþingiskosningarnar þann 25. september verður vafalaust mikið rætt um pólitískt landslag, í gegnum línuleg gröf og súlurit. Hvernig þetta pólitíska landslag birtist í umhverfi okkar, til lengri tíma eftir kosningar, er þó eflaust miklu stærri og mikilvægari spurning.
Höfundur er arkitekt og situr í orða- og ritnefnd Arkitektafélags Íslands. Greinin birtist fyrst á Kjarninn.is 9. september 2021